2011-03-25 11:04:47 CET

2011-03-25 11:05:48 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Skipti hf. - Ársreikningur

Afkoma Skipta á árinu 2010


- Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 5,1 milljarði króna


  -- Sala nam 33,6 milljörðum króna samanborið við 39,7 milljarða árið áður.
     Lækkunin skýrist einkum af því að í júlí seldi Skipti Sirius IT, sem fór
     því út úr samstæðunni frá þeim tíma.
  -- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 5,1
     milljarði króna samanborið við 8,7 milljarða árið áður. Lækkun EBITDA
     skýrist meðal annars af því að Skipti seldu Sirius IT auk þess sem
     varúðarfærsla vegna gerðardóms og sektir höfðu áhrif á afkomu ársins.
     EBITDA hlutfallið var 15% en var 20% sé ekki tekið tillit til
     einskiptiskostnaðar.
  -- Bókfært tap Skipta á árinu nam 2,5 milljörðum króna sem skýrist einkum af
     virðisrýrnun óefnislegra eigna, sem nam 4,9 milljörðum króna. Tap félagsins
     nam 10,2 milljörðum króna árið áður.
  -- Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 6,0 milljörðum króna,
     samanborið við 9,1 milljarð árið áður. Eftir vexti og skatta nam handbært
     fé frá rekstri 3,5 milljörðum króna.
  -- Fjármagnstekjur voru 1,4 milljarðar króna en þar af nam söluhagnaður 5,2
     milljörðum króna.
  -- Vaxtaberandi skuldir að frádregnum innistæðum (nettó vaxtaberandi skuldir)
     námu 44,3 milljörðum um áramót en voru 54,4 milljarðar árið áður. Lækkunin
     skýrist einkum af sölu eigna.
  -- Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 21 % og eigið fé er 22,3 milljarðar króna.
  -- Skipti hf. hafa í öllum meginatriðum lokið samningum við lánveitendur
     félagsins og er vinna við skjalagerð á lokastigi. Öll lán félagsins eru í
     skilum og á árinu 2010 greiddu Skipti 7,9 milljarða króna í afborganir og
     vexti af lánum.



Kristín Guðmundsdóttir, forstjóri Skipta hf.

“Árið 2010 fór ágætlega af stað og fyrstu mánuði ársins varð ekki vart við
mikinn samdrátt hjá dótturfélögum Skipta á Íslandi. Það breyttist þegar líða
tók á vorið og eftirspurnin minnkaði sem setur svip sinn á afkomu Skipta. Hins
vegar hefur félagið unnið markvisst að lækkun kostnaðar undanfarin ár sem
dregur úr áhrifum tekjulækkunar á afkomuna. Skipti hafa selt stærstan hluta af
starfsemi sinni utan Íslands með umtalsverðum söluhagnaði. Verkefnið framundan
er að halda áfram að einbeita sér að kjarnastarfsemi félagsins á Íslandi.“ 



Helstu atburðir á árinu



  -- Efnahagsþrengingar settu mark sitt á starfsemina á árinu. Gripið var til
     margháttaðra aðgerða í rekstrinum til að tryggja afkomu félagsins.
  -- Síminn og Fjarskiptasjóður luku háhraðanetsvæðingu um allt land á árinu
     2010 sem þýðir að öllum landsmönnum hefur verið tryggt háhraðanet.
  -- Síminn hélt einnig áfram uppbyggingu á GSM og 3G kerfum og voru 54 nýir
     sendar settir upp á árinu sem gefur notendum kost á öflugu háhraðasambandi
     víða um landið og á miðunum í kring. Þá hélt Síminn áfram uppbyggingu
     Ljósnetsins á höfuðborgarsvæðinu en þegar því lýkur munu rúmlega 40 þúsund
     heimili eiga þess kost að tengjast því.
  -- Fjarskiptafyrirtækið Tal fékk sýndaraðgang að neti Símans. Viðskiptavinir
     fyrirtækisins samnýta GSM og 3G kerfi Símans en Síminn býr yfir stærsta
     dreifikerfi á Íslandi.
  -- Útvistunaráætlun Mílu lauk í janúar þegar gerður var samningur við OSA um
     vinnu við verkefni á höfuðborgarsvæðinu. Uppfærsla á stofnkerfinu stóð yfir
     á árinu auk þess sem félagið kynnti nýja þjónustu, svokallaða Hraðbraut,
     sem er bandbreitt þéttbýlisnet.
  -- SkjáMiðlar náðu þeim áfanga á árinu að festa SkjáEinn í sessi sem
     áskriftarstöð, eftir að hún hafði verið opin sjónvarpsstöð frá upphafi.



Helstu niðurstöður í rekstri á árinu 2010

Reikningsskilaaðferðir

Samstæðuársreikningur Skipta hf. er gerður í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS) eins og þeir hafa verið staðfestir af
Evrópusambandinu. Samstæðuársreikningurinn hefur að geyma ársreikning Skipta
hf. og dótturfélaga þess. Stjórn og forstjóri Skipta hf. hefur staðfest
ársreikning samstæðu félagsins fyrir árið 2010. 

Rekstur

Salan á árinu 2010 nam 33.633 m.kr. samanborið við 39.682 m.kr. árið áður, sem
er um 15% lækkun. Lækkunin skýrist einkum af því að í júlí seldi Skipti Sirius
IT sem fór því út úr samstæðunni frá miðju ári. 

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 5.076 m.kr. miðað
við 8.678 m.kr. árið áður. Lækkun EBITDA skýrist meðal annars af því að Skipti
seldu Sirius IT auk þess sem varúðarfærsla vegna gerðardóms og sektir höfðu
áhrif á afkomu ársins. Skipti hf. munu leita leiða til að fá ákvörðun
meirihluta gerðardómsins hnekkt fyrir íslenskum dómstólum. 

EBITDA hlutfallið var 15% en var 20% sé ekki tekið tillit til
einskiptiskostnaðar. 

Afskriftir félagsins námu 9.097 m.kr. á árinu samanborið við 11.578 m.kr. árið
áður. Munurinn skýrist einkum af virðisrýrnun óefnislegra eigna. 

Tap samstæðunnar eftir skatta nam 2.512 m.kr. samanborið við 10.204 m.kr. tap á
árinu 2009. Tapið nú skýrist einkum af virðisrýrnun óefnislegra eigna sem nam
um 4,9 milljörðum króna. Virðisrýrnun óefnislegra eigna nam um 7,3 milljörðum
króna árið áður. 

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 5.964 m.kr. á árinu en var 9.094
m.kr. á fyrra ári. 

Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum (CAPEX) námu 3.264
m.kr. á árinu en námu 3.161 m.kr. fyrir sama tímabil 2009. 

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar námu 105.672 m.kr. 31. des 2010 og minnkuðu eignir
um 12% á árinu eða um 15,0 ma.kr. sem meðal annars skýrist af sölu eigna.
Vaxtaberandi skuldir að frádregnum innistæðum (nettó vaxtaberandi skuldir) námu
44,3 milljörðum um áramót en voru 54,4 milljarður árið áður. 

Eigið fé félagsins nam 22.338 m.kr. í lok árs 2010 og eiginfjárhlutfall var 21%.

Staða og horfur

Síminn og Fjarskiptasjóður luku háhraðanetsvæðingu um allt land á árinu 2010
sem þýðir að öllum landsmönnum hefur verið tryggt háhraðanet. Þá var NMT
kerfinu lokað í september 2010 og GSM og 3G kerfi Símans tóku endanlega við af
NMT. Síminn hélt áfram uppbyggingu á GSM og 3G kerfum og voru 54 nýir sendar
settir upp á árinu sem gefur notendum kost á öflugu háhraðasambandi víða um
landið og á miðunum. Þá hélt Síminn áfram uppbyggingu Ljósnetsins á
höfuðborgarsvæðinu en þegar því lýkur munu rúmlega 40 þúsund heimili eiga þess
kost að tengjast því. Með Ljósnetinu er hægt að bjóða upp á allt að 100 Mb/s
tengingu með hagkvæmum hætti. Fjarskiptafyrirtækið Tal fékk sýndaraðgang að
neti Símans. Viðskiptavinir fyrirtækisins samnýta GSM og 3G kerfi Símans en
Síminn býr yfir stærsta dreifikerfi á Íslandi. Mikill vöxtur var í rekstrar- og
hýsingarþjónustu á árinu 2010. Tekjuvöxtur var um 16% milli áranna 2009 og 2010
og er gert ráð fyrir öðrum eins vexti á árinu 2011. Einnig hefur orðið mikil
breyting í útseldri þjónustu í kringum VIST og Símavist en tekjuvöxtur var um
9% milli ára. Í Símavist kláraðist innleiðing á farsímum sem gefur hýstu IP
símkerfislausnum Símans mikla sérstöðu á markaði. 

Hafist var handa með sölu á VSAT þjónustu í Danmörku sem gekk samkvæmt áætlun á
árinu 2010. Þjónustunni hefur vegnað mjög vel hér á Íslandi og markaðurinn að
nálgast mettun og eru bundnar vonir við frekari vöxt á danska markaðinum. 

Byrjað var að veita háskerpuefni í Skjábíói á árinu og það sérstaklega kynnt í
tilefni af 5 ára afmæli SkjáBíós þjónustunnar. Vinsældir VoD efnis (Video on
demand) jukust gríðarlega en ríflega 100% aukning var í notkun. Fjöldi
viðskiptavina Sjónvarps Símans er nú rétt tæplega 40 þúsund. 

Umferð um IP- landshringinn hefur aukist hröðum skrefum síðustu ár. Ætla má að
aukningin á síðasta ári hafi verið um 90-100%. Búast má við því að stækka þurfi
núverandi hring á árinu. Útlandaumferð um netið jókst um 78% á árinu. Síminn
stækkaði samböndin verulega á árinu á öllum þremur strengjunum til og frá
útlöndum; Danice, Farice og Greenland connect. 

Sala á Android símum fór fram úr björtustu vonum. Því er spáð að símar með
Android stýrikerfi verði orðnir þeir mest seldu í heiminum innan skamms. 

Rekstur Mílu gekk ágætlega á árinu en árið hefur verið mjög viðburðaríkt.
Útvistunaráætlun Mílu lauk í janúar þegar gerður var samningur við OSA um vinnu
við verkefni á höfuðborgarsvæðinu. Uppfærsla á stofnkerfinu stóð yfir á árinu
til að uppfylla gerðan samning við Farice hf.  Þá kynnti Míla nýja þjónustu,
svokallaða Hraðbraut, sem er bandbreitt þéttbýlisnet ætlað
upplýsingatæknifyrirtækjum, fjarskiptafyrirtækjum og gagnaverum. 

Þegar eldgos á Fimmvörðuhálsi hófst setti Míla upp vefmyndavélar á svæðinu. Þær
urðu mjög vinsælar og við goslok höfðu 8,6 milljónir heimsókna átt sér stað á
heimasíðu Mílu. Þegar stjórnvöld hleyptu af stokkunum átaksverkefni í
markaðsmálum undir heitinu Inspired by Iceland setti Míla upp vefmyndavélar á
höfuðborgarsæðinu og á fallegum ferðamannastöðum.Búið er að straumlínulaga
rekstur Mílu og fyrirtækið er tilbúið að takast á við samkeppni á þeim mörkuðum
sem fyrirtækið starfar á. 

SkjáMiðlar náðu þeim áfanga á árinu að festa SkjáEinn í sessi sem
áskriftarstöð, eftir að hún hafði verið opin sjónvarpsstöð frá upphafi og
batnaði staða SkjásEins umtalsvert á milli ára. Á haustmánuðum hóf SkjárGolf
göngu sína, sem ný áskriftarstöð. Viðtökur hafa verið ágætar enda hópurinn sem
hefur áhuga stór. Bæði SkjárHeimur og SkjárBíó héldu áfram sterkri stöðu og
ekkert lát er á vexti í SkjárBíó, sem verið hefur samfelldur í 5 ár. 

On-Waves, dótturfélag Símans, sérhæfir sig í að bjóða farsímalausnir um borð í
skemmtiferðaskipum og ferjum, ásamt fraktskipum og iðnaðarskipum. Félagið hefur
vaxið umtalsvert frá stofnun þess fyrir rúmum þremur árum. Árið 2010 var
sambærilegt við árið 2009 hvað tekjur varðar en undanfarið ár hefur vöxtur í
starfsemi félagsins verið fyrst og fremst á iðnaðarskipum þar sem áhafnir geta
notað GSM þjónustu um borð. 

Skipti seldi á árinu upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT sem er með starfsemi í
Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Heildarhagnaður Skipta vegna fjárfestingarinnar í
Sirius IT nemur um 5,5 milljörðum króna sem færðist að stórum hluta til bókar á
árinu 2010. Greitt var fyrir hlutinn með reiðufé. Skipti seldi einnig Já
upplýsingaveitur á árinu og nam söluhagnaður Skipta af þeim viðskiptum um 1,3
milljörðum króna. Einnig var greitt fyrir Já upplýsingaveitur með reiðufé. 

Skipti hf. hafa í öllum meginatriðum lokið samningum við lánveitendur félagsins
og er vinna við skjalagerð á lokastigi. Öll lán félagsins eru í skilum og á
árinu 2010 greiddu Skipti 7,9 milljarð króna í afborganir og vexti af lánum. 



Nánari upplýsingar um uppgjörið veitir:

Óskar Hauksson, fjármálastjóri, sími 550-6105.



Um Skipti hf.

Skipti reka fyrirtæki sem starfa einkum á sviði fjarskipta og upplýsingatækni,
á Íslandi og erlendis. Hlutverk Skipta er að sinna sameiginlegri þjónustu
fyrirtækjanna á einum stað, með hagræði og sveigjanleika að leiðarljósi. Innan
samstæðunnar eru Síminn, Míla, Skjárinn, Sensa, Staki, On-Waves og Radiomiðun.
Erlendis rekur Skipti fjarskiptafélagið Síminn Danmark í Danmörku.