2016-05-10 17:56:23 CEST

2016-05-10 17:56:23 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Eik fasteignafélag hf. - Ársreikningur

Eik fasteignafélag hf.: Árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs 2016


Helstu niðurstöður:

-          Rekstrartekjur tímabilsins námu 1.473 m.kr.

-          Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.019 m.kr.

-          Heildarhagnaður tímabilsins nam 1.240 m.kr.

-          Handbært fé frá rekstri nam 928 m.kr. á tímabilinu.

-          Bókfært virði fjárfestingareigna nam 68.790 m.kr. í lok tímabilsins.

-          Matsbreyting  fjárfestingareigna nam 1.038 m.kr. á tímabilinu.

-          Vaxtaberandi skuldir námu 41.801 m.kr. í lok tímabilsins.

-          Eiginfjárhlutfall nam 34,6%.

-          Hagnaður á hlut var 0,36 kr.

Árshlutareikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 31.
mars 2016 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 10. maí 2016.

Rekstur félagsins

Rekstur félagsins gekk vel á fyrstu þremur mánuðum ársins 2016 og er uppgjörið
rétt yfir áætlunum stjórnenda félagsins.

Rekstrartekjur félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins 2016 námu 1.473 m.kr.,
þar af voru leigutekjur 1.373 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og
afskriftir nam 1.019 m.kr. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 1.550 m.kr. og
heildarhagnaður tímabilsins nam 1.240 m.kr.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og
einskiptisliði sem hlutfall af leigutekjum) nam 74,2% á fyrstu þremur mánuðum
ársins 2016 samanborið við 75,6% fyrstu þrjá mánuði ársins 2015.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er m.a. við núvirt framtíðarsjóðstreymi
einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu
fjárfestingareigna sem nam á tímabilinu 1.038 m.kr.

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 71.549 m.kr. þann 31. mars 2016, þar af námu
fjárfestingareignir 68.790 m.kr. Eigið fé félagsins nam 24.779 m.kr. í lok mars
2016 og var eiginfjárhlutfall 34,6%. Heildarskuldir félagsins námu 46.771 m.kr.
þann 31. mars 2016, þar af voru vaxtaberandi skuldir 41.801 m.kr. og
tekjuskattsskuldbinding 4.017 m.kr.

 Virðisútleiguhlutfall

Mikil eftirspurn hefur verið eftir atvinnuhúsnæði Eikar frá áramótum. Í lok mars
2016 var virðisútleiguhlutfall félagsins 94,7% og hafði þá hækkað um 0,9% frá
áramótum. Ef horft var til eigna í þróun var virðisútleiguhlutfallið komið í
96,1%.

Ef tekið er tillit til allra undirritaðra samninga þann 1. maí 2016, kaup og
sölur á fasteignum sem hafa átt sér stað frá áramótum, var virðisútleiguhlutfall
félagsins komið í 95% (95,8% að teknu tilliti til þróunareigna) á þeim tíma.
Inni í því eru kaup á Hótel 1919, allir fermetrar sem Síminn og Míla munu skila
í takt við samkomulag við Eik ásamt nýjum samningi Eikar við Fjarskipti hf.
(Vodafone). Virðisútleiguhlutfall félagsins er yfir væntingum stjórnenda sem
skilar sér í betri framtíðartekjum á þessu og næsta ári sbr. leigusamning við
Fjarskipti hf. Félagið hafði sett sér markmið um að ná 95%
virðisútleiguhlutfalli fyrir lok árs 2017 og því markmiði hefur nú verið náð.

Breytingar á eignasafni félagsins frá áramótum

Félagið tók við rekstri Heimshótela/Hótel 1919 þann 18. apríl en gert hafði
verið ráð fyrir í rekstraráætlun félagsins að afhendingardagur yrði 1. maí. Þá
seldi félagið eign sína í Mörkinni 1 í febrúar og keypti Síðumúla 1 í apríl.

Nýr skuldabréfaflokkur EIK 100346

Í apríl 2016 lauk sölu á nýjum skuldabréfaflokki Eikar fasteignafélags, EIK
100346. Skuldabréfaflokkurinn er 2 ma.kr. að stærð, ber 3,6% fasta verðtryggða
vexti og er til 30 ára. Skuldabréfaflokkurinn verður skráður á Aðalmarkað Nasdaq
Iceland hf. á árinu 2016.

Eignasafn félagsins

Eik fasteignafélag hf. sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði. Fjöldi eigna
félagsins er yfir 100 og telja þær samtals yfir 282 þúsund útleigufermetra að
teknu tilliti til Hótel 1919. Virði fjárfestingareigna félagsins eftir
afhendingu á Hótel 1919 er rúmir 72 ma.kr. og heildarfjöldi leigutaka er yfir
400. Helstu eignir félagsins eru Borgartún 21 og 26, Pósthússtræti 2 (Hótel
1919), Nýi Glæsibær, Turninn í Kópavogi, Smáratorg og Austurstræti 5,6,7 og 17.
Stærstu leigutakar eru Fasteignir ríkissjóðs, Húsasmiðjan, Fjarkskipti
(Vodafone), Landsbankinn, Rúmfatalagerinn, Skipti, Deloitte og VÍS.

Stærsti hluti fasteignasafns Eikar eru skrifstofuhúsnæði eða 48%. Næst koma
verslunarhúsnæði 29%, lagerhúsnæði 8%, hótel 8% og veitingahúsnæði 4%. Um 90%
fasteigna félagsins eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af 39% á fjármála- og
viðskiptasvæði Reykjavíkur (aðallega innan póstnúmera 105 og 108) og 18% í miðbæ
Reykjavíkur. Alls er 10% eignasafnsins á landsbyggðinni, þar af 9% á Akureyri.

Kynningarfundur

Opinn kynningarfundur verður haldinn fimmtudaginn 12. mars 2016 klukkan 08:30 á
Hótel 1919 í fundarherberginu Goðafoss, Pósthússtræti 2, Reykjavík. Garðar
Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, mun kynna afkomuna ásamt því að fara yfir
þróun félagsins á Suðurlandsbraut 8 og 10.  Í kjölfarið mun hann ásamt Lýð H.
Gunnarssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, svara spurningum.

Fjárhagsdagatal 2016

-          Afkoma 2F 2016                                30. ágúst 2016

-          Afkoma 3F 2016                            8. nóvember 2016

-          Afkoma 4F og ársuppgjör 2016          28. febrúar 2017

Nánari upplýsingar veitir:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200 / 861-3027
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 590-2209 /
820-8980




[HUG#2011259]