2008-07-31 11:02:47 CEST

2008-07-31 11:03:47 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Teymi hf. - Fyrirtækjafréttir

Teymi hf. hyggst sækja um afskráningu


Stjórn Teymis hf. hefur ákveðið, að mæla með því við hluthafa, að félagið verði
afskráð úr kauphöll OMX Nordic Exhange á Íslandi. Tillaga þess efnis verður
borin undir atkvæði á hluthafafundi, sem boðað verður til innan skamms. 

Það er mat stjórnar Teymis, að við núverandi aðstæður þjóni skráning ekki
hagsmunum hluthafa. 

Á stjórnarfundi þann 30. júlí 2008 ákvað stjórn Teymis hf. að boða til
hluthafafundar þar sem lögð verði fram tillaga þess efnis að hluthafar veiti
stjórn félagsins heimild til að óska eftir afskráningu hlutabréfa félagsins úr
kauphöll OMX Nordic Exchange á Íslandi. 

Verði tillagan samþykkt mun hluthöfum Teymis hf. standa til boða að selja hluti
sína í Teymi hf. til félagsins og fá greitt fyrir með hlutum í Alfesca hf., en
hlutir þess félags eru skráðir í kauphöllinni OMX Nordic Exhange á Íslandi.
Hluthafar Teymis hf. er fara með tæplega 80% af heildarhlutafé félagsins hafa
þegar tilkynnt félaginu að þeir muni ekki taka framangreindu boði heldur eiga
áfram hluti sína í félaginu. 

Hluthöfum stendur til boða að selja hluti sína í Teymi á genginu 1,90 fyrir
hvern hlut, sem er 25% hærra en lokagengi miðvikudaginn 30. júlí 2008. Gengi
hvers hlutar í Alfesca hf. verður 6,96 sem er lokagengi hinn 30. júlí 2008.
Skiptihlutfall er því 0,273. 

Teymi hf. hefur með samningi tryggt sér kaup á hlutum í Alfesca hf. til að geta
efnt framangreint tilboð. Samningurinn er með fyrirvara um samþykki
hluthafafundar á tillögu um afskráningu. 

Samþykki hluthafafundur tillöguna mun hluthöfum sem skráðir eru í hlutaskrá
félagsins við lokun viðskipta deginum áður en hluthafundur er haldinn, að teknu
tilliti til uppgjörsreglna á íslenskum hlutabréfamarkaði (T+3), gefast kostur á
að taka framangreindu tilboði félagsins. 

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hf. hefur umsjón með afskráningarferlinu.
Ráðgjafar Landsbankans veita hluthöfum nánari upplýsingar 4104040. 


Nánari upplýsingar veitir:
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis hf.