2009-08-14 17:41:13 CEST

2009-08-14 17:42:14 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Skipti hf. - Ársreikningur

- Afkoma Skipta hf. á fyrri hluta árs 2009


- Sala jókst um 5% frá fyrra ári og EBITDA hækkar lítillega

•  Sala jókst um 1,0 milljarð króna á milli ára eða um 5%. Sala nam 19,8
   milljörðum króna samanborið við 18,8 milljarða á sama tímabili árið áður.
•  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 4,2
   milljörðum króna samanborið við 4,1 milljarð fyrir sama tímabil 2008. EBITDA
   hlutfall var  21,1%.
•  Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 4,2 milljörðum króna
   samanborið við 7,9 milljarða á sama tímabili árið áður. Eftir vexti og skatta
   nam handbært fé frá rekstri 3,6 milljarði króna. 

•  Tap Skipta á fyrri hluta árs nam 2,1 milljarði króna sem skýrist einkum af
   gengisþróun íslensku krónunnar á tímabilinu. Tap á sama tímabili árið 2008
   var 4,0 milljarðar króna. 

•  Fjármagnsgjöld voru 3,6 milljarðar króna en þar af nam gengistap 1,2
   milljörðum króna. 

•  39% af tekjum samstæðunnar koma af erlendri starfsemi félagsins. 

•  Vaxtaberandi skuldir að frádregnum innistæðum (nettó vaxtaberandi skuldir)
   námu 53,6 milljörðum króna við lok tímabilsins en voru 58,7 milljarðar á sama
   tíma ári áður og hafa því lækkað um 5,1 milljarð króna. 

•  Eigið fé Skipta er 34,3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall er 26%.


Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta hf.:
“Fyrri hluti ársins einkenndist af mikilli óvissu í rekstrarumhverfi Skipta.
Samdráttur var í einkaneyslu á Íslandi sem er stærsti markaður fyrirtækisins.
Þá veiktist íslenska krónan enn frekar sem skýrir að mestu tap félagsins á
tímabilinu. Miðað við þessar aðstæður erum við sátt við afkomuna. Tekist hefur
að laga kostnaðaruppbyggingu félagsins að minnkandi eftirspurn og hagnaðurinn
fyrir fjármagnsliði og afskriftir er því svipaður og í fyrra. Mikil samkeppni
er á fjarskiptamarkaðnum og í kjölfar gjaldþrots Teymis er ríkisvaldið nú
orðinn þátttakandi á fjarskiptamarkaði í gegnum eignarhald sitt á bönkunum.
Afar mikilvægt er að við slíkar aðstæður gæti yfirvöld vel að því að samkeppni
á markaðnum sé eðlileg og í samræmi við leikreglur. Við munum áfram gæta
aðhalds í rekstrinum og erum hóflega bjartsýn á afkomuna á síðari hluta
ársins.“ 


Helstu niðurstöður í rekstri fyrstu sex mánuði ársins 2009

Reikningsskilaaðferðir
Reikningsskilaaðferðir eru þær sömu og beitt var við gerð ársreiknings 31.
desember 2008. Stjórn Skipta hf. hefur samþykkt árshlutareikninginn fyrir
fyrstu sex mánuði ársins 2009. 

Rekstur
Salan á fyrri helmingi árs 2009 nam 19.761 m.kr. samanborið við 18.846 m.kr. á
sama tímabili árið áður, sem er 4,9% aukning. 

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 4.233 m.kr. miðað
við 4.060 m.kr. á sama tímabili árið áður. EBITDA hlutfallið er nú 21,1%
samanborið við 21,3% á sama tímabili árið áður. Skipti hafa á undanförnum
misserum keypt fyrirtæki í upplýsingatæknigeiranum en sá markaður skilar að
jafnaði lægra EBITDA hlutfalli en fyrirtæki í fjarskiptageiranum. Á það ber
hins vegar að líta að fjárfestingar eru að jafnaði minni í
upplýsingatæknigeiranum. Þá eiga fjarskiptafélög Skipta erlendis ekki
fjarskiptanetin sem þau reka þjónustu sína á og eru því með lægri EBITDA
hlutfall en þau fjarskiptafélög sem eiga og reka sín eigin fjarskiptanet. 

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT), án virðisrýrnunar, nam
2.242 m.kr. samanborið við 2.223 m.kr. á sama tímabili árið áður. 

Afskriftir félagsins námu 1.991 m.kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins samanborið við
1.837 m.kr. fyrir sama tímabil 2008. Gjaldfærsla vegna virðisrýrnunar eigna nam
715 m.kr. á tímabilinu. 
Tap samstæðunnar eftir skatta nam 2.088 m.kr. samanborið við 3.989 m.kr. tap á
sama tímabili 2008. Tapið nú skýrist einkum af gengisþróun íslensku krónunnar á
tímabilinu. 

Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 4.223 m.kr. yfir tímabilið.  Á
sama tímabili í fyrra var handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta 7.934
m.kr. Breyting milli ára skýrist af hagnaði af framvirkum samningum árið 2008. 

Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum (CAPEX) námu 998
m.kr. á tímabilinu en námu 1.814 m.kr. fyrir sama tímabil 2008. 

Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar námu 131.065 m.kr. 30. júní 2009 og jukust eignir um
tæp 2% á tímabilinu eða um 2.407 m.kr. 

Eigið fé félagsins nam 34.319 m.kr. í lok fyrri árshelmings 2009 og
eiginfjárhlutfall var 26%. 

Staða og horfur

Síminn hélt áfram uppbyggingu á langdrægu GSM kerfi og uppbyggingu á langdrægu
3G kerfi sem mun gefa notendum kost á öflugu háhraðasambandi um allt land og á
miðunum í kringum Ísland. Þá tók Síminn þátt í útboði Fjarskiptasjóðs um
uppbyggingu háhraðanets um allt land. Síminn átti hagstæðasta tilboðið hefur
samningur milli aðila nú verið undirritaður. Með samningum er öllum landsmönnum
tryggt háhraðanet fyrir árslok 2010. Um er að ræða tæplega 1800 heimili og hafa
þau fyrstu þegar verið tengd. Nú þegar hafa um 20 3G sendar verið settir upp.
Síminn gerði einnig samning við Greenland Connect um sæstreng til Kanada og er
eina fjarskiptafyrirtækið á Íslandi sem er með samninga um þrjá sæstrengi til
og frá Íslandi. Þetta eykur öryggi og bætir þjónustu enda er um fimmfalda
aukningu á bandbreidd til Ameríku að ræða. Síminn  seldi í ágúst allan hlut
sinn í breska fjarskiptafyrirtækinu Aerofone . Kaupandi er Matthew Riley.
Síminn og breska fjarskiptafyrirtækið Daisy Communications tilkynntu í maí að
félögin hefðu ákveðið að efna til samstarfs um fjarskiptaþjónustu við
viðskiptavini beggja félaga í Bretlandi.  Dótturfyrirtæki Símans í Bretlandi,
Aerofone UK, sem hafði sérhæft sig í farsímaþjónustu við lítil og meðalstór
fyrirtæki, myndi því starfa undir vörumerkinu Daisy Mobile. Markaðsstjórar 400
stærstu auglýsenda landsins nefndu Símann oftast sem það fyrirtæki sem stóð sig
vel í markaðsmálum á síðasta ári samkvæmt könnun Capacent Gallup. Þá var
www.siminn.is  valinn besti íslenski fyrirtækjavefurinn  2008 af Samtökum
vefiðnaðarins í janúar 2009. Vefurinn hlaut einnig verðlaun fyrir besta útlit
og viðmót.
Míla og Síminn skrifuðu undir þjónustusamning um áframhaldandi
fjarskiptaþjónustu í stofnlínuneti Mílu á tímabilinu. Míla og Flugfjarskipti
gerðu einnig með sér þjónustusamning um að Míla veiti Flugfjarskiptum
áframhaldandi fjarskiptaþjónustu á kerfi sínu. Míla hefur auk þess endurhannað
tengingar Flugfjarskipta þar sem rekstraröryggi er haft að leiðarljósi. Míla
tók í sumar að sér að tengja ljósleiðara um borð í skemmtiferðaskipum hjá
fyrirtækinu On-Waves. Um er að ræða nokkur verkefni á Íslandi og við
Miðjarðarhafið. Vonir standa til þess að framhald verði á þessu samstarfi. 
On-Waves, dótturfélag Símans, sérhæfir sig í að bjóða farsímalausnir um borð í
skemmtiferðaskipum og ferjum, ásamt fraktskipum. Markaðssvæði On-Waves nær nú
til um 90 þúsund farþega og áhafnarmeðlima. 

Starfsemi Símans í Danmörku, Síminn DK, gengur í samræmi við áætlanir. Mikil
eftirspurn er eftir hágæða hýsingarlausnum og háhraðatengingum á dönskum
markaði. Á fyrri hluta ársins kynnti félagið nokkrar þjónustulausnir í
auglýsingaherferð á landsvísu. Neytendur eru varkárari en áður og gefa sér
góðan tíma til að gaumgæfa tilboð.  Þetta kann að skapa spennandi tækifæri á
markaðnum. Nýtt vefviðmót, Síminn Link, hefur fallið í góðan jarðveg, enda
býður það upp á heildaryfirsýn á símanotkun viðskiptavina á netinu. Nú starfa
um 65 manns hjá Síminn DK og yfir 6.000 fyrirtæki eru í viðskiptum með yfir
50.000 notendur. 

Rekstur upplýsingatæknifélagsins Sirius IT gekk vel á fyrri hluta ársins. 
Fyrirtækið hefur enn sem komið er ekki orðið fyrir teljandi áhrifum af
fjármálakreppunni og þau hagnaðarmarkmið sem sett voru fyrir tímabilið náðust,
þó svo að sölutekjur hafi lækkað lítillega á gengi gjaldmiðla þeirra landa sem
félagið starfar í. Í Noregi gengur starfsemin vel; stórir langtímasamningar
hafa verið gerðir, einkum við opinbera aðila og nokkrir nýir samningar voru
undirritaðir á tímabilinu. Í Svíþjóð hefur eftirspurn minnkað og nokkur
þrýstingur verið á verðlækkun. Þó eru ýmis spennandi tækifæri til staðar þar,
til dæmis ný lausn sem Sirius IT býður lyfjaverslunum sem eru að hefja
starfsemi en breytingar hafa verið gerðar í frjálsræðisátt á sænskum
lyfjamarkaði. Starfsemin í Danmörku gengur áfram vel og á tímabilinu bættust
nokkrir nýir viðskiptavinir í hópinn. 

Mikill samdráttur á auglýsingamarkaði frá fyrra ári og veik staða íslensku
krónunnar hafði áhrif á rekstur Skjásins á fyrri árshelmingi en tekist hefur að
draga úr rekstraráhættu félagsins með endurskipulagningu og nýjum samningum við
erlenda birgja. Á fyrri hluta ársins horfðu vikulega um 75-85% Íslendinga á
aldrinum 12-80 ára á SkjáEinn og markaðshlutdeild stöðvarinnar, mæld í birtum
auglýsingasekúndum, var 35% á tímabilinu.  Notkun á SkjáBíói jókst á fyrri
árshelmingi í kjölfarið á verðlækkun og sérstakri kynningarherferð. 

Áskrifendum SkjásHeims fækkaði lítillega á tímabilinu. 

Já gaf út Símaskrána 2009 í lok maí en hún var annað árið í röð unnin í
samstarfi við rithöfundinn Hugleik Dagsson sem birti sjálfstætt framhald sögu
sinnar frá því í fyrra inni í Símaskránni. Sagan í ár nefnist “Garðarshólmi -
önnur skorpa”.  Vinsældir vefmiðilsins Já.is halda áfram að aukast, vikulegir
notendur fóru að meðaltali yfir 150 þúsund á fyrri árshelmingi og hefur þeim
fjölgað um þriðjung frá fyrra ári. 

Mikil óvissa ríkir um stöðu efnahagsmála á Íslandi, stærsta markaði Skipta,
næstu mánuði og misseri. Búast má við eitthvað minnkandi eftirspurn og hafa
Skipti hf. og dótturfélög brugðist við þeim aðstæðum með ýmsum aðgerðum sem
allar miða að því ná fram enn betri rekstri félaganna. Þær hagræðingaraðgerðir
sem gripið var til allt frá ársbyrjun 2008 eru nú að fullu komnar inn í
reksturinn. Áfram verður ýtrasta aðhaldi beitt í rekstri félaganna innan
Skipta. 

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:
Brynjólfur Bjarnason, forstjóri, sími 550-6003.
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs, sími 863-6075.


Um Skipti hf.
Skipti hf. er eignarhaldsfélag um rekstur fyrirtækja á sviði fjarskipta,
upplýsingatækni og afþreyingar. Innan samstæðunnar eru Síminn, Míla, Já,
Skjárinn, Sensa, Tæknivörur, Staki, On-Waves og Radiomiðun. Erlend félög eru
fjarskiptafélagið Síminn DK  í Danmörku, og upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT
sem er með starfsemi í Noregi, í Svíþjóð og Danmörku.