2016-04-28 18:08:14 CEST

2016-04-28 18:08:14 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarðabyggð - Ársreikningur

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2015 tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn


Fimmtudaginn 28. apríl 2016 fer fram fyrri umræða í bæjarstjórn Fjarðabyggðar
um ársreikning bæjarfélagsins fyrir árið 2015. Ársreikningurinn hefur verið
áritaður af bæjarráði og bæjarstjóra. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla
um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Áformað er að
ársreikningurinn verði afgreiddur við síðari umræðu í bæjarstjórn þann 12. maí
næstkomandi. 

Á heildina litið er rekstrarafkoma Fjarðabyggðar góð og lækkun skuldaviðmiðs
umfram áætlanir. Skuldaviðmið samstæðu í lok ársins 2015 er 141,2% og því komið
undir ákvæði sveitarstjórnarlaga um skuldaviðmið. Þessu takmarki hefur
Fjarðabyggð náð 4 árum fyrr en upphaflega var áætlað. 

Rekstrarniðurstaða ársins hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð um 582 millj.
kr. og rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð um 29 millj. kr. 

Rekstrarniðurstaða, án afskrifta og fjármagnsliða, hjá samstæðu A og B hluta
var jákvæð sem nam 1.243 millj. kr. á árinu. Þar af var rekstrarniðurstaða í A
hluta 454 millj. kr. Framlegð eða EBITDA nam 21% hjá samstæðu og 10% í A hluta. 

Rekstrartekjur, samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins, námu samtals 5.828
millj. kr. en þar af námu rekstrartekjur A hluta 4.374 millj. kr. Til
samanburðar voru rekstrartekjur samstæðu 5.458 millj. kr. árið 2014. 

Rekstrargjöld, án afskrifta, í samstæðu A og B hluta námu 4.585 millj. kr. og
þar af voru rekstrargjöld A hluta 3.920 millj. kr. Breyting launa og
launatengdra gjalda í samstæðu til hækkunar nam 9% eða um 239 millj. kr. á
milli áranna 2014 og 2015. Gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar lækkuðu um 64
millj.kr. millj ára. Annar rekstarkostnaður samstæðu stendur nánast í stað á
milli áranna 2014 og 2015. 

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur, í samstæðu A og B hluta, námu 249 millj.
kr. samanborið við 321 millj. kr. árið 2014. 

Fjárfesting í samstæðu A og B hluta umfram söluverð rekstrarfjármuna, nam
samtals 653 millj. kr. á árinu 2015 samanborið við 533 millj. kr. árið áður.
Helstu fjárfestingar ársins voru vegna hafnarmannvirkja og leikskólabyggingar. 

Afborganir langtímalána námu 573 millj. kr. á árinu og afborganir
leiguskuldbindinga námu 744 millj. kr. á árinu eða samtals 1.317 millj. kr.
Tekin voru ný langtímalán að upphæð 771 millj. kr. en Fjarðabyggð leysti tíl
sína og endurfjármagnaði rekstrarleigusamning um Fjarðabyggðahöllina á árinu.
Handbært fé hækkaði á árinu um 57 millj. kr. og nam 591 millj. kr. í árslok
2015. 

Eignir sveitarfélagsins voru í lok árs 2015 samtals að fjárhæð 12.253 millj.
kr., þar af 11.004 millj. kr. fastafjármunir. Langtímaskuldir við lánastofnanir
eru 4.961 millj. kr., leiguskuldir 200 millj. kr., skammtímaskuldir 676 millj.
kr., lífeyrisskuldbinding 1.963 millj. kr. og næsta árs afborganir 1.265 millj.
kr. Heildar skuldir samstæðunnar lækka milli ára um 231 millj. kr 

Eigið fé samstæðu var 3.188 millj. kr. í árslok 2015 samanborið við 2.180
millj. kr. í árslok 2014. Breyting á eigin fé skýrist af rekstrarniðurstöðu
ársins og endurmati á verðmæti lóða og lenda. 

Skuldaviðmið Fjarðabyggðar og stofnana er um áramótin 2015 er 141% en var 157%
um áramótin 2014. Skuldahlutfall Fjarðabyggðar er á sama hátt 156% um áramótin
en var 170% 2014. Samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga skal
hlutfallið ekki vera hærra en 150% en frestur var veittur í
sveitarstjórnarlögum til ársins 2022 um að ná þessu viðmiði. Fjarðabyggð nær
því að lækka skuldaviðmiðið undir 150% á árinu 2015. Er það 4 árum fyrr en
fyrri áætlanir sveitarfélagsins miðuðu við. 

Í ársreikningi Fjarðabyggðar 2015 kemur styrkur sveitarfélagsins vel fram.
Rekstur A hluta Þarf enn að bæta til að auka sveigjanleika m.a. til að takast á
við hugsanlegar sveiflur í tekjum sem og frekari fjárfestingar í innviðum
samfélagsins. Þó Fjarðabyggð hafi náð að lækka skuldaviðmiðið niður fyrir
lögbundið hámark á árinu 2015 er mikilvægt að áfram verði unnið að
rekstrarlegri hagræðingu og lækkun skulda sveitarfélagsins. 

Sterkur tekjugrunnur, sem byggður er meðal annars á sterkum atvinnugreinum í
sjávarútvegi, áliðnaði og þjónustugreinum, gefur á hinn bóginn fyrirheit um
kraftmikið samfélag til framtíðar litið líkt og áður. 

Nánari upplýsingar veita Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Snorri
Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.