2016-08-25 12:51:44 CEST

2016-08-25 12:51:44 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Landsbréf hf. - Ársreikningur

Árshlutauppgjör Landsbréfa 30. júní 2016


Hagnaður Landsbréfa nam 291 milljón króna á fyrri helmingi ársins 2016

Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 291 milljón króna á fyrri hluta ársins 2016,
en árshlutareikningur félagsins var birtur í dag. 

Hreinar rekstrartekjur námu 828 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2016, en
námu 763 milljónum króna á sama tímabili á árinu 2015.  Hagnaður af rekstri nam
291 milljón króna á fyrri hluta ársins, samanborið við 285 milljón króna hagnað
á sama tíma á síðasta ári. Eigið fé Landsbréfa í lok tímabilsins nam 2.738
milljónum króna og eiginfjárhlutfall, reiknað samkvæmt lögum um
fjármálafyrirtæki, var 99,46% en þetta hlutfall má ekki vera undir 8%. Í lok
júní áttu um 13 þúsund einstaklingar og lögaðilar fjármuni í sjóðum í stýringu
Landsbréfa og voru eignir í stýringu þá um 152 milljarðar króna samanborið við
129 milljarða í upphafi árs. 

Umsvif félagsins tengd sérhæfðum fjárfestingum voru sem fyrr umtalsverð, en á
tímabilinu var lokið við fjármögnun tveggja samlagshlutafélaga. Annars vegar er
það Horn III slhf., sem er 12 milljarðar króna að stærð og starfar á sviði
framtaksfjárfestinga og hins vegar Landsbréf - Veðskuldabréfasjóður slhf. sem
er 8,7 milljarðar króna að stærð og mun fjárfesta í skuldabréfum með
fasteignaveði. Félagið rekur einnig aðra framtakssjóði á
samlagshlutafélagaformi. Þetta eru Horn II slhf., sem fjárfestir í öllum geirum
íslensks atvinnulífs, Landsbréf Icelandic Tourism Fund I slhf., sem sérhæfir
sig í fjárfestingum í afþreyingartengdri ferðaþjónustu og loks Brunnur
vaxtarsjóður slhf. sem fjárfestir í nýsköpun. 



Landsbréf hf. reka fjölda skuldabréfasjóða og var ávöxtun þeirra almennt ágæt á
tímabilinu miðað við markaðsaðstæður. Heildarstærð skuldabréfasjóða í stýringu
hjá Landsbréfum var 70,9 milljarðar í lok júní. 

Ávöxtun hlutabréfasjóða á fyrri árshelmingi 2016 endurspeglaði erfiðar
markaðsaðstæður á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum. Hlutabréfasjóðir í
rekstri Landsbréfa voru í lok júní 2016 um 28,5 milljarðar króna að stærð. 



Landsbréf hlutu á árinu endurnýjun á viðurkenningu sem „Fyrirmyndarfyrirtæki í
góðum stjórnarháttum“ sem veitt er af Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við
Háskóla Íslands. Félagið leggur mikla áherslu á vandaða stjórnarhætti og
leitast stöðugt við að vera til fyrirmyndar í þessum efnum. 

Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa segir:

„Rekstur Landsbréfa hefur gengið mjög vel það sem af er ári og hafa sjóðir
félagsins almennt skilað góðum árangri miðað við markaðsaðstæður. Sjóðaframboð
Landsbréfa er fjölbreytt og er þar að finna sjóði sem henta flestum fjárfestum.
Útlitið í efnahagsmálum á Íslandi er gott, en óvissa á erlendum mörkuðum hefur
áhrif hér á landi.  Allar forsendur eru þó til að búast við góðri ávöxtun á
komandi misserum. Landsbréf munu halda áfram að leggja metnað sinn í að stýra
þeim fjármunum sem félaginu er treyst fyrir á öruggan og markvissan hátt í þágu
sjóðfélaga.“ 

Frekari upplýsingar veitir Helgi Þór Arason framkvæmdastjóri Landsbréfa í síma
410 2500.