2013-03-22 15:28:02 CET

2013-03-22 15:29:05 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Orkuveita Reykjavíkur - Ársreikningur

Rekstrarhagnaður Orkuveitunnar 14,7 milljarðar króna


Áhersla á niðurgreiðslu skulda

Reykjavík, 2013-03-22 15:28 CET (GLOBE NEWSWIRE) -- 

-Ársreikningur 2012 samþykktur í dag
-Árangur Plansins 1,8 milljarða umfram áætlun
-Skuldir ennþá miklar og eigið fé of lítið

Rekstrarhagnaður Orkuveitu Reykjavíkur (EBIT) nam 14,7 milljörðum króna á árinu
2012 en var 12,4 milljarðar 2011. Frá árinu 2010 hafa rekstrartekjur
fyrirtækisins aukist um 36% en rekstrarkostnaður dregist saman um 8%. Þetta
mikla aðhald í rekstri, aukin raforkusala og veitutekjur sem halda raunvirði
eru helstu ástæður bættrar afkomu. Framlegð reksturs samstæðu Orkuveitunnar
2012 (EBITDA) nam 25 milljörðum króna og hækkaði um 18% frá síðasta ári. 

Ársreikningur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur var samþykktur af stjórn í dag.
Hann er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, IFRS. 

Planið á áætlun

Frá vori 2011 hefur Orkuveitan verið rekin í samræmi við aðgerðaáætlun
fyrirtækisins og eigenda, Planið. Markmið þess var að bæta sjóðstreymi
Orkuveitunnar um 50 milljarða króna á árabilinu 2011 til og með 2016. Í lok árs
2012 voru allir þættir þess á áætlun, sumir gott betur, nema sala eigna. Með
aðgerðum stjórnar og eigenda síðustu vikur hefur sá þáttur aftur komist á
sporið. Þannig var staðfest á stjórnarfundi Orkuveitunnar í dag að sala
Perlunnar fyrir 950 milljónir króna mun ganga eftir og forstjóri fékk heimild
stjórnar til að ganga frá samningi um sölu höfuðstöðvanna að Bæjarhálsi fyrir
5,1 milljarð króna. Áfram er unnið að sölu fleiri eigna. Þrátt fyrir að
eignasala hafi tafist er árangur Plansins frá samþykkt þess til ársloka 2012 um
1,8 milljarða króna umfram áætlun. 

Óhagfelld ytri áhrif

Ytri þættir voru rekstrinum áfram óhagfelldir á árinu 2012. Álverð lækkaði og
gengi íslensku krónunnar veiktist. Þetta hefur áhrif á reiknað verðmæti
raforkusölusamninga Orkuveitunnar við stóriðju og skuldir í erlendum
gjaldmiðlum hækka. Samanlögð áhrif þessa og fleiri reiknaðra fjárhagsstærða í
rekstrareikningi Orkuveitunnar eru neikvæð sem nemur 13,4 milljörðum króna. Af
þessum sökum er heildarniðurstaða ársreikningsins neikvæð sem nemur 2,3
milljörðum króna. Markvisst er unnið að því að draga úr áhættu í rekstrinum
vegna þróunar álverðs, gengis og vaxta með samningum við íslenskar og erlendar
fjármálastofnanir. 

Stjórn Orkuveitunnar samþykkti á fundi sínum í dag að gera samninga um
gjaldeyrislán frá erlendum og innlendum bönkum og umfangsmikla
áhættuvarnarsamninga gegn sveiflum í gengi gjaldmiðla og vöxtum. 

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur:

Þessi árangur í rekstrinum er mörgum að þakka; stjórn fyrirtækisins, eigendum
þess, starfsmönnum hverjum og einum og ekki síst viðskiptavinum. Sú markvissa
stefna, sem mótuð var í Planinu vorið 2011, hefur gert okkur kleift að róa öll
í sömu áttina. Rekstrarniðurstaða ársins sýnir að okkur hefur ekki borið af
leið. Sá árangur hefur aflað okkur trausts á fjármálamörkuðum og gert okkur
kleift að grípa til frekari aðgerða til að treysta fjárhagsstöðuna 

Árið 2013 er erfiðasta ár Plansins. Nú þegar hefur tekist að létta á afborgunum
með samningum við erlenda lánveitendur og þær ráðstafanir sem stjórnin
samþykkti í dag að grípa til eru ávöxtur erfiðis okkar. Nú sjáum við fram á að
komast yfir þann hjalla, sem árið 2013 er í framgangi Plansins. Það er mjög
ánægjulegt og  mikilvægt er að missa ekki sjónar á því að Orkuveituna á um alla
framtíð að reka með hagkvæmni að leiðarljósi. Skuldir eru enn miklar og eigið
fé of lágt. 

Rekstraryfirlit stjórnenda

Allar fjárhæðir eru í milljónum króna á verðlagi hvers árs.

Rekstur                             2008      2009      2010      2011      2012
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrartekjur                    24.168    26.013    27.916    33.626    37.905
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrarkostnaður               (12.517)  (13.042)  (13.964)  (12.391)  (12.861)
--------------------------------------------------------------------------------
EBITDA                            11.652    12.970    13.951    21.235    25.044
--------------------------------------------------------------------------------
Afskriftir                       (6.953)   (7.814)   (7.962)   (8.881)  (10.371)
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrarhagnaður EBIT              4.699     5.157     5.989    12.354    14.673
--------------------------------------------------------------------------------
Innleystar fjármunatekjur og     (3.364)   (4.258)   (3.424)   (3.635)   (5.169)
 (fjármagnsgjöld)                                                               
--------------------------------------------------------------------------------
Afkoma fyrir óinnleysta            1.334       898     2.565     8.719     9.504
 fjármagnsliði                                                                  
--------------------------------------------------------------------------------
Óinnleystir fjármagnsliðir      (89.435)   (4.812)    14.201  (16.027)  (13.334)
--------------------------------------------------------------------------------
Afkoma fyrir tekjuskatt skv.    (88.101)   (3.914)    16.766   (7.307)   (3.830)
 árshlutareikningi                                                              
--------------------------------------------------------------------------------
Tekjuskattur                      15.064     1.398   (3.037)     6.751     1.535
--------------------------------------------------------------------------------
Afkoma tímabilsins              (73.037)   (2.516)    13.729     (556)   (2.295)
--------------------------------------------------------------------------------










         Tengiliður:
         Bjarni Bjarnason, forstjóri
         516 7707