2015-05-11 18:00:04 CEST

2015-05-11 18:01:19 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsbankinn hf. - Ársreikningur

Landsbankinn hf.: Afkoma fyrstu þrjá mánuði ársins 2015


Landsbankinn hagnast um 6,4 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 6,4 milljarða króna eftir skatta fyrstu þrjá
mánuði ársins 2015 en hagnaður á sama tímabili árið 2014 nam 4,3 milljörðum
króna. Rekstrartekjur bankans hafa aukist sem skýrist að miklum hluta af auknum
hagnaði af hlutabréfum á tímabilinu. Kostnaðarhlutfall lækkar umtalsvert, er
48% á fyrstu þremur mánuðum ársins en var 72% á sama tímabili árið áður. Á
grundvelli heimildar í lögum um fjármálafyrirtæki tók stjórn
Fjármálaeftirlitsins ákvörðun þann 29. mars s.l. sem fól í sér samruna
Landsbankans við Sparisjóð Vestmannaeyja ses. en án skuldaskila og því birtast
áhrif sameiningarinnar á rekstur ekki fyrr en í 6 mánaða uppgjöri bankans. 

Steinþór Pálsson, bankastjóri segir: „Rekstur bankans hefur gengið vel það sem
af er ári. Staða hans er áfram sterk og þrátt fyrir 24 milljarða arðgreiðslu er
eigið fé bankans mjög hátt. Bæði útlán og innlán hafa aukist umtalsvert og
sífellt fleiri eiga í viðskiptum við Landsbankann. Með sameiningu við Sparisjóð
Vestmannaeyja fjölgar enn í hópi viðskiptavina en Landsbankinn er vel undir það
búinn að taka á móti þeim. Þá fjölgar í hluthafahópi bankans sem er ánægjulegt.
Viðamikilli stefnumótun til næstu fimm ára lauk á fyrsta ársfjórðungi en
markmið stefnunnar er að tryggja arðsaman og hagkvæman rekstur til lengri tíma.
Sýn bankans er áfram að vera til fyrirmyndar og að vera traustur samherji sinna
viðskiptavina í fjármálum, að þeir hafi ávinning af viðskiptunum við bankann og
það sé gagnkvæmt. Bankinn ætlar að vera hreyfiafl og starfa í sátt við
umhverfið og samfélagið þannig að viðskiptavinir geti sagt: „svona á banki að
vera“. “ 

Helstu stærðir úr rekstri og efnahag fyrsta ársfjórðungs 2015:

Rekstur:

  -- Hagnaður Landsbankans nam 6,4 milljörðum króna eftir skatta á fyrstu þremur
     mánuðum ársins 2015, samanborið við tæpa 4,3 milljarða króna á sama tíma á
     árinu 2014.
  -- Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 10,6% samanborið við 7,3% fyrir sama
     tímabil árið 2014.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 7,3 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum
     ársins í samanburði við 7,9 milljarða króna á sama tímabili árið 2014.
  -- Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna lækkar, var 2,6% á fyrstu
     þremur mánuðum ársins en 2,7% á sama tímabili árið 2014.
  -- Hreinar þjónustutekjur námu 1,6 milljörðum króna og hafa aukist um 8% frá
     sama tímabili árið áður.
  -- Aðrar rekstrartekjur hækka um 5 milljarða króna sem skýrist að mestu af
     auknum hagnaði af hlutabréfum.
  -- Virðisbreytingar útlána á fyrstu þremur mánuðum ársins voru jákvæðar um 1,6
     milljarða króna.
  -- Að teknu tilliti til verðbólgu hefur raunhækkun rekstrarkostnaðar verið
     1,3% milli ára.
  -- Laun og launatengd gjöld hækka um 7% á milli tímabila en sú hækkun skýrist
     að mestu leyti af gjaldfærslum vegna starfslokasamninga. Rekstrarkostnaður
     að frátöldum launum og launatengdum gjöldum lækkar um 2,6%.
  -- Kostnaðarhlutfall fyrstu þrjá mánuði ársins var 48% samanborið við 72% á
     sama tíma árið áður. Þessi lækkun skýrist að miklum hluta af auknum hagnaði
     af hlutabréfum á tímabilinu.
  -- Stöðugildi 31. mars voru 1.102 en voru 1.178 á sama tíma fyrir ári.



Efnahagur:

  -- Eigið fé bankans nam í lok mars um 233,9 milljörðum króna og hefur það
     lækkað um 7% frá áramótum. Lækkunin skýrist af 24 milljarða króna
     arðgreiðslu til hluthafa.
  -- Eiginfjárhlutfall bankans (CAR - Capital Adequacy Ratio) er nú 26,7% en var
     24,8% í lok mars 2014. Það er vel umfram kröfur FME.
  -- Heildareignir bankans námu 1.172 milljörðum í lok mars 2015.
  -- Innlán viðskiptavina hafa aukist umtalsvert og eru 624 milljarðar króna í
     lok mars 2015.
  -- Ný útlán til viðskiptavina á fyrsta ársfjórðungi eru um 37 milljarðar
     króna, en að teknu tilliti til afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta
     hækka heildarútlán um 17 milljarða á tímabilinu. Þar af um 7 milljarða
     vegna samruna við Sparisjóð Vestmannaeyja.
  -- Lausafjárstaða bankans er mjög sterk, bæði í erlendri mynt og í íslenskum
     krónum og vel yfir kröfum eftirlitsaðila. Heildarlausafjárstaða bankans,
     sem og lausafjárstaða bankans í erlendri mynt er jafnframt vel umfram
     lausafjárviðmið Seðlabankans.
  -- Gjaldeyrisjöfnuður bankans er í góðu horfi og eignir í erlendri mynt eru um
     20 milljarðar króna umfram erlendar skuldir.
  -- Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum stóðu í 2,3% í lok mars 2015, og
     standa í stað á árinu.



Helstu þættir í rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins 2015

  -- Á grundvelli samkomulags milli Landsbankans og stjórnar Sparisjóðs
     Vestmannaeyja tók Fjármálaeftirlitið (FME) ákvörðun um samruna Landsbankans
     og Sparisjóðs Vestmannaeyja og tók samruninn gildi sunnudaginn 29. mars.
     Frá og með þeim tíma urðu allir starfsmenn sparisjóðsins starfsmenn
     Landsbankans og bankinn yfirtók allar eignir og skuldbindingar sjóðsins.
  -- Landsbankinn er áfram með mesta markaðshlutdeild í nýjum íbúðalánum. Á
     fyrsta fjórðungi jukust þau verulega og námu ný lán 12,8 milljörðum króna,
     en voru 8,5 milljarðar á sama tíma á síðasta ári.
  -- Á fyrsta ársfjórðungi var Landsbankinn með mesta markaðshlutdeild á
     skuldabréfamarkaði í Kauphöll eða 24,2% og einnig stærstur á
     hlutabréfamarkaði með 28,2%.
  -- Á aðalfundi bankans 18. mars var samþykkt að greiða eigendum bankans um 24
     milljarða króna í arð.
  -- Í mars var Landsbankinn fyrstur banka á Íslandi til að hljóta gullmerki
     Jafnlaunaúttektar PWC. Landsbankinn er jafnframt stærsta fyrirtækið sem
     hefur undirgengist og staðist þá úttekt.
  -- Annað árið í röð telur alþjóðlega fjármálaritið Global Finance Landsbankann
     besta bankann á Íslandi.
  -- Annað árið í röð valdi alþjóðlega fjármálatímaritið International Finance,
     Landsbankann besta bankann á Íslandi og taldi netbanka Landsbankans besta
     netbankann.
  -- Nýr netbanki einstaklinga var tekinn í notkun í janúar. Í febrúar var hann
     valinn besta þjónustusvæðið af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna.
  -- Í fyrsta sinn var ársskýrsla Landsbankans eingöngu gefin út á rafrænu formi
     á nýjum ársskýrsluvef bankans.



Nánari upplýsingar veitir:

Kolbrún Guðlaugsdóttir, fjárfestatengill, ir@landsbankinn.is og í síma 410 4014