2014-12-18 20:08:29 CET

2014-12-18 20:09:30 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Ríkisútvarpið ohf. - Fyrirtækjafréttir

Tilkynning frá Ríkisútvarpinu ohf.


Þann 1. október sl. tilkynnti RÚV um að samkomulag hefði náðst milli félagsins
og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkissins sem er eigandi að skuldabréfi í 1.
flokki 2000 um frest á greiðslu skuldabréfsins á gjalddaga 1.október til
31.desember 2014. 

Tilkynnist hér með að samkomulag hefur náðst á milli aðila um að framlengja
þann frest til 31. mars 2015. Erfið fjárhagsstaða RÚV veldur því að ekki er
bolmagn til að greiða afborgunina, en hún er að upphæð um 190 m.kr. Þar að auki
er samkomulag um að kröfuhafar beiti ekki vanefndaúrræðum af þessu tilefni og
að ekki verði gengið að eignum félagsins á þessu tímabili.  Frestunin mun því
ekki hafa áhrif á kjör skuldabréfsins og mun sú fjárhæð sem frestast bera sömu
kjör og skuldabréfið þennan tíma og ekki hafa í för með sér kostnað í formi
dráttarvaxta eða vanskilagjalda. 

Stjórn RÚV vinnur nú að undirbúningi á sölu eigna félagsins með það að markmiði
að minnka skuldsetningu félagsins. Stjórn RÚV tók ákvörðun á stjórnarfundi
sínum þann 18. desember 2014 að hefja formlegt sölu- og skipulagsferli
lóðarinnar að Efstaleiti 1 en borgarráð samþykkti á fundi í október að hefja
vinnu með RÚV með það að markmiði að endurskipuleggja svæðið, m.a. fyrir
íbúðabyggð. 

Ríkisútvarpið hefur jafnframt til skoðunar frekari aðgerðir til þess að tryggja
rekstrarhæfi félagsins,   þ. á m. hugsanlega sölu Útvarpshússins, og mun vinna
að þeim aðgerðum í samráði við stjórnvöld.