2012-03-15 09:36:30 CET

2012-03-15 09:37:32 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Ársreikningur 2011


Afkoma Arion banka á árinu 2011 var jákvæð um 11,1 milljarð króna eftir skatta
samanborið við 12,6 milljarða á árinu 2010. Arðsemi eigin fjár var 10,5% á
árinu. Eiginfjárhlutfall bankans í árslok 2011 var 21,2% sem er vel yfir mörkum
FME. 

Í ársreikningum Arion banka fyrir árið 2011 er tekið tillit til dóms
Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 varðandi endurreikning gengistryggðra lána.
Áætlað er að kostnaður Arion banka samstæðunnar vegna vaxtaendurútreiknings
þeirra lána sem falla undir ákvæði dómsins sé um 13,8 milljarðar króna. Á móti
lækkar reiknaður tekjuskattur um 2,8 ma.kr. 

Endurmat á fyrirtækjalánasafni bankans og sala á yfirteknum félögum í óskyldum
rekstri, svo sem sala Eignarbjargs á Högum, höfðu jákvæð áhrif á afkomu bankans
á árinu eða um 6,6 milljarða króna fyrir skatta. 

Afkoma af reglulegri starfsemi ársins var 12,3 milljarðar króna og arðsemi
eigin fjár af reglulegri starfsemi um 10,8%. 

Á fjórða ársfjórðungi ársins 2011 var afkoma Arion banka neikvæð um 2,6
milljarða króna eftir skatta samanborið við jákvæð um 3,6 milljarða króna árið
2010. Framangreind áhrif dóms Hæstaréttar eru gjaldfærð á ársfjórðungnum en á
móti kemur 3,6 milljarða hagnaður af sölu hluta Eignabjargs í Högum hf. og
hækkun á virði fyrirtækjalána upp á um 5 milljarða króna. 

Meðallaun starfsfólks Arion banka (móðurfélags) hækkuðu á árinu um 9,3% á sama
tíma og launavísitala samkvæmt Hagsofu Íslands hækkaði um 9,2%. Sé horft til
launaþróunar samstæðunnar allrar þá hækka meðallaun um 15,6% á árinu, sem
skýrist af tilkomu nýrra dótturfélaga í samstæðuna. Af sömu ástæðu hækkaði
heildarlaunakostnaður samstæðunnar um 21,4% á milli ára, en einnig kemur þar
til gjaldfærður kostnaður vegna fækkunar stöðugilda hjá Arion banka á árinu. 

Á árinu fór fram lokauppgjör Arion banka við þrotabú Kaupþings banka. Eiga
þessir aðilar nú engar kröfur hvor á annan. Einnig yfirtók Arion banki
íbúðalánasafn þrotabús Kaupþings sem verið hafði í sérstökum sjóði sem metinn
var á um 120 milljarða króna. Yfirtaka safnsins tók einnig til fjármögnunar
lánanna með yfirtöku sértryggðra skuldabréfa. Með þessu styrktist bæði
efnahagur bankans sem og langtímafjármögnun. 

Skattar og önnur opinber gjöld á árinu námu samtals um 4,2 milljörðum króna.
Þar af nam reiknaður tekjuskattur 1,9 milljarði króna, sérstakur bankaskattur
rúmum 1,0 milljarði króna og tryggingargjald 877 milljónum króna. Að auki voru
á árinu greiddar 139 milljónir króna til embættis umboðsmanns skuldara og 241
milljón króna til FME. 

Ársreikningurinn er áritaður án fyrirvara af hálfu endurskoðenda bankans.

Helstu atriði ársreikningsins:

  -- Hagnaður eftir skatta nam 11,1 ma.kr. árið 2011 samanborið við 12,6 ma.kr.
     árið 2010.
  -- Hreinar rekstrartekjur námu alls 33,3 ma.kr. á árinu samanborið við 35,6
     ma.kr. árið 2010.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 23,4 ma.kr. samanborið við 19,8 ma.kr. árið 2010. 
  -- Hreinar þóknanatekjur námu 10,7 ma.kr. samanborið við 6,9 ma.kr. árið 2010.
  -- Endurmat og söluhagnaður á eignum bankans leiddi til 6,6 ma.kr.
     virðisaukningar sem bókfærð er í gegnum rekstrarreikning þegar hlutdeild
     Kaupþings í hækkuninni hafði verið tekin með.
  -- Dómur Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 hefur neikvæð áhrif á afkomu bankans
     fyrir skatta sem nemur 13,8 mö.kr. eða um 11 ma.kr. eftir skatta.
  -- Arðsemi eigin fjár var 10,5% en var 13,4% árið 2010. Arðsemi af reglulegri
     starfsemi var 10,8% samanborið við 8,8% á fyrra ári.
  -- Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,4% á árinu samanborið við
     2,8% árið 2010.
  -- Reiknaður tekjuskattur nam 1,9 ma.kr. en var 3,5 ma.kr. árið 2010. Til
     viðbótar nam sérstakur bankaskattur 1.046 milljónum á árinu samanborið við
     290 milljónir árið 2010.
  -- Kostnaðarhlutfall var 52,5% samanborið við 54,2% árið 2010. 
  -- Eiginfjárhlutfall var 21,2% samanborið við 19,0% í lok árs 2010. FME gerir
     kröfu um 16% eiginfjárhlutfall.
  -- Lausafjárhlutfall bankans var 34,7% sem er vel yfir 20% kröfu FME. 
  -- Reiðufjárhlutfall bankans var 15,3%, en FME gerir kröfu um 5%. 
  -- Útlán til viðskiptavina námu 561,6 ma.kr., samanborið við 451,2 ma.kr. í
     árslok 2010. Aukningin skýrst fyrst og fremst af yfirtöku á íbúðalánasafni
     Kaupþings undir lok árs 2011.
  -- Innlán námu 490,0 ma.kr. samanborið við 457,9 ma.kr. í árslok 2010. 
  -- Heildareignir námu 892,1 ma.kr., samanborið við 812,6 ma.kr. í lok árs
     2010.
  -- Eigið fé bankans í árslok 2011 var 114,6 ma.kr. en nam 109,5 ma.kr. í
     árslok 2010.
  -- Á fyrri helmingi ársins greiddi bankinn arð til ríkisins upp á rúma 6
     ma.kr. skv. sérstöku samkomulagi milli Skilanefndar Kaupþings og ríkisins
     frá september 2009 um greiðslu arðs að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
  -- Í lok árs voru 1.158 stöðugildi hjá samstæðunni, samanborið við 1.241 í
     árslok 2010. Hjá bankanum sjálfum voru stöðugildi 858 í árslok samanborið
     við 936 í árslok 2010.



Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Uppgjör bankans fyrir árið 2011 er ásættanlegt, sérstaklega í ljósi áhrifa af
nýföllnum dómi Hæstaréttar, en dómurinn hefur veruleg áhrif á afkomu bankans.
Dómur sem þessi sýnir vel hversu mikilvægt það er að við höfum byggt upp
fjárhagslegan styrk og getum tekið á okkur fjárhagslegt högg. Það er
einfaldlega svo að sterkir bankar eru efnahagslífinu öllu nauðsynlegir, því
höfum við allt frá stofnun lagt höfuðáherslu á að efla bankann. Byggja upp
góðan banka þar sem starfar fólk sem gerir sitt besta. Þetta hefur tekist. Að
vissu leyti má segja að á árinu 2011 hafi verið stigin lokaskrefin í
uppbyggingu bankans. Við styrktum innviðina og stjórnarhættina, hagræddum í
starfseminni, breyttum skipulagi og treystum efnahaginn. En við gáfum einnig
tóninn varðandi framtíðaráherslur okkar hvað varðar þjónustu við viðskiptavini
okkar þegar við komum fram með nýja þjónustuþætti eins og óverðtryggð íbúðalán.
Við höfum einsett okkur að byggja á þessum grunni og sýna frumkvæði er kemur að
góðri og fjölbreyttri fjármálaþjónustu.“ 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.

Arion Bank 2011.pdf