2009-11-06 16:33:18 CET

2009-11-06 16:34:19 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Landsvaki - Fyrirtækjafréttir

- Tilkynning vegna slitameðferðar Fyrirtækjabréfa Landsbankans


Fjárfestingasjóðurinn Fyrirtækjabréf Landsbankans hefur verið í slitameðferð
frá því honum var lokað þann 6. október 2008. Hlutdeildarskírteinishöfum hefur
verið greitt út úr sjóðnum eftir því sem eignum hefur verið komið í verð.
Sjóðurinn hafði verið starfræktur með nokkrum breytingum frá árinu 1990 undir
merkjum Landsbréfa og síðar Landsvaka hf, dótturfélags Landsbanka Íslands hf.
og nú dótturfélags NBI hf. Landsbankans. 

Samkvæmt fjárfestingarstefnu sjóðsins bar honum að fjárfesta í skuldbréfum og
víxlum fyrirtækja, fjármálastofnana, ríkis og sveitarfélaga. 

Í ljós hefur komið að árið 2005 fjárfesti sjóðurinn engu að síður í skuldabréfi
á einstakling. Andvirði þess nam 400 milljónum króna sem þá var hverfandi hluti
af heildarverðmæti bréfa í sjóðnum. Greitt var af skuldabréfinu samkvæmt
samningi framan af, og síðar var hluta af eftirstöðvunum skuldajafnað. Í dag
nema eftirstöðvar bréfsins hins vegar um 190 milljónum króna. 

Skömmu eftir bankahrunið tóku nýir stjórnendur við rekstri Landsvaka auk þess
sem skipt var um stjórn félagsins. Það er mat nýrra stjórnenda að kaup á
fyrrgreindu skuldabréfi feli í sér brot á fjárfestingarstefnu sjóðsins. 

Þegar ljóst varð að skuldari bréfsins myndi ekki standa skil á eftirstöðvum
eftir lokun sjóðsins, var það niðurstaða Landsvaka, m.a. byggð á óháðri
lögfræðiúttekt, að Landsvaki yrði að bera tjónið sem af brotinu leiðir. 

Landsvaki mun því bæta hlutdeildarskírteinishöfum sjóðsins fyrrgreint tjón og
harmar  jafnframt atvikið og þau óþægindi sem það hefur valdið. Bankaráð NBI
hf. Landsbankans, mun tryggja  áframhaldandi rekstrarhæfi Landsvaka þannig að
félagið mæti þeim eiginfjárkröfum sem gilda um reksturinn. 

Fjármálaeftirlitinu hefur verið gerð grein fyrir málinu og Rannsóknarnefnd
Alþingis fengið afhent gögn er það varða.