2008-03-07 16:21:07 CET

2008-03-07 16:22:08 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Landsvirkjun - Ársreikningur

2007


Ársreikningur Landsvirkjunar var í dag, þann 7. mars 2008 samþykktur á fundi
stjórnar. 

Á árinu 2007 var hagnaður af rekstri samstæðu Landsvirkjunar 28,5 milljarðar
króna.  Í árslok námu heildareignir fyrirtækisins 318,8 milljörðum króna en
eigið fé nam 99,2 milljörðum króna og jókst á árinu um 28,4 milljarða króna. 
Eiginfjárhlutfall er 31,1% í árslok 2007. 

Ársreikningur Landsvirkjunar er gerður í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS) eins og þeir hafa verið staðfestir af
Evrópusambandinu og er þetta í fyrsta sinn sem fyrirtækið gerir ársreikning
sinn með þeim hætti.  Heildaráhrif breyttra reikningsskila á eigið fé
samstæðunnar eru þau að bókfært eigið fé í ársbyrjun 2007 hækkar um 8.127
milljónir króna eða úr 61.107 milljónum króna í 69.234 milljónir króna. 
Ársreikningar fyrirtækisins á undanförnum árum hafa verið gerðir í samræmi við
íslenskar reiknings¬skilavenjur.  Samanburðarfjárhæðum árið 2006 hefur verið
breytt í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla en ársreikningar fyrri ára
eru settir fram í samræmi við íslenskar reikningsskilavenjur. 
Helstu stærðir ársreiknings eru (í milljónum króna): Sjá viðhengi.

Við gerð ársreiknings 2007 kom í ljós að leiðrétta þurfti áður gerða
útreikninga vegna innbyggðra afleiða í raforkusamningum sem hafði í för með sér
að fjárhæðir í endanlegum stofnefnahagsreikningi í ársbyrjun 2007 breyttust frá
því sem áður hafði verið greint frá í árshlutareikningi fyrirtækisins fyrir
tímabilið janúar til júní 2007.  Leiðréttingin leiddi til lækkunar á eigin fé í
ársbyrjun 2007 um 11,8 milljarða króna en hafði óveruleg áhrif á afkomu
tímabilsins. 

Hagnaður jókst samtals um 17.465 milljónir króna miðað við fyrra ár.  Aukning
rekstrartekna var að verulegu leyti vegna sölu til Fjarðaáls sem hófst á árinu.
 Rekstrar¬kostnaður án afskrifta nam 6.559 milljónum króna en var 6.374
milljónir króna árið áður.  Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld námu 27.630
milljónum króna sem skýrist aðallega af gengishagnaði af langtímalánum og
gangvirðisbreytingum afleiðusamninga.  Gengishagnaðurinn og
gangvirðisbreytingar eru að mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í huga
við mat á afkomu fyrirtækisins.  Gengishagnaður langtímalána skýrist aðallega
af hækkun á gengi íslensku krónunnar á árinu.  Meðalnafnvextir langtímalána
voru um 4,69% á árinu 2007 en þeir voru um 4,63% árið áður.  Í árslok 2007 voru
rúm 80% langtímalána í erlendri mynt. 

Samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum er fyrirtækinu skylt að ákvarða
starfrækslugjaldmiðil sinn og er niðurstaðan sú að Bandaríkjadalur verður
ráðandi mynt fyrirtækisins frá og með árinu 2008.  Árið 2007 er því síðasta
árið sem íslenska krónan er starfrækslugjaldmiðill Landsvirkjunar. 

Á árinu 2003 hófust virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka í framhaldi af gerð
orkusölusamnings við Fjarðaál, dótturfélag Alcoa.  Þar hefur verið reist 690 MW
aflstöð og jafnframt lagðar flutningslínur til Reyðarfjarðar.  Fimm af sex
vélum virkjunarinnar voru gangsettar á fjórða ársfjórðungi 2007 og sú sjötta í
febrúar 2008.  Nánari lýsing á framkvæmdum er að finna á heimasíðu
virkjunarinnar www.karahnjukar.is.  Í árslok 2007 nam byggingarkostnaður þess
hluta Kárahnjúkavirkjunar sem ekki var kominn í rekstur samtals 13,2 milljörðum
króna en 105,9 milljarðar króna eru færðir meðal aflstöðva fyrirtækisins auk
9,3 milljarða í flutningskerfi. 

Horfur um rekstur Landsvirkjunar eru góðar fyrir árið 2008.  Fljótsdalsstöð var
tekin í notkun á árinu 2007 og munu tekjur af raforkusölu til stóriðju auka
heildartekjur fyrirtækisins umtalsvert.  Gengisþróun og gangvirðisbreytingar á
innbyggðum afleiðum mun þó eftir sem áður ráða miklu um afkomu ársins. 

Nánari upplýsingar veitir Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs,
í síma 515 9000. 

Ársreikningur Landsvirkjunar verður lagður fyrir aðalfund fyrirtækisins 18.
apríl nk.