2013-11-12 17:05:10 CET

2013-11-12 17:05:27 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarskipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Nýtt félag rekur sameinað farsímadreifikerfi Vodafone og Nova


  * Tvö dreifikerfi sameinuð í eitt
  * Eflir dreifikerfið og eykur uppbyggingarhraða
  * Engin eðlisbreyting á samkeppni milli félaganna
  * Reynsla af samrekstri góð í nágrannalöndum


Fjarskiptafélögin Vodafone (Fjarskipti hf.) og Nova hafa ákveðið að ganga til
formlegra viðræðna um stofnun nýs rekstrarfélags, sem reka mun sameinað
farsímadreifikerfi félaganna tveggja. Núverandi dreifikerfi félaganna verða lögð
saman í eitt alhliða farsímadreifikerfi sem verður í eigu hins nýja
rekstrarfélags. Vodafone og Nova munu leggja jafnt stofnframlag til
rekstrarfélagsins og eiga í því jafnan hlut.

Með sameiningu dreifikerfanna skapast mikil tækifæri til stækkunar og verulegt
hagræði næst í fjárfestingum og rekstri. Einnig verður þétting og uppbygging
kerfisins hraðari en annars væri mögulegt.

Undirbúningsvinna vegna stofnunar félagsins hefur farið fram um nokkra hríð með
vitneskju Samkeppniseftirlitsins og Póst- og fjarskiptastofnunar. Vodafone og
Nova munu óska eftir heimild  þessara aðila til að stofna nýja rekstrarfélagið
og að þeim fengnum mun félagið taka til starfa. Vonir standa til að það verði á
fyrri hluta ársins 2014.

Engin breyting verður á samkeppni félaganna á fjarskiptamarkaði, þar sem
samreksturinn snýr einungis að tæknilegum þáttum í rekstri þeirra. Reynsla
annarra landa af sambærilegum samrekstri er góð, til dæmis í Danmörku, Svíþjóð
og Bretlandi.

Áhrifin á rekstrarafkomu Vodafone verða að öllum líkindum jákvæð.  Talið er að
fjárfestingakostnaður Vodafone vegna farsímakerfa  geti lækkað um allt að 25%.
Þá verður farsímakerfið öflugra en annars væri mögulegt og þjónusta við
farsímanotendur betri. Stofnun nýja rekstrarfélagsins hefur engin áhrif á áður
útgefnar horfur í reksti Vodafone fyrir árið 2013, hvorki EBITDA hagnað né
fjárfestingahlutfall.

Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone:"Snjalltækin eru samskiptamáti framtíðarinnar og almenningur treystir á að
gagnaflutningshraði sé  í samræmi við þarfirnar. Hingað til hefur samrekstur
símafyrirtækjanna á dreifikerfum verið takmarkaður en með tæknilegum samrekstri
skapast möguleikar til að gera Ísland að einu best tengda samfélagi í
veröldinni."

Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova:"Við teljum það skynsamlegt út frá mörgum sjónarhornum að sameina rekstur
dreifikerfanna.  Með því næst fram veruleg hagræðing í rekstri og við munum geta
boðið öflugri þjónustu með minni tilkostnaði."

Nánari upplýsingar verða veittar eftir því sem málinu vindur fram.

[HUG#1742560]