2010-03-22 17:52:01 CET

2010-03-22 17:53:02 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Skipti hf. - Ársreikningur

Afkoma Skipta á árinu 2009


- Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 8,7 milljörðum króna

•  Sala jókst um 2% frá fyrra ári, nam 39,7 milljörðum króna samanborið við 39,0
   milljarða árið áður. 

•  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 8,7
   milljörðum króna samanborið við 9,0 milljarða árið áður. EBITDA hlutfallið
   var 22%. 

•  Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 9,1 milljarði króna,
   samanborið við 10,1 milljarð árið áður. Eftir vexti og skatta nam handbært fé
   frá rekstri 6,9 milljörðum króna.
•  Bókfært tap Skipta á árinu nam 10,2 milljörðum króna sem skýrist einkum af
   virðisrýrnun óefnislegra eigna, sem nam 7,3 milljörðum króna, og gengisþróun
   íslensku krónunnar.
•  Fjármagnsgjöld voru 7,5 milljarðar króna en þar af nam gengistap 2,1
   milljörðum króna. 

•  37% af tekjum samstæðunnar koma frá erlendri starfsemi félagsins samanborið
   við 32% árið áður 

•  Vaxtaberandi skuldir að frádregnum innistæðum (nettó vaxtaberandi skuldir)
   námu 54,4 milljörðum um áramót en voru 51,1 milljarður árið áður. 

•  Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 21% og eigið fé er 25,5 milljarðar króna. 


Helstu atburðir á árinu

•  Efnahagsþrengingar settu mark sitt á starfsemi Skipta og dótturfélaga á
   árinu. Gripið var til margháttaðra aðgerða í rekstrinum til að tryggja afkomu
   félagsins en búast má við að rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi verði
   áfram erfitt. 

•  Síminn hélt áfram uppbyggingu á langdrægu GSM kerfi og á langdrægu 3G kerfi
   sem gefur notendum kost á öflugu háhraðasambandi um allt land og á miðunum í
   kringum Ísland. Þá vann Síminn, í samvinnu við Fjarskiptasjóð, að uppbyggingu
   háhraðanets um allt land. Markmiðið er að  öllum landsmönnum verði tryggt
   háhraðanet fyrir árslok 2010. Um er að ræða tæplega 1800 heimili sem tengjast
   háhraðaneti í þessu verkefni.
•  Síminn hleypti nýju vörumerki, Ring, af stokkunum. Ring er einkum ætlað að
   höfða til yngri viðskiptavina og fer vel af stað. 

•  Á árinu hóf Síminn uppbyggingu á Ljósneti Símans og á næstu tveimur árum munu
   rúmlega 40 þúsund heimili á höfuðborgarsvæðinu eiga kost á að tengjast því. 

•  Rekstur Mílu gekk ágætlega á árinu. Undanfarin tvö ár hefur starfsemin tekið
   töluverðum breytingum, búið er að útvista verkþáttum sem ekki eru hluti af
   kjarnastarfsemi Mílu og er fyrirtækið vel í stakk búið til að takast á við
   sveiflur í rekstrarumhverfi þess. 

•  Upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT skilaði mjög góðri afkomu og treysti enn
   verkefnastöðu sína. Skipti seldi á árinu breska fjarskiptafyrirtækið
   Aerofone. 
•  Skjámiðlar glímdu við minnkandi tekjur vegna mikils samdráttar á
   auglýsingamarkaði. Engu að síður hefur tekist að laga reksturinn vel að
   breyttu umhverfi og í lok árs var Skjá einum breytt í áskriftarsjónvarpsstöð.
   Viðtökurnar hafa verið vonum framar og hafa um 22% heimila þegar áskrift að
   stöðinni. 

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta hf.

“Árið 2009 einkenndist af mikilli óvissu í rekstrarumhverfi félagsins. Afkoman
af reglulegri starfsemi félagsins á árinu er góð miðað við aðstæður, handbært
fé frá rekstrinum er áfram mjög sterkt og við erum stolt af því að skila tæpum
9 milljörðum króna í EBITDA. Dótturfélög samstæðunnar hafa náð að laga sig að
breyttu rekstrarumhverfi og minnkandi eftirspurn og dregið hefur verið úr
kostnaði. Tekjuaukningin milli ára skýrist af aukningu erlendra tekna sem nú
eru um 37% af heildartekjum og hafa aldrei verið hærri. Gengi íslensku
krónunnar veiktist enn á árinu og skýrir að hluta tap félagsins. Þá eru
áætlanir okkar fyrir næstu ár varkárar, sem hefur í för með sér virðisrýrnun
óefnislegra eigna sem skýrir stærstan hluta taps ársins. Við gerum ráð fyrir að
aðstæður verði áfram erfiðar og teljum að þær aðgerðir sem gripið hefur verið
til geri Skipti vel í stakk búin til að takast á við þær aðstæður.“ 

Niðurstaða í rekstri á árinu 2009

Reikningsskilaaðferðir
Samstæðuársreikningur Skipta hf. er gerður í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS) eins og þeir hafa verið staðfestir af
Evrópusambandinu.  Samstæðuársreikningurinn hefur að geyma ársreikning Skipta
hf. og dótturfélaga þess. Stjórn og forstjóri Skipta hf. hefur staðfest
ársreikning samstæðu félagsins fyrir árið 2009. 

Rekstur
Salan á árinu 2009 nam 39.682 m.kr. samanborið við 39.013 m.kr. árið áður, sem
er 2% aukning. Þessi aukning skýrist af auknum tekjum af erlendri starfsemi. 
Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 8.678 m.kr. miðað
við 8.966 m.kr.  árið áður. EBITDA hlutfallið er nú 22% samanborið við 23% árið
áður. Skipti hafa á undanförnum árum keypt fyrirtæki í upplýsingatæknigeiranum
en sá markaður skilar að jafnaði lægra EBITDA hlutfalli en fyrirtæki í
fjarskiptageiranum. Á það ber hins vegar að líta að fjárfestingar eru að
jafnaði minni í upplýsingatæknigeiranum. Þá eiga fjarskiptafélög Skipta
erlendis ekki fjarskiptanetin sem þau reka þjónustu sína á og eru því með lægri
EBITDA hlutfall en þau fjarskiptafélög sem eiga og reka sín eigin
fjarskiptanet. 

Afskriftir félagsins námu 11.578 m.kr. á árinu samanborið við 6.354 m.kr. árið
áður. Munurinn skýrist einkum af virðisrýrnun óefnislegra eigna. 
Tap samstæðunnar eftir skatta nam 10.205 m.kr. samanborið við 6.424 m.kr. tap á
árinu 2008. Tapið nú skýrist einkum af gengisþróun íslensku krónunnar á árinu
og virðisrýrnun óefnislegra eigna sem nam um 7,3 milljörðum króna. 

Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 9.094 m.kr. á árinu en var 
10.102 m.kr. á fyrra ári. 

Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum (CAPEX) námu 3.161
m.kr. á árinu en námu 4.859 m.kr. fyrir sama tímabil 2008.
Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar námu 120.697 m.kr. 31. des 2009 og minnkuðu eignir
um 6 % á árinu eða um 8,0 ma.kr. Vaxtaberandi skuldir að frádregnum innistæðum
(nettó vaxtaberandi skuldir) námu 54,4 miljörðum um áramót en voru 51,1
milljarður árið áður. Hlutfall nettó vaxtaberandi skulda/EBITDA var 6,3 um
áramót en var 5,7 ári áður.
Eigið fé félagsins nam 25.525 m.kr. í lok árs 2009 og eiginfjárhlutfall var
21%. 

Staða og horfur

Síminn hélt áfram uppbyggingu á langdrægu GSM kerfi og á langdrægu 3G kerfi sem
gefur notendum kost á öflugu háhraðasambandi um allt land og á miðunum í
kringum Ísland. Þá hóf Síminn, í samvinnu við Fjarskiptasjóð,  uppbyggingu
háhraðanets um allt land. Markmiðið er að  öllum landsmönnum verði tryggt
háhraðanet fyrir árslok 2010 en verkinu verður lokið fyrr en áætlað var. Um er
að ræða tæplega 1800 heimili sem tengjast háhraðaneti í þessu verkefni.  Síminn
gerði á fyrri hluta ársins samning við Greenland Connect um sæstreng til Kanada
og stuttu síðar var samið um Danice sæstrenginn og er því í fyrsta sinn með
samninga um fjóra sæstrengi til og frá Íslandi. Þetta eykur öryggi og bætir
þjónustu enda er um fimmfalda aukningu á bandbreidd til Ameríku að ræða. Síminn
seldi í ágúst allan hlut sinn í breska fjarskiptafyrirtækinu Aerofone. Í
nóvember hleypti Síminn ennfremur nýju vörumerki, Ring, af stokkunum. Ring er
einkum ætlað að höfða til yngri viðskiptavina og fer vel af stað. Á árinu hóf
Síminn uppbyggingu á Ljósneti Símans og á næstu tveimur árum munu rúmlega 40
þúsund heimili á höfuðborgarsvæðinu eiga þess kost að tengjast því. Með
Ljósnetinu er hægt að bjóða upp á allt að 100 Mb/s með hagkvæmum hætti. 
Rekstur Mílu gekk ágætlega á árinu. Undanfarin tvö ár hefur starfsemin tekið
töluverðum breytingum, búið er að útvista verkþáttum sem ekki eru hluti af
kjarnastarfsemi Mílu og er fyrirtækið vel í stakk búið til að takast á við
sveiflur í rekstrarumhverfi þess. 

Skjámiðlar glímdu við minnkandi tekjur vegna mikils samdráttar á
auglýsingamarkaði. Engu að síður hefur tekist að laga reksturinn vel að breyttu
umhverfi og í lok árs var Skjá einum breytt í áskriftarsjónvarpsstöð.
Viðtökurnar hafa verið vonum framar og nú hafa um 22% heimila áskrift að
stöðinni. 

Já gaf út Símaskrána 2009 í lok maí en hún var annað árið í röð unnin í
samstarfi við rithöfundinn Hugleik Dagsson sem birti sjálfstætt framhald sögu
sinnar frá því í fyrra inni í Símaskránni.  Mikil notkun er á símaskránni og
þremur mánuðum eftir útgáfu hennar höfðu 64% heimila sótt eintak. Vinsældir
vefmiðilsins Já.is halda áfram að aukast, notendum fjölgaði um 23% frá fyrra
ári og auglýsingatekjur jukust milli ára. 

On-Waves, dótturfélag Símans, sérhæfir sig í að bjóða farsímalausnir um borð í
skemmtiferðaskipum og ferjum, ásamt fraktskipum. Góður vöxtur er í starfseminni
og félagið undirritaði á á seinasta ári fjölmarga samninga um GSM þjónustu um
borð í skemmtiferðaskipum.
Rekstur upplýsingatæknifélagsins Sirius IT gekk mjög vel á árinu. Verkefnastaða
félagsins er góð og á síðasta ári gerði fyrirtækið marga stóra
viðskiptasamninga bæði við núverandi og nýja viðskiptavini.  Meðal
viðskiptavina Sirius IT eru margir opinberir aðilar, ríkisstofnanir,
sveitarfélög og lífeyrissjóðir.  Einnig eru stór einkafyrirtæki meðal
viðskiptavina félagsins, aðallega í ýmsum þjónustugreinum, s.s. orkufyrirtæki,
fyrirtæki í öryggisþjónustu, tryggingarstarfsemi, lyfsölu og fjölmiðlun.
Almennt má segja að horfur í rekstri Sirius IT séu góðar. 
Skipti hafa átt í viðræðum við lánardrottna félagsins sem miða að því að Skipti
greiði lán félagsins hraðar upp en gert er ráð fyrir í lánasamningum.
Lausafjárstaða  Skipta  er sterk, um áramótin átti félagið yfir 20 milljarða
króna í handbæru fé. Skuldir félagsins hafa hins vegar hækkað með falli
íslensku krónunnar þar sem hluti skulda félagsins er í erlendri mynt. Skipti
hafði gert gjaldmiðlaskiptasamninga við íslenska banka til að verja félagið
gegn falli krónunnar en þeir samningar hafa ekki verið uppfylltir af hálfu
bankanna.  Við hækkun skulda var það mat lánveitenda að skilmálar sem eru í
lánasamningum hefðu raskast og óskuðu lánveitendur í kjölfarið eftir því að
Skipti greiddi lánin hraðar niður með handbæru fé félagsins. 

Óvissa ríkir um stöðu efnahagsmála á næstunni. Eftirspurn hefur minnkað og
búast má við að sú þróun geti haldið áfram. Skipti og dótturfélög hafa brugðist
við þeim aðstæðum með ýmsum aðgerðum sem allar miða að því ná fram enn betri
rekstri félaganna. Á árinu 2009 var gripið til viðamikilla aðgerða í
rekstrinum. Þessar aðgerðir, sem allar miða að því að búa félagið undir þá tíma
sem framundan eru, hafa þegar skilað sér með lækkun kostnaðar og enn skýrari
stefnu fram á veginn. 

Nánari upplýsingar um samstæðuuppgjörið veita:
Brynjólfur Bjarnason, forstjóri, sími 550-6003.
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs, sími 863-6075.