2014-08-27 17:37:34 CEST

2014-08-27 17:38:34 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Nýherji hf. - Fyrirtækjafréttir

Nýtt skipulag hjá Nýherja hf.


Nýherji hf. kynnir í dag nýtt skipulag fyrir starfsemi félagsins.

Með nýju skipulagi er félagið að auka hagkvæmni í rekstri og efla áherslu á
þróun og sölu lausna, mannauðsmál og þjónustu við endursöluaðila. 

Breytingin felur í sér stóraukna áherslu á sölustarf þar sem  tæknimenn og
sölufólk vinna innan sama tekjusviðs að þróun lausna og í sölu- og
markaðssetningu. 

Tekjusvið félagsins verða tvö, Lausnir og þjónusta og Heildsala og dreifing.

Tveir starfsmenn taka sæti í framkvæmdastjórn Nýherja í tengslum við
breytingarnar;  Þorvaldur Þorláksson, framkvæmdastjóri Heildsölu og dreifingar
og Dröfn Guðmundsdóttir, mannauðs-stjóri. 

Í framkvæmdastjórn Nýherja sitja Finnur Oddsson, forstjóri, Gunnar Zoëga,
framkvæmdastjóri Lausna og þjónustu, Þorvaldur Þorláksson, framkvæmdastjóri
Heildsölu og dreifingar, Emil G. Einarsson, framkvæmdastjóri Viðskipta- og
þjónustustjórnunar, Gunnar Petersen, framkvæmda-stjóri Fjármálasviðs, og Dröfn
Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri. 

Við þessar breytingar fækkar  í hópi Nýherja um 10 starfsmenn. Breytingar á
skipulagi ná ekki til dótturfélaganna; TM Software ehf., Applicon ehf.  og
Applicon AB. 

„Aðgerðir sem gripið var til síðasta vetur, meðal annars með sölu á erlendum
eignum Nýherja og aukinni áherslu á innlendan fyrirtækjamarkað, hafa skapað
grundvöll til þess að skerpa enn frekar á starfsemi félagsins. Með
skipulagsbreytingum nú munum við stórefla sölustarf félagsins, gera okkur betur
í stakk búin til að takast á við örar breytingar í upplýsingatækni, efla
nýsköpun innan fyrirtækisins og nýta betur sérþekkingu starfsfólks. Rekstur
Nýherja er að styrkjast og nýtt skipulag er mikilvægt skref í átt að betri
arðsemi og tækifærum til að gera enn betur,“ segir Finnur Oddsson forstjóri
Nýherja. 

Nýtt skipulag Nýherja tekur gildi frá 1. október næstkomandi.



Nánari upplýsingar:
Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, í síma +354 862 0310