2014-08-21 18:53:36 CEST

2014-08-21 18:54:42 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsbankinn hf. - Ársreikningur

Landsbankinn: Afkoma á fyrri helmingi ársins 2014


Landsbankinn hagnast um 14,9 milljarða króna á fyrri helmingi ársins 2014

Hagnaður Landsbankans nam 14,9 milljörðum króna eftir skatta á fyrri helmingi
ársins 2014 samanborið við 15,5 milljarða króna á sama tímabili árið 2013. Á
öðrum ársfjórðungi var bókfærður 4,9 milljarða króna hagnaður vegna sölu
Landsbankans á 9,9% hlut í FSÍ (Framtakssjóður Íslands) slhf. og öllum hlut
bankans í IEI slhf. og vegna gangvirðisbreytinga á þeim hlut í FSÍ sem bankinn
hélt eftir. 

Vaxtatekjur lækka um 10% frá fyrra ári, en hreinar þjónustutekjur standa nánast
í stað. Rekstrarkostnaður er nánast óbreyttur í stað að raungildi milli
tímabilanna þegar tekið hefur verið tillit til hlutabréfatengdra greiðslna til
starfsmanna á fyrra ári. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 12,8% samanborið
við 13,5% fyrir sama tímabil á árinu á undan. 

Steinþór Pálsson, bankastjóri, segir: „Rekstrarafkoma og fjárhagsstaða
Landsbankans er með ágætum. Virðisaukning eigna hefur staðið undir óvenjulega
stórum hluta tekna á árinu, en á móti er vaxtamunur töluvert lægri en á fyrra
ári. Samanlagt hefur frá stofnun bankans orðið virðisrýrnun á útlánum hans. 

Samanburður á um 1.000 bönkum um allan heim sem The Banker - tímarit í eigu
Financial Times - gerði nú um mitt ár, sýnir að Landsbankinn stendur vel þegar
litið er til eiginfjárstöðu og arðsemi eigna. Ekki er að finna banka í
Vestur-Evrópu með sterkari eiginfjárstöðu og einungis nokkrir tugir banka sýna
betri árangur þegar kemur að arðsemi eigna, samkvæmt greiningu The Banker.
Þessi sterka staða gefur Landsbankanum færi á að styðja vel við vöxt
hagkerfisins og svara vaxandi eftirspurn heimila og fyrirtækja eftir
fjármálaþjónustu. 

Í maí skrifaði Landsbankinn undir samning um breytingar á skilmálum skuldabréfa
Landsbankans og LBI hf. Lokagjalddagi þeirra verður árið 2026 í stað 2018. Sú
lenging dregur verulega úr áhættu varðandi greiðslujöfnuð þjóðarbúsins á næstu
árum og eykur um leið líkur á að hægt verði að stíga markviss skref í átt að
afnámi fjármagnshafta. Forsenda þess að samkomulagið taki gildi er að LBI hf.
fái tilteknar undanþágur í samræmi við lög um gjaldeyrismál. Þær undanþágur
hafa ekki enn verið veittar af hálfu Seðlabanka Íslands og fjármála- og
efnahagsráðuneytis. Að mati Landsbankans er brýnt að niðurstaða fáist í það mál
sem fyrst til að draga úr óvissu um greiðslujöfnuð þjóðarbúsins og um
endurfjármögnun Landsbankans í erlendri mynt. 

Horfur í rekstri bankans fyrir árið í heild eru góðar, en þó er enn óvissa
tengd yfirstandandi dómsmálum.“ 



Helstu stærðir úr rekstri og efnahag

Rekstur:

  -- Hagnaður Landsbankans nam 14,9 milljörðum króna eftir skatta á fyrstu sex
     mánuðum ársins 2014, samanborið við 15,5 milljarða króna á sama tíma á
     árinu 2013.
  -- Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 12,8% samanborið við 13,5% fyrir sama
     tímabil árið 2013.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 15,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.
     Þær námu tæplega 17 milljörðum króna á sama tímabili árið 2013.
  -- Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna lækkar, var 2,6% á fyrri
     helmingi ársins en 3,1% á sama tímabili árið 2013.
  -- Hreinar þjónustutekjur námu 2,9 milljörðum króna og standa nánast í stað
     milli tímabila.
  -- Kostnaðarhlutfall fyrstu sex mánuði ársins var 54,9%, en það var 42,1% á
     sama tíma í fyrra. Rekstrarkostnaður bankans hefur lítið breyst, en lægri
     tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2014 skýra hærra kostnaðarhlutfall á fyrri
     helmingi ársins.
  -- Rekstrarkostnaður hækkar um 0,2% að raungildi frá fyrra ári.
  -- Stöðugildi í lok júní voru 1.162, samanborið við 1.183 í lok árs 2013.



Efnahagur:

  -- Eigið fé bankans nam í lok júní 236 milljörðum króna og hefur það lækkað um
     2,3% frá áramótum. Landsbankinn greiddi eigendum sínum tæpa 20 milljarða
     króna í arð á fyrsta ársfjórðungi ársins sem lækkar eigið fé og
     eiginfjárhlutfall.
  -- Eiginfjárhlutfall bankans (CAR - Capital Adequacy Ratio) er vel umfram
     kröfur FME. Það er nú 26,8%, en var 25,9% í lok júní 2013.
  -- Heildareignir bankans námu 1.155 milljörðum í lok júní 2014, en þær hafa
     hækkað um rúma 3 milljarða frá áramótum.
  -- Innlán viðskiptavina hafa aukist um 4% frá áramótum, eða um tæpa 17
     milljarða.
  -- Heildarlánveitingar á fyrri hluta árs eru um 71 milljarðar króna, en að
     teknu tilliti til afborgana annarra lána, virðisbreytinga og fleiri þátta
     þá hafa heildarútlán hækkað um 19 milljarða á tímabilinu.
  -- Lausafjárstaða bankans er sterk, bæði í erlendri mynt og í íslenskum
     krónum. Lausafjárhlutfallið var 47% í lok júní 2014, en 50% í lok árs 2013
  -- Gjaldeyrisjöfnuður bankans er í góðu horfi og eignir í erlendri mynt eru um
     18,5 milljarðar króna umfram skuldir í erlendri mynt.
  -- Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum stóðu í 4,0% í lok júní 2014, en
     voru 5,3% í lok árs 2013.



Helstu þættir í rekstri bankans á fyrri helmingi ársins 2014

  -- Hið alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtæki Standard & Poor‘s (S&P)
     veitti Landsbankanum í janúar lánshæfiseinkunina BB+ með stöðugum horfum.
  -- Landsbankinn greiddi arð til eigenda sinna í mars í samræmi við samþykkt   aðalfundar og nam hún 70% af hagnaði síðasta árs, eða tæpum 20 milljörðum
     króna. Arðgreiðslan kom til lækkunar á eigin fé á fyrsta ársfjórðungi.
  -- Útgáfa sértryggðra skuldabréfa bankans var aukin um 1,5 milljarð króna á
     tímabilinu.
  -- Landsbankinn var eitt af fjögurra fyrirtækja sem tilnefnd voru til
     Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014.
  -- Alþjóðlega fjármálaritið Global Finance valdi Landsbankann besta bankann á
     Íslandi.
  -- Alþjóðlega fjármálatímaritið International Finance valdi Landsbankann besta
     bankann á Íslandi og taldi netbanka Landsbankans besta netbankann.
  -- Í mars tók gildi nýtt skipulag útibúa Landsbankans á höfuðborgarsvæðinu og
     eru öll útibú bankans á því svæði eftirleiðis einstaklingsútibú. Öll
     viðskipti smærri og meðalstórra fyrirtækja færðust í nýja fyrirtækjamiðstöð
     í Borgartúni 33.
  -- Skrifað var undir nýjan samning í maí um breytingu á skilmálum skuldabréfa
     Landsbankans og LBI hf. sem samið var um í desember 2009. Lokagjalddagi
     skuldabréfanna verður árið 2026 í stað 2018. Forsenda þess að samkomulagið
     taki gildi er að LBI hf. fái tilteknar undanþágur í samræmi við lög um
     gjaldeyrismál.
  -- Í júní seldi Landsbankinn 9,9% eignarhlut í FSÍ (Framtakssjóður Íslands)
     slhf. og allan eignarhlut sinn í IEI slhf., eða sem nemur 27,6%, en í
     árslok 2013 var FSÍ skipt upp í tvö félög, FSÍ slhf. og IEI slhf.
     Heildarsöluandvirðið var rúmlega 7 milljarðar króna.



Helstu atriði framundan í rekstri bankans

  -- Beðið er ákvörðunar Seðlabankans og Fjármála- og efnahagsráðuneytis vegna
     óskar LBI hf. um undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál í kjölfar samkomulags
     Landsbankans og LBI hf.
  -- Landsbankinn er að ljúka uppsetningu á EMTN skuldabréfaramma, sem mun gera
     bankanum kleift að gefa út skuldabréf erlendis í erlendum gjaldmiðlum.
  -- Áfram er unnið að hagræðingu, með því að einfalda vinnuferla og draga úr
     kostnaði, en um leið bæta þjónustu við viðskiptavini. Mikið hefur áunnist
     við að hagræða í húsnæðismálum. Áfram er leitað leiða á því sviði og liggja
     tækifæri nú helst í húsnæði fyrir miðlæga starfsemi bankans.
  -- Áfram er unnið að leiðréttingu ólögmætra gengistryggðra lána og er sú vinna
     mjög langt komin.
  -- Undirbúningi fyrir framkvæmd skuldaleiðréttingar í samræmi við aðgerðir
     ríkisstjórnar miðar vel.