2011-05-06 10:28:39 CEST

2011-05-06 10:29:39 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarðabyggð - Ársreikningur

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2010 tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn


Fimmtudaginn 5. maí 2011 var ársreikningur Fjarðabyggðar 2010 tekinn til fyrri
umræðu í bæjarstjórn. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um
ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Seinni umræða um ársreikninginn
fer fram í bæjarstjórn 19. maí næstkomandi. 

Rekstrarniðurstaða án fjármunatekna og fjármagnsgjalda fyrir A og B hluta var
jákvæð sem nam 1.153 millj. kr. á árinu. Þar af var rekstrarniðurstaða í A
hluta 408 millj. kr. 

Að teknu tilliti til fjármagnsliða var rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð
um 683 millj. kr. og rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð um 158 millj. kr. 

Rekstrartekjur A og B hluta sveitarfélagsins námu samtals 4.354 millj. kr. en
þar af námu rekstrartekjur A hluta 3.167 millj. kr. Til samanburðar voru
rekstrartekjur A og B hluta á árinu 2009 samtals 4.082 millj. kr. Aukning í
rekstrartekjum nemur því 6,7% á milli ára. Aukning í útsvari og
fasteignasköttum er 1,6%, 20,6% í framlögum jöfnunarsjóðs og 6,7% í öðrum
tekjum. 

Rekstrargjöld að meðtöldum afskriftum í A og B hluta námu 3.584 millj. kr. og
þar af voru rekstrargjöld A hluta 2.971 millj. kr. Rekstrargjöld A og B hluta
lækka um 3,5% á milli ára. 

Á milli ára nemur hækkun launa og launatengdra gjalda 0,4%, annar
rekstarkostnaður lækkar um 13,2% og afskriftir hækka um 16,8%. Breyting í öðrum
rekstrarkostnaði og afskriftum skýrist að stærstum hluta af breytingum sem
gerðar voru á reikningsskilaaðferð í árslok 2009 og snúa að færslu
leigusamninga fasteigna í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélagsins. 

Veltufé frá rekstri hjá A og B hluta nam 916 millj. kr. á árinu og handbært fé
frá rekstri nam 970 millj. kr. Til samanburðar var veltufé frá rekstri hjá A og
B hluta á árinu 2009 samtals 403 millj. kr. og handbært fé frá rekstri 276
millj. kr. Veltufjárhlutfall í lok árs 2010 var 0,76 fyrir A hluta og 1,1 fyrir
A og B hluta. 

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur A og B hluta námu 126 millj. kr.
samanborið við 941 millj. kr. árið 2009. Áhrif verðlagsþróunar til hækkunar á
höfuðstól verðtryggðra lána nam 176 millj. kr. á árinu og áhrif vegna
hagstæðrar gengisþróunar til lækkunar á höfuðstól gengistryggðra lána 347
millj. kr. Til samanburðar nam gengistap vegna langtímalána á árinu 2009
samtals 141 millj. kr. og áhrif verðlagsþróunar til hækkunar á höfuðstól
verðtryggðra lána 417 millj. kr. 

Fjárfesting umfram sölu eigna í A og B hluta nam samtals 152 millj. kr. á árinu
2010 samanborið við 278 millj. kr. árið áður. Afborganir langtímalána námu 553
millj. kr. á árinu og tekin voru ný langtímalán að fjárhæð 72 millj. kr.
Handbært fé hækkaði um 235 millj. kr. á árinu og nam 585 millj. kr. í árslok
2010. 

Eignir sveitarfélagsins eru í lok árs 2010 samtals 11.159 millj. kr. þar af
10.021 millj. kr. í fastafjármunum. Á meðal fastafjármuna eru færðar leigðar
eignir samtals að fjárhæð 1.200 millj. kr. Langtímaskuldir við lánastofnanir
eru 6.574 millj. kr., leiguskuldir 1.956 millj. kr., skammtímaskuldir 1.032
millj. kr. og lífeyrisskuldbinding 1.461 millj. kr. 

Eigið fé A og B hluta var 136 millj. kr. í árslok 2010 samanborið við neikvætt
eigið fé að fjárhæð 621 millj. kr. í árslok 2009. Eigið fé A hluta var neikvætt
um 430 millj. kr. í árslok 2010 samanborið við neikvætt eigið fé að fjárhæð 662
millj. kr. í árslok 2009. Vakin er athygli á því að í ársbyrjun 2010 er færð
leiðrétting á framlögum fyrri ára til B hluta stofnunarinnar Félagslegra íbúða
að fjárhæð 370 millj. kr. Framlagið kemur til lækkunar á eigin fé í A hluta og
hækkunar á eigin fé Félagslegra íbúða og hefur því ekki áhrif á eigið fé A og B
hluta. 

Nánari upplýsingar veitir fjármálastjóri Fjarðabyggðar Björgvin Valdimarsson í
síma 470-9000.