2012-08-24 17:23:40 CEST

2012-08-24 17:24:41 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Landsbréf hf. - Ársreikningur

Landsbréf – Árshlutauppgjör 30. júní 2012


Stjórn Landsbréfa hf., sem rekur verðbréfa-, fjárfestingar- og
fagfjárfestasjóði Landsbankans, hefur staðfest árshlutareikning félagsins fyrir
fyrri árshelming 2012.  Þann 30. júní 2012 önnuðust Landsbréf hf. rekstur 21
sjóðs um sameiginlega fjárfestingu en á tímabilinu voru tveir sjóðir sameinaðir
í einn og enginn nýr stofnaður.  Í lok tímabilsins nam heildarstærð sjóða í
rekstri Landsbréfa 59,4 milljörðum króna. 



Lykiltölur í þúsundum króna: Sjá viðhengi.



  -- Árshlutareikningi félagsins er skipt í tvo hluta, A-hluta sem inniheldur
     árshlutareikning rekstrarfélagsins og B-hluta sem inniheldur
     árshlutareikning verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóða.  Þessi
     framsetning á reikningnum er í samræmi við reglur um reikningsskil
     rekstrarfélaga verðbréfasjóða sem settar voru af Fjármálaeftirlitinu.



  -- Árshlutareikningurinn er með könnunaráritun frá KPMG sem telur að
     reikningurinn gefi glögga mynd af afkomu félagsins og sjóðanna á fyrri
     helmingi ársins 2012, efnahag þess 30. júní 2012 og breytingu á handbæru fé
     og hreinni eign sjóðanna á fyrri helmingi ársins 2012, í samræmi við lög og
     settar reikningsskilareglur.



Þann 22. mars 2012 skrifaði stjórn Landsbréfa hf. undir kaupsamning við
Landsvaka hf. þar sem rekstur allra sjóða félagsins var keyptur af Landsvaka
hf.  Kaupverð sjóðanna var 530 milljónir króna.  Kaupverðið var ákveðið með
tilliti til tveggja óháðra verðmata sem framkvæmd voru fyrir stjórnir
félaganna.  Samhliða kaupunum var eigið fé Landsbréfa hf. aukið um 660
milljónir króna.  Ekki verður um að ræða neinar breytingar fyrir
hlutdeildarskírteinishafa sjóðanna, reglur þeirra og útboðslýsingar verða
óbreyttar sem og rekstur sjóðanna þar sem allt starfsfólk Landsvaka fluttist
yfir til Landsbréfa.  Landsbréf hafa gert sambærilegan útvistunarsamning við
Landsbankann og Landsvaki hafði.  Yfirfærsla sjóðanna til Landsbréfa fór fram
um mánaðamótin mars-apríl. 



Þann 11. maí 2012 tilkynnti eigandi félagsins, Landsbankinn hf., að ætlunin
væri að færa eignasafn Horns hf., sem einnig er dótturfélag Landsbankans hf.
til Landsbréfa.  Vinna við þá yfirfærslu er í gangi og vonast er til að henni
ljúki sem fyrst.  Við þessi tímamót lét Ari Skúlason af starfi sem
framkvæmdastjóri félagsins og í byrjun júní var nýr framkvæmdastjóri ráðinn,
Sigþór Jónsson, sem tekur til starfa 1. september næstkomandi. 



Skuldabréfa- og hlutabréfamarkaðir á Íslandi eru enn nokkuð veikburða en sýna
þó batamerki.  Eitt nýtt félag var skráð á hlutabréfamarkað á fyrri árshelmingi
og nokkur félög stefna að skráningu á næstu misserum.  Markaður fyrir
skuldabréf fyrirtækja er enn óvirkur en bankastofnanir hafa gefið út sértryggð
skuldabréf með ágætum árangri.  Skuldabréfaútgáfa sveitarfélaga virðist vera að
ná sér á strik og hefur Lánasjóður sveitarfélaga náð að fjármagna sig að því
marki sem hann hefur þurft á ágætum kjörum.  Markaður fyrir skuldabréf með
ábyrgð ríkisins er enn sem komið er langvirkasti markaðurinn fyrir verðbréf og
hefur ávöxtunarkrafa á þeim haldist lág og ekki er fyrirséð að það breytist í
náinni framtíð sérstaklega ekki þegar litið er til þess að verðbólga virðist
vera á niðurleið. 



Óvissa í efnahagsmálum heimsins er ennþá mikil og hefur í raun farið vaxandi
eftir því sem liðið hefur á árið.  Það hefur haft áhrif á sjóði sem eiga
erlendar eignir og eftir nokkuð miklar hækkanir á erlendum hlutabréfamörkuðum
framan af ári hafa markaðir gefið eftir og nú er svo komið að þær hækkanir eru
að miklu leyti gengnar til baka. 



Hagnaður varð af rekstri félagsins á fyrri árshelmingi að fjárhæð 10 milljónir
króna samkvæmt rekstrarreikningi félagsins.  Eigið fé Landsbréfa hf. í lok
tímabilsins nam 689 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi. 
Eiginfjárhlutfall félagsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um
fjármálafyrirtæki, var 95,7% en þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8%
samkvæmt lögum. 



Nánari upplýsingar um árshlutareikning Landsbréfa hf. veitir Egill Darri
Brynjólfsson, framkvæmdastjóri Landsbréfa í síma 410 2512.