2008-08-27 15:00:05 CEST

2008-08-27 15:01:05 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Landsvirkjun - Ársreikningur

- Afkoma Landsvirkjunar fyrstu sex mánuði ársins 2008


Árshlutareikningur Landsvirkjunar er gerður samkvæmt alþjóðlegum
reikningsskilastöðlum og er hann í Bandaríkjadölum sem er
starfrækslugjaldmiðill Landsvirkjunar frá og með ársbyrjun 2008.  Samkvæmt
rekstrarreikningi samstæðunnar nam hagnaður fyrstu sex mánuði ársins 2008
tæplega 83,5 milljónum Bandaríkjadala og rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði
og skatta (EBIT) nam 138 milljónum Bandaríkjadala.  Handbært fé frá rekstri nam
rúmlega 76 milljónum Bandaríkjadala og eigið fé í lok tímabilsins nam tæplega
1,8 milljörðum Bandaríkjadala. 

Afkoma Landsvirkjunar ræðst að verulegu leyti af gangvirðisbreytingum og þróun
á gengi en hluti langtímaskulda fyrirtækisins eru í annarri mynt en
starfrækslugjaldmiðli samstæðunnar.  Jákvætt gangvirði afleiða sem fært er til
eignar í lok júní 2008 nemur rúmlega 824 milljónum USD og er þá búið að draga
frá neikvætt gangvirði þeirra afleiðusamninga sem fyrirtækið hefur gert. 
Gangvirðisbreyting afleiðusamninga var jákvæð um 223 milljónir USD á tímabilinu
janúar til júní 2008 sem skýrist einkum af hækkun á framvirku verði áls á
heimsmarkaði.  Áhrif gangvirðisbreytinganna eru færð í rekstrarreikningi. 

Á árinu 2003 hófust framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun í framhaldi af gerð
orkusölusamnings við Fjarðaál, dótturfélag Alcoa.  Þar hefur verið reist 690 MW
aflstöð og jafnframt lagðar flutningslínur til Reyðarfjarðar.  Fimm af sex
vélum virkjunarinnar voru gangsettar á fjórða ársfjórðungi 2007 og síðasta
vélin var gangsett í febrúar 2008.  Nánari lýsing á framkvæmdum er að finna á
heimasíðu virkjunarinnar www.karahnjukar.is. 

Lausafjárstaða fyrirtækisins er góð, en í lok júní nam handbært fé 137
milljónum USD.  Fjármögnun það sem af er árinu hefur gengið vel þrátt fyrir
erfiðar aðstæður á lánamörkuðum.  Á fyrstu sex mánuðum ársins gaf Landsvirkjun
út skuldabréf fyrir að jafnvirði 272 milljónir USD og voru kjörin á bilinu
25-100 punktar ofan á Libor vexti.  Frá lokum júní hefur fyrirtækið gefið út
skuldabréf fyrir 140 milljónir USD á kjörum sem eru um og innan við 100 punktar
ofan á Libor vexti.  Fyrirtækið hefur einnig aðgang að 400 milljón USD
veltiláni sem fyrirtækið getur nýtt sér hvenær sem er.  Í lok júní hafði
fyrirtækið nýtt sér 50 milljónir USD af því.  Sjóðsstaða að viðbættu ónotuðu
bankaláni í lok júní nam því samtals 487 milljónum USD.  Fyrirtækið hefur
þannig tryggt sér fjármögnun út árið 2010. 

Í lok júní námu heildareignir fyrirtækisins rúmlega 5,5 milljörðum USD og
eiginfjárhlutfall var 31,9%. 

Horfur um rekstur Landsvirkjunar eru góðar fyrir allt árið 2008. 
Kárahnjúkavirkjun hefur verið tekin í notkun og munu tekjur af raforkusölu til
stóriðju auka heildartekjur fyrirtækisins.  Gengisþróun og þróun álverðs munu
þó sem fyrr ráða miklu um afkomu ársins. 

Árshlutareikningur Landsvirkjunar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2008
var samþykktur á fundi stjórnar þann 27. ágúst 2008. 

Nánari upplýsingar veitir Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs,
í síma 515 9000.