2008-02-05 17:07:19 CET

2008-02-05 17:08:19 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Icebank - Ársreikningur

2007


Heildareignir nær þrefaldast og vaxtatekjur nær tvöfaldast
- hagnaður 1.616 milljónir króna eftir skatta


Hagnaður Icebank 2007 nam 1.720 milljónum króna fyrir skatta samanborið við
6.840 milljónir króna árið á undan. Hagnaður eftir skatta nam 1.616 milljónum
króna og arðsemi eigin fjár eftir skatta var 13,5%. Hreinar vaxtatekjur jukust
um 87% á árinu, námu 2.341 milljónum króna. Heildareignir Icebank nær
þrefölduðust og voru 252,5 milljarðar króna í árslok. Eiginfjárhlutfall (CAD) í
árslok var 11,0%. 

Helstu niðurstöður úr ársreikningi Icebank fyrir árið 2007:

•  Hagnaður nam 1.616 milljónum króna en hagnaður fyrir skatta 1.720 milljónum
   króna. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 13,5%. 

•  Hreinar vaxtatekjur Icebank námu 2.341 milljón króna 2007 samanborið við
   1.253 milljónir árið á undan sem er aukning um 87%. Hreinar vaxtatekjur eru
   töluvert hærri en rekstrarkostnaður bankans.
•  Heildareignir jukust um 190% og námu 252,5 milljörðum króna í árslok 2007
   samanborið við 86,9 milljarða í upphafi árs.
•  Áhættuskuldbindingar sem tengjast skuldabréfavafningum (s.s. CDOs, SIVs og
   CLOs) nema innan við 3% heildareigna Icebank. Þessar eignir tengjast ekki
   svonefndum undirmálslánum („sub-prime loans“).
•  Eiginfjárhlutfall (CAD) var 11,0% í árslok 2007. Eiginfjárþáttur A var 15,2%.


Helstu niðurstöður fjórða ársfjórðungs 2007:

•  Tap eftir skatta á fjórða ársfjórðungi 2007 nam 2.646 milljónum króna.

•  Hreinar rekstrartekjur fjórða ársfjórðungs voru neikvæðar um 2.747 milljónir
   króna. 
•  Hreinar vaxtatekjur námu 510 milljónum króna í samanburði við 675 milljónir á
   þriðja ársfjórðungi. 

•  Gengistap bankans á ársfjórðungnum nam 3.505 milljónum króna. Munar þar mest
   um eign bankans í Exista sem lækkaði um 42,5% á tímabilinu. Bankinn hefur
   gert afleiðusamninga sem vörðu hann að hluta gegn óhagstæðri gengisþróun.
   Tekjufærsla á ársfjórðungnum vegna þessa nam nálægt 600 milljónum króna. 
Ár mikilla breytinga hjá Icebank

Í maí var samið um 217,5 milljóna evra sambankalán sem er stærsta sambankalán í
sögu bankans og 117,5 milljónum evra hærra en stefnt var að. Lánið hafði afar
jákvæð áhrif á lausafjárstöðu Icebank þar sem bankinn þurfti ekki að leita út á
lánsfjármarkaðinn seinni hluta ársins þegar aðstæður á markaði versnuðu. 

Í samræmi við stefnumótun Icebank, sem var kynnt 2006, ákváðu eigendur bankans
að breikka eignarhaldið til að auðvelda vöxt bankans. Rúm 43% bankans eru nú í
eigu annarra aðila en sparisjóða, þar af tæp 12% í eigu stjórnenda bankans.  Í
kjölfarið komu nýir aðilar að stjórn bankans og í lok árs var nýr bankastjóri
ráðinn. Þrátt fyrir þessar breytingar er stefna bankans óbreytt. Icebank er
viðskiptabanki sem leggur áherslu á heildsölu- og fjárfestingarbankastarfsemi
gagnvart sparisjóðum, innlendum og erlendum fjármálafyrirtækjum og öðrum stærri
aðilum. 

Á árinu hélt Icebank áfram að byggja undir frekari ytri vöxt og jafnframt var
fjárfest í innviðum bankans. 

•  Nýtt tekjusvið varð til við kaup á Behrens fyrirtækjaráðgjöf hf. 

•  Mikil áhersla var lögð á að efla áhættustýringu, upplýsingatækni og
   lögfræðisvið.
•  Starfsmönnum fjölgaði úr 74 í 102 eða um 42%.
Icebank fór ekki varhluta af óróa á hlutabréfamarkaði, en bankinn er stórhluthafi í Exista. Icebank seldi fjórðung hluta sinna í félaginu á fyrsta
ársfjórðungi og átti í árslok um 2,5% hlut í félaginu. Icebank hefur gert
afleiðusamninga sem að hluta vörðu hann gegn óhagstæðri gengisþróun bréfanna. 

Efnahagur Icebank óx um 190% og nam 252,5 milljörðum króna í lok árs miðað við
86,9 milljarða í árslok 2006. Þennan vöxt má að miklu leyti rekja til aukinna
viðskipta við innlendar fjármálastofnanir og veðlánsviðskipta við Seðlabanka
Íslands. 

Agnar Hansson bankastjóri:
„Árangur Icebank á árinu 2007 er viðunandi að teknu tilliti til
markaðsaðstæðna. Ánægjulegt er að sjá að hreinar vaxtatekjur bankans eru
umtalsvert hærri en heildarrekstrarkostnaður hans. Hlutverk bankans á innlendum
markaði hefur verið útvíkkað. Við höfum lagt okkur fram við að eiga gott
samstarf við aðrar innlendar fjármálastofnanir með það fyrir augum að geta
veitt þeim sambærilega þjónustu og Icebank hefur veitt sparisjóðunum undanfarna
áratugi. Þátttaka bankans á millibankamarkaði og í veðlánum við Seðlabanka
Íslands hefur öðru fremur stuðlað að þreföldun efnahagsreikningsins en
vissulega er þar um að ræða viðskipti sem til eru komin vegna sérstakra
aðstæðna á markaði. 

Hræringar undanfarinna mánaða undirstrika nauðsyn þess að takmarka þá áhættu
sem er samfara hlutabréfaeign. Síðastliðin ár hefur afkoma bankans verið um of
háð þróun á gengi hlutabréfa Exista en áfram er stefnt að því að minnka
eignarhlut bankans í félaginu þegar aðstæður leyfa. Mikil vinna hefur verið
lögð í að efla grunnrekstur bankans. Starfsemi fjárstýringar hefur verið efld,
nýjum fjárfestingarleiðum á fyrirtækjasviði bætt við og nú síðast hefur nýtt
tekjusvið, fyrirtækjaráðgjöf, verið stofnað. Það mun gera bankanum kleift að
veita víðfeðmari þjónustu og auka þóknunartekjur. Fyrsta skrefið í útrás
bankans var stigið með kaupum hans á Behrens fyrirtækjaráðgjöf hf. en þá
eignaðist bankinn skrifstofur í Eystrasaltslöndunum sem miklar vonir eru
bundnar við. 

Við gerum okkur grein fyrir því að ástandið á fjármálamörkuðum er viðkvæmt og
næstu mánuði getur róðurinn orðið þungur. Hins vegar er bankinn vel í stakk
búinn til að bregðast skjótt við og nýta þau tækifæri sem gefast hverju sinni.“


Nánari upplýsingar veita:
Agnar Hansson, bankastjóri Icebank, í síma 540 4000.
Breki Karlsson, fjármögnun og fjárfestatengsl, í síma 540 4000.