2008-07-18 20:00:00 CEST

2008-07-18 20:00:01 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Hf. Eimskipafélag Íslands - Ársreikningur

CORRECTION: Eimskip tapar 101 milljón evra á öðrum ársfjórðungi


Eimskip - leiðrétt frétt

Áritun endurskoðanda Eimskips hefur nú verið bætt inn í fréttatilkynningu
félagsins fyrir annan ársfjórðung, sem birt var þann 19. júní síðastliðinn. Í
áritun endurskoðanda koma fram ákveðnar ábendingar sem voru birtar sem hluti af
árshlutareikningi félagsins. Umfjöllun um þær ábendingar komu einnig skýrt fram
í fréttatilkynningu félagsins sem áður hefur verið birt. 

- Skýrist af afskrift eignarhluts í Innovate og háum fjármagnsliðum

- Vöxtur í tekjum og EBITDA framlegð í samræmi við væntingar

- Rekstrarafkoma á flutningastarfsemi félagsins er samkvæmt áætlun

- Starfsemi Versacold Atlas samkvæmt áætlun

Helstu atriði úr uppgjörinu:	

Heildartekjur á öðrum ársfjórðungi námu 379,9 milljónum evra (2F 2007: 259,6
milljónir evra), sem er 46,3% tekjuaukning á milli ára.  Undirliggjandi vöxtur
samstæðunnar er 7,7% á fjórðungnum.  Góður árangur náðist í flutningastarfsemi
félagsins í Rússlandi, Eystrasalti, Norður Atlantshafi, Íslandi og
Norður-Ameríku. Auk þess er rekstur Versacold Atlas í takt við áætlanir.
Afskrift á eignarhlut Innovate nema 71 milljón evra afskrift og í umfjöllun um
uppgjörið eru áhrif af þeirri starfsemi aðskilin. 

Starfsemi Eimskips skiptist í tvær meginstoðir; flutningastarfsemi
(sjóflutningar og tengdir flutningar) og hinsvegar rekstur kæli- og
frystigeymslna.   Helstu atriði úr uppgjöri annars ársfjórðungs eru
eftirfarandi: 

•Tekjur af flutningastarfsemi námu 153,5 milljónum evra á 2F og tekjur af
rekstri kæli og frystigeymslna námu 226,0 milljónum evra á fjórðungnum. 
•Rekstrargjöld á öðrum fjórðungi námu 370,5 milljónum evra. 
•Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 40,0
milljónum evra á fjórðungnum, eða 10,5%  framlegð. 
•Heildarfjármagnskostnaður er 52,5 milljónir evra á 2F, þar af nemur gengistap
um 19,7 milljónum evra. 
•Tap eftir skatta var 100,8 milljón evra á 2F samanborið við 9,8 milljóna evra
tap á 2F 2007. Tap án tillits til afskriftar Innovate er 32,9 milljónir evra. 
•Stjórn Eimskips metur ýmsa valkosti sem tengjast Versacold Atlas, með það að
markmiði að gera verðmæti þess félags sýnilegra og að lækka skuldastöðu
samstæðunnar verulega á næstu mánuðum. 

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, um uppgjörið:
„Tekjur og framlegð á öðrum ársfjórðungi eru í samræmi við okkar væntingar og
ánægjulegt er að sjá góðan árangur í flutningastarfsemi í Rússlandi,
Eystrasalti, Norður-Atlantshafssvæðinu, Íslandi og Norður-Ameríku. Auk þess
erum við áfram að sjá góðan rekstur Versacold Atlas. Framtíðarhorfur í rekstri
félagsins eru góðar. Flutningastarfsemin er byggð á mjög traustum grunni sem
stefnt er að efla enn frekar með innri vexti, og hagræðingu. 

Þrátt fyrir góðan undirliggjandi rekstur í okkar kjarnastarfsemi hefur afskrift
á eignarhlut í Innovate veruleg áhrif á afkomu Eimskips, auk þess sem
fjármagnsliðir eru áfram háir. Stjórn félagsins hefur sett sér það markmið að
styrkja eiginfjárhlutfall félagsins fyrir lok ársins og að það verði að minnsta
kosti 25%. Í framhaldinu verður góður undirliggjandi rekstur samstæðunnar
sýnilegri og  fjármagnskostnaður mun lækka.“