2012-04-26 16:50:48 CEST

2012-04-26 16:51:51 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Ársreikningur

Leiðrétting: Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2012 Birt: 2012-04-26 16:25:00


Mikill tekjuvöxtur og góð arðsemi

Leiðrétting:  Hagnaður á hlut (EPS) er 1,80 evru sent í stað 1,80 evru.

  -- Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2012 námu 
184,9 milljónum evra, sem samsvarar 20,4% aukningu samanborið við sama
     tímabil árið 2011 [153,5 milljónir evra].

  -- EBITDA var 27,4 milljónir evra, sem er 14,8% af tekjum [Q1 2011: 23,3
     milljónir evra].
  -- Rekstrarhagnaður (EBIT) var 21,1 milljón evra, sem er 11,4% af tekjum [Q1
     2011: 17,1 milljón evra].
  -- Hagnaður eftir skatta nam 13,1 milljón evra á fyrsta ársfjórðungi 2012 [Q1
     2011: 8,8 milljónir evra]. Hagnaður á hlut (EPS) er 1,80 evru sent
sem er 50% aukning frá fyrra ári.

  -- Sjóðstreymi er áfram traust og hreinar vaxtaberandi skuldir voru 254,2
     milljónir evra í lok fjórðungsins samanborið við 250,5 milljónir evra í lok
     árs 2011.
  -- Pantanabók Marel er sterk í lok fjórðungsins og nemur 201 milljón evra sem
     er umtalsverð hækkun frá sama tíma árið 2011 [169 milljónir evra].

Marel byrjar árið 2012 vel og í samræmi við áætlanir félagsins um vöxt. Tekjur
Marel á fyrsta ársfjórðungi námu 184,9 milljónum evra, sem er 20,4% aukning
samanborið við sama tímabil árið 2011 og í takt við góðan árangur á síðasta
ársfjórðungi 2011 [183,9 milljónir evra]. Rekstrarhagnaður (EBIT) er 11,4% sem
er í samræmi við rekstrarmarkmið félagsins um 10-12%. 

Skipting tekna eftir landssvæðum er hagstæð. Á síðasta ársfjórðungi var góður
vöxtur á mörkuðum í Asíu og Suður Ameríku sem vóg ríflega upp á móti hægari
vexti í Bandaríkjunum. Horfur fyrir árið 2012 eru áfram jákvæðar að mati Marel
ef litið er til pantanastöðu og markaðsþróunar. 



Theo Hoen, forstjóri:

“Við erum ánægð með góðan tekjuvöxt og hagnaður félagsins er í takt við
áætlanir. Það var mikil aukning í nýjum pöntunum á fyrsta ársfjórðungi, einkum
í kjúklinga- og fiskiðnaði í Asíu og Suður Ameríku.  Marel nýtur góðs af
sterkri markaðsstöðu og útbreiðslu á heimsvísu. 

Ennfremur hefur sú stefna að fjárfesta vel í vöruþróun tryggt stöðugt framboð
af nýjum vörum og lausnum sem stuðla að aukinni verðmætasköpun meðal
viðskiptavina okkar. Við höfum hvergi gefið eftir þegar kemur að
rekstrarhagræðingu með sífelldri endurskoðun vinnuferla og styrkingu sölu- og
þjónustunets okkar. Í stuttu máli þá gengur vel við að koma stefnu félagsins í
framkvæmd og  starfsfólk Marel er einbeitt í að ná þeim metnaðarfullu markmiðum
sem við höfum sett okkur.” 



Staða pantanabókar áfram sterk

Töluverð aukning var á nýjum pöntunum á fyrsta ársfjórðungi, en virði þeirra
nam 189 milljónum evra samanborið við 161 milljón evra á fyrsta ársfjórðungi
2011. Enn á ný var virði nýrra pantana hærra en afgreiddar pantanir og stóð
pantanabókin í 201 milljón evra í lok fjórðungsins (Q1 2011: 169 milljónir).
Vöxt í pöntunum má einna helst rekja til velgengni nýsköpunarvara á borð við
RevoPortioner, Sensor X og heildstæðra framleiðslulína sem byggja á fjölda
staðaleininga. Auk þess styður víðtækt sölu- og þjónustunet félagsins vöxt þess
um allan heim. 



Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2012

Lykiltölur úr rekstri - helstu tölur í þúsundum evra



Rekstrarreikningur                                           1.       1.  Breyti
                                                         ársfj.   ársfj.      ng
Á samstæðugrunni                                           2012     2011    í  %
--------------------------------------------------------------------------------
   Tekjur                                               184.864  153.537  20,4  
   Framlegð                                             67.992   58.918   15,4  
   Framlegð sem hlutfall af tekjum                      36,8     38,4           
   Rekstrarhagnaður (EBIT)                              21.119   17.121   23,4  
   EBIT sem hlutfall af tekjum                          11,4     11,2           
   EBITDA                                               27.401   23.323   17,5  
   EBITDA sem hlutfall af tekjum                        14,8     15,2           
   Hagnaður                                             13.068   8.776    48,9  
   Hagnaður sem hlutfall af tekjum                      7,1      5,7            
   Mótteknar pantanir 1)                                189.420  160.710  17,9  
   Pantanabók                                           200.773  169.328  18,6  
--------------------------------------------------------------------------------
   1) Þjónustutekjur meðtaldar.                                                 
Sjóðstreymi                                                                     
--------------------------------------------------------------------------------
   Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og        13.509   14.115        
    skatta                                                                      
   Handbært fé frá rekstri                                9.596    8.462        
   Fjárfestingar                                        (7.184)  (5.239)        
   Fjármögnun                                             (872)  (22.863        
                                                                       )        
                                                       ------------------       
   Nettó aukning (minnkun) á handbæru fé                  1.540  (19.642        
                                                                       )        
Efnahagur                                                                       
--------------------------------------------------------------------------------
   Nettó vaxtaberandi skuldir                           254.179  247.622        
   Veltufé 2)                                           112.952  60.316         
   2) Viðskiptakröfur, birgðir, verk í vinnslu og                               
    lánardrottnar.                                                              
Kennitölur                                                                      
--------------------------------------------------------------------------------
   Veltufjárhlutfall                                        1,3      1,3        
   Lausafjárhlutfall                                        0,9      0,9        
   Fjöldi útistandandi hluta í þúsundum                 726.344  735.569        
   Markaðsvirði hlutafjár í milljónum evra miðað við      636,5    581,7        
    gengi í lok tímabils                                                        
   Arðsemi eiginfjár                                      13,9%    10,0%        
   Hagnaður per hlut í evru sentum                         1,80      1,2        
   Skuldsetningarhlutfall 3)                               2,49     2,74        
   3)  Nettó vaxtaberandi skuldir / leiðrétt EBITDA                             
    síðustu 12 mánaða.                                                          



Markaðir

Kjarnastarfsemi Marel beinist að fjórum greinum matvælaiðnaðarins: Vinnslu á
kjúklingi, fiski, kjöti og frekari vinnslu. 

Kjúklingur: Fjöldi nýrra pantana á fyrsta ársfjórðungi var góður og bárust
meðal annars stórar pantanir frá Norður- og Mið Ameríku, Rússlandi,
Miðausturlöndum og Evrópu. Það var áfram mikið álag á framleiðslueiningar
fyrirtækisins á tímabilinu og uppbygging á nýrri verksmiðju sem byggir á
Aeroscalder tæknibúnaði hófst, en sú tækni minnkar vatns- og orkunotkun í
frumvinnslu og dregur því verulega úr koltvísýringslosun (e. carbon footprint )
frá verksmiðjum kjúklingaframleiðenda. Marel vinnur einnig að því að taka upp
nýtt skipulag á þjónustu sinni í þeirri viðleitni að bæta þjónustu við
viðskiptavini. Nýtt skipulag mun gera fyrirtækinu kleift að veita
viðskiptavinum víðtæka þjónustu óháð landfræðilegri staðsetningu. 

Fiskur: Fyrsti ársfjórðungur byrjaði vel í fiskiðnaði með glæsilegri Salmon
Showhow sýningu, sem fór fram í starfsstöðvum Marel í Norresundby í Danmörku.
Þessi árlegi viðburður var vel sóttur af um 200 viðskiptavinum úr hópi
alþjóðlegra laxaframleiðenda sem fengu innsýn í nýjustu tækni og kerfi fyrir
laxaframleiðslu. Marel gerði stærsta einstaka sölusamning sinn í fiskiðnaði á
fjórðungnum um samþætt flæðilínukerfi fyrir stórframleiðanda í hvítfiski.
Kerfið sem var kynnt til sögunnar í fyrra verður sérstaklega sniðið að þörfum
kínverskra fiskframleiðenda og annarra framleiðenda á nýmörkuðum. Skortur á
vinnuafli og hækkandi framleiðslukostnaður hefur skapað aukna þörf fyrir
sjálfvirkni í fiskiðnaði en vöruframboð og lausnir Marel auka einmitt
framleiðsluhraða, hráefnisnýtingu og -meðferð, auk þess sem Marel býður upp á
hugbúnaðarlausnir til öflugri framleiðslustýringar. 

Kjöt: Verkefni tengd ýmsum kerfum voru í forgrunni í upphafi og voru allmörg
tilboð gerð á fjórðungnum. Viðskiptavinir virðast sérstaklega áhugasamir um
nýja skurðarvél sem kynnt var seint á árinu 2011, en nokkrar pantanir bárust í
fjórðungnum og er fleiri að vænta á öðrum ársfjórðungi. Þótt hægur vöxtur sé nú
á kjötmarkaði  er gert ráð fyrir framtíðareftirspurn, þar sem ýmsir stórir
framleiðendur hyggja á endurnýjun framleiðslutækja. Marel er í vænlegri stöðu
til að mæta þörfum þessara framleiðenda og ríkir nokkur bjartsýni um framhaldið
næstu misseri. Útlit er fyrir góða markaðsvirkni í Austur Evrópu og Eyjaálfu
þar sem Marel mun halda áfram að byggja á góðum árangri. 

Frekari vinnsla: Fjöldi nýrra pantana var góður á ársfjórðungnum og í samræmi
við væntingar Marel. Nokkrar QX pylsuframleiðslulínur voru seldar til
viðskiptavina í Vestur Evrópu og í Bandaríkjunum. RevoPortioner 400
skurðarvélin reyndist vinsæl vara meðal smærri framleiðenda og hjá þeim sem
bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval, en þessi markaður virðist vera að sækja í sig
veðrið. Tvær stórar kynningar fóru fram á sýningarsvæði Marel í Boxmeer, sem
hefur nú verið stækkað til að bjóða viðskiptavinum upp á enn betri upplifun í
þægilegu umhverfi (Customer Experience Center). Sú fyrri var í samstarfi við
kjötiðnaðarsetur Marel og þar var lögð áhersla á húðunartækni, en seinni
kynningin snérist um lausnir fyrir pylsuiðnaðinn.  Báðar kynningar voru vel
sóttar af alþjóðlegum viðskiptavinum. Í lok fjórðungsins tóku iðnaðarsetur
Marel í frekari vinnslu og kjötiðnaði þátt í Anuga FoodTec sýningunni þar sem 
nýjar útgáfur af RevoPortioner 500-600-700 skurðarvélum, ValueFryer
steikingarvélinni og ModularOven eldunartækjum voru kynntar. 



Nýsköpun

Fjárfesting í vöruþróun er lykilþáttur í árangri Marel og til að styrkja
leiðandi stöðu sína í nýsköpun í fiskiðnaði hefur Marel nú sett á fót nýtt
rannsóknateymi. Það er trú Marel að grunnur þess að skapa vöru sem byggist á
hugviti sé að skilja „hvernig hlutir virka“ og „af hverju þeir virka ekki“. Það
felur meðal annars í sér að skilja hvernig bein tengjast og eðli vöðvavirkni.
Það krefst djúps skilnings á grundvallarþáttum hráefnisins að þróa og framleiða
tímamóta hátæknibúnað eins og Marel gerir. Ofurkæling botnfiskstegunda og
sjálfvirk beinahreinsivél  eru til marks um nýjar aðferðir sem Marel hefur
þróað og byggjast á rannsóknum og þekkingu fyrirtækisins. 



Rekstrarhagkvæmni

Kostnaðaraðhald

Marel leggur áfram ríka áherslu á kostnaðaraðhald og hagræðingu. Þrátt fyrir
aukin umsvif er áfram unnið að frekari verðmætasköpun með því tryggja að sú
lækkun á kostnaðargrunni félagsins sem náðst hefur á undanförnum ársfjórðungum
verði varanleg. 

Sjóðstreymi

Handbært fé, fyrir fjármagnsliði og skatta, er áfram gott og nemur 13,5
milljónum evra (Q1 2011: 14,1 milljón). Hækkun veltufjár stafar af auknum
umsvifum í rekstri. 

Fjármögnun

Efnahagsreikningurinn er sterkur og hreinar skuldir félagsins námu 254,2
milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs samanborið við 250,5 milljónir í lok
árs 2011. Rekstur félagsins er vel fjármagnaður þrátt fyrir fjárfestingu í
framleiðsluhúsnæði og búnaði og á heildina litið er fyrirtækið vel í stakk búið
til að takast á við frekari vöxt. Í febrúar voru eftirstöðvar á skuldabréfi
félagsins í íslenskum krónum, sem samsvarar 7,6 milljónum evra, greiddar upp. 
Með þeirri uppgreiðslu hefur Marel greitt allar skuldbindingar sínar í
íslenskum krónum og er nú eingöngu fjármagnað í evrum og dollurum (USD), þannig
að skiptingin felur jafnframt í sér gjaldeyrisvarnir. Á fyrsta ársfjórðungi
fengu hluthafar greiddan arð vegna reikningsársins 2011  í samræmi við samþykkt
aðalfundar. Arðgreiðslan nam 0,95 evru senti á hlut, sem samsvarar um 20% af
hagnaði ársins. Einnig keypti félagið eigin bréf til að mæta skuldbindingum
samkvæmt kaupréttarsamningum við starfsmenn. Kaup á eigin bréfum og
arðgreiðslur til hluthafa námu 9,5 milljónum evra. 



Horfur

Vel gengur að framfylgja stefnu Marel um framtíðarvöxt og félagið hefur trú á
að áætlanir fyrir árið 2012 gangi eftir þar sem hagstæð skilyrði á nýmörkuðum
munu vega upp á móti hægari vexti í þróaðri mörkuðum. Góð byrjun á fyrsta
ársfjórðungi og sterk pantanabók gefa góð fyrirheit um framhaldið á árinu 2012.
Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga
vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetningar stærri
verkefna. 

Kynningarfundur 27. apríl 2012

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins föstudaginn 27. apríl kl.
8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabæ. Fundinum verður einnig
netvarpað: www.marel.com/webcast. 



Birtingardagar fyrir reikningsárið 2012

  -- 2. ársfjórðungur 2012                          
     25. júlí 2012
  -- 3. ársfjórðungur 2012                                                    
     24. október 2012
  -- 4. ársfjórðungur 2012                                                    
     30. janúar 2013



Frekari upplýsingar veita:

Helga Björk Eiríksdóttir, fjárfesta- og almannatengill. Símar: 563 8453 og 853
8453. 

Erik Kaman, fjármálastjóri. Sími: 563 8072 .

Sigsteinn Grétarsson, aðstoðarforstjóri. Sími: 563 8072.





Um Marel                                                                        
Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á     
 heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á    
 fiski, kjöti og kjúklingi. Fyrirtækið starfrækir skrifstofur og dótturfyrirtæki
 í meira en 30 löndum, auk 100 umboðsmanna og dreifingaraðila.                  
Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:                                      
Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og  
 áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna   
 við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við
 vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif 
 að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir
 í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað
 þetta varðar.