2024-05-21 14:01:00 CEST

2024-05-21 14:01:00 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Alvotech S.A. - Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Alvotech gengur til samstarfs við Dr. Reddy‘s um markaðssetningu AVT03, fyrirhugaðrar hliðstæðu við Prolia og Xgeva, í Bandaríkjunum og Evrópu


Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði gert samstarfssamning við Dr. Reddy’s Laboratories SA, dótturfyrirtæki Dr. Reddy’s Laboratories Ltd. (“Dr. Reddy’s”) um sölu- og markaðssetningu AVT03, fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech við Prolia og Xgeva, sem bæði innnihalda denosumab. Dr. Reddy er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar á Indlandi en starfsemi um allan heim.

Prolia og Xgeva eru líftæknilyf við ýmsum þrálátum sjúkdómum sem tengjast  beinum, þar með talið beinþynningu kvenna eftir tíðahvörf og til að fyrirbyggja einkenni frá beinum hjá fullorðnum með langt gengna illkynja sjúkdóma sem tengjast beinum.

Alvotech þróar og mun framleiða lyfið, en Dr. Reddy‘s mun sjá um skráningu og markaðssetningu. Samningurinn gerir ráð fyrir fyrirframgreiðslu til Alvotech og árangurstengdum greiðslum til félagsins við helstu áfanga í lyfjaþróun og markaðssetningu, auk hlutdeildar í tekjum. Dr. Reddy‘s mun hafa einkarétt til að selja lyfið í Bandaríkjunum en fer með sameiginlegan rétt til markaðssetningar í Bretlandi og öðrum ríkjum Evrópu.

Erez Israeli, forstjóri Dr. Reddy‘s sagði: „Það er okkur ánægja að ganga til samstarfs við Alvotech til að veita sjúklingum í Bandaríkjunum, Bretlandi og öðrum ríkjum Evrópu aðgang að hágæða líftæknilyfjahliðstæðu. Á síðustu árum höfum við byggt upp úrval líftæknilyfjahliðstæða, nú síðast má nefna bevacizumab sem er fyrsta hliðstæðan sem við markaðssetjum í Bretlandi. Samstarf okkar við Alvotech gerir okkur kleift að auka úrval okkar af líftæknilyfjahliðstæðum og hefja frekari markaðssókn. Við munum virkja sterkt sölunet félagsins á þessum mörkuðum til þess að tryggja sjúklingum aðgengi að bestu meðferðarúrræðunum með minni tilkostnaði.“

„Við kynnum með ánægju nýjan samstarfsaðila sem mun gera okkur kleift að auka enn frekar framboð af hagstæðum líftæknilyfjum á alþjóðlegum mörkuðum,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech. „Sameiginlegt markmið okkar og Dr. Reddy‘s er að tryggja að sjúklingar hafi aðgengi að bestu meðferð og að draga úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu.“

Dr. Reddy’s er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki, stofnað árið 1984, með höfuðstöðvar í Hyderabad á Indlandi, sem markaðsetur frumlyf, samheitalyf og líftæknilyfjahliðstæður. Félagið starfar á mörkuðum í Bandaríkjunum, Indlandi, Kína, Brasilíu, Evrópu og Asíu. Líftæknilyfjadeild Dr. Reddy’s vinnur að þróun, framleiðslu og markaðssetningu líftæknilyfjahliðstæða við ónæmissjúkdómum og krabbameini. Félagið markaðssetur nú sex líftæknilyfjahliðstæður alþjóðlega.

AVT03 er einstofna mótefni og fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Prolia og Xgeva, tvö líftæknilyf sem innihalda denosumab í mismunandi lyfjaformi. Prolia er líftæknilyf til meðferðar við beinþynningu eftir tíðahvörf hjá konum og við beintapi hjá körlum og konum sem eru í aukinni hættu á beinbrotum [1]. Xgeva er gefið til að fyrirbyggja einkenni frá beinum, svo sem sjúkleg beinbrot hjá fullorðnum með langt gengna illkynja sjúkdóma sem tengjast beinum. Það er einnig gefið til meðferðar við risafrumuæxli í beinum [2].   Í janúar sl. tilkynnti Alvotech jákvæðar niðurstöður úr klínískri rannsókn þar sem borin voru saman lyfjahvörf, öryggi og þolanleiki AVT03 og Prolia í heilbrigðum einstaklingum. Klínísk rannsókn á sjúklingum þar sem borin er saman virkni og öryggi AVT03 og Prolia stendur nú yfir, og jafnframt klínísk rannsókn þar sem borin eru saman lyfjahvörf, öryggi og þolanleiki AVT03 og Xgeva í heilbrigðum einstaklingum.  AVT03 er líftæknilyfjahliðstæða í þróun og hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði.

[1] https://www.ema.europa.eu/is/documents/product-information/prolia-epar-product-information_is.pdf
[2] https://www.ema.europa.eu/is/documents/product-information/xgeva-epar-product-information_is.pdf

Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu,  Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.  Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Advanz Pharma (EES, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).

Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson, forstöðumaður
alvotech.ir@alvotech.com