2013-08-29 19:56:25 CEST

2013-08-29 19:57:28 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka á fyrri árshelmingi 2013


Hagnaður Arion banka á fyrri helmingi ársins 2013 nam 5,9 milljörðum króna
eftir skatta samanborið við 11,2 milljarða króna á sama tímabili á árinu 2012.
Arðsemi eigin fjár var 8,9% samanborið við 18,8% á sama tímabili árið 2012.
Arðsemi af kjarnastarfsemi var 8,1% en var 11,8% á sama tíma árið 2012.
Heildareignir námu 929,0 milljörðum króna samanborið við 900,7 milljarða króna
í árslok 2012. 

Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 4,5 milljörðum króna samanborið við 6,8
milljarða króna á sama tímabili á árinu 2012. Arðsemi eigin fjár á öðrum
ársfjórðungi var 13,5% samanborið við 22,7% á sama ársfjórðungi árið 2012 og
arðsemi af kjarnastarfsemi nam 9,9% en 11,4% á öðrum ársfjórðungi ársins 2012. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 24,3%, sem er það sama og í
árslok 2012. 


Helstu atriði árshlutareikningsins:

  -- Hagnaður eftir skatta nam 5,9 mö.kr. samanborið við 11,2 ma.kr. á sama
     tímabili 2012.
  -- Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 4,5 mö.kr. samanborið við 6,8 ma.kr. á
     öðrum ársfjórðungi ársins 2012.
  -- Hagnaður af kjarnastarfsemi nam 5,4 mö.kr. samanborið við 7,0 ma.kr. á sama
     tímabili 2012.
  -- Rekstrartekjur lækka milli ára og námu 20,8 mö.kr. samanborið við 24,9
     ma.kr. á sama tímabili 2012. Helstu ástæður eru lækkun vaxtamunar, sem m.a.
     er tilkomin vegna bindingar innlána, skuldabréfaútgáfu og minni
     virðisbreytinga á lánasafni.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 12,7 mö.kr. og eru nokkru lægri en á sama tíma
     2012, einkum vegna lægri verðbólgu.
  -- Hrein virðisbreyting á útlánum nemur 0,1 ma.kr. og skýrist mest af
     niðurfærslum vegna gengislánadóma og töpuðum útlánum sem nema samtals 6,8
     mö.kr. Einnig virðisaukningu útlána, einkum til fyrirtækja, sem nemur
     samtals 6,7 mö.kr.
  -- Arðsemi eigin fjár var 8,9% en var 18,8% á sama tímabili 2012. Arðsemi af
     kjarnastarfsemi var 8,1% samanborið við 11,8% á sama tíma 2012.
  -- Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,1% á tímabilinu en var
     3,4% á sama tímabili 2012.
  -- Kostnaðarhlutfall á tímabilinu var 62,4% en var 52,0% á sama tímabili 2012.
     Hátt hlutfall nú skýrist m.a. af varúðarfærslu vegna sektar
     samkeppnisyfirvalda á Valitor og lægri rekstrartekna en á sama tíma 2012.
     Kostnaðarhlutfall af kjarnastarfsemi nam 60,3% samanborið við 52,8% á sama
     tímabili 2012.
  -- Útlán til viðskiptavina í lok tímabilsins námu 567,3 mö.kr. og hafa lítið
     breyst frá áramótum.
  -- Heildareignir námu 929,0 mö.kr., samanborið við 900,7 ma.kr. í árslok 2012.
  -- Eigið fé bankans í lok tímabilsins var 136,8 ma.kr. en nam 130,9 mö.kr. í
     lok árs 2012.



Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Uppgjör bankans á öðrum ársfjórðungi er í samræmi við væntingar. Staða bankans
heldur áfram að styrkjast. Þar skiptir miklu aukin gæði lánasafns bankans sem
og fjölbreyttari fjármögnun, en mikil vinna hefur verið unnin á þessum sviðum
undanfarin misseri. Eiginfjárhlutfall bankans er áfram mjög sterkt sem og
lausafjárhlutaföll. 

Þrátt fyrir góða afkomu á öðrum ársfjórðungi þá litast uppgjörið fyrir fyrstu
sex mánuði ársins af uppgjöri bankans á fyrsta ársfjórðungi sem var undir
væntingum, fyrst og fremst vegna þróunar gjaldmiðilsins og einskiptiskostnaðar
hjá dótturfélagi bankans. 

Við sjáum aukna eftirspurn eftir lánum á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er
jákvæð þróun og er um að ræða ríflega 60% aukningu á nýjum lánum miðað við sama
tímabil í fyrra. Því er ekki að neita að við myndum vilja sjá eftirspurnina
aukast enn meira sé horft til þess að við erum að koma úr tímabili mikillar
kyrrstöðu en breyting á eftirspurn er vísbending um umsvif í hagkerfinu. 

Áfram er góður stöðugleiki í öllum grunnþáttum í starfsemi bankans, þó eru enn
til staðar í ytra umhverfi bankans þættir sem eru sveifluvaldandi svo sem
verulegar gjaldfærslur vegna gengisdóma, nú á þessu ári líkt og undangengin ár.
Engu að síður sjáum við áhrif óreglulegra liða í rekstri bankans fara minnkandi
og gerum ráð fyrir áframhaldandi þróun í þá veru.“ 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.