2010-02-04 21:01:23 CET

2010-02-04 21:02:23 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel Food Systems hf. - Fyrirtækjafréttir

Marel breytir mynt á sambankaláni úr íslenskri krónu yfir í evru


Marel hefur náð samkomulagi við Arion banka, Íslandsbanka og NBI um að breyta
myntsamsetningu sambankaláns sem bankarnir veittu félaginu í maí 2009.
Samkomulagið felur í sér að þeim hluta lánsins sem var í íslenskri krónu hefur
verið breytt í evru sem er megintekjumynt félagsins. Fjárhæðin sem um ræðir
nemur 66 milljónum evra. 

Yfir 99% tekna Marels er aflað utan Íslands og er myntsamsetning tekna og
gjalda félagsins í ágætu jafnvægi. Stefna félagsins er að fjármagna reksturinn
sem næst tekjumyntum. Markvisst hefur verið unnið að því að draga úr
gengisáhættu fjármögnunar og lækka vaxtarkostnað félagsins. 

Í lok þriðja ársfjórðungs 2009 námu skuldir Marel í íslenskum krónu 130
milljónum evra. Á fjórða ársfjórðungi var nýtt hlutafé að fjárhæð 41 milljónir
evra gefið út og var fjárfestum boðið að greiða fyrir ný hlutabréf með
skuldabréfum sem Marel hefur gefið út. Útboðið gerði Marel þar af leiðandi
kleift að leysa til sín 61,8% af skuldabréfaflokki MARL 06 1 og 17,6% af
skuldabréfaflokki MARL 09 1, og þar með minnka gengisáhættu tengdri íslenskri
krónu. Nú er krónulánum umbreytt í evrulán að andvirði 66 milljónum evra. Nema
skuldir í íslenskum krónum því nú um 34 milljónum evra og hefur stórlega dregið
úr fjármagnskostnaði og gengisáhættu félagsins. 

Erik Kaman, fjármálastjóri Marel: 
,,Þetta er mjög mikilvægt skref fyrir Marel. Á undanförnu ári höfum við unnið
markvisst að því að lækka heildarskuldsetningu félagsins með sölu á eignum utan
kjarnastarfssemi, bættu sjóðsstreymi frá rekstri og aukningu hlutafjár. Nýtt
hlutafé hefur að mestu verið notað til að lækka skuldir félagsins í krónum. Með
samningi við íslensku bankana um umbreytingu lána í evrur í stað króna er
fjármögnun Marel að mestu í tekjumyntum félagsins, í samræmi við stefnu okkar.” 



Um Marel
Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á
heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á
fiski, kjöti og kjúklingi. Hjá fyrirtækinu starfa um 3.500 manns um allan heim
og starfrækir það skrifstofur og dótturfyrirtæki í meira en 30 löndum, auk 60
umboðsmanna og dreifingaraðila.