2016-03-01 18:22:59 CET

2016-03-01 18:22:59 CET


REGLAMENTUOJAMA INFORMACIJA

Islandų
Reginn hf. - Ársreikningur

Reginn hf. - Arsreikningur Regins hf. 2015


·         Rekstrartekjur námu 5.545 m.kr.

·         Vöxtur leigutekna frá fyrra ári var rúmlega 18%.

·         Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 3.625 m.kr. og
jókst um 19% frá fyrra ári. 

·         Hagnaður eftir tekjuskatt nam 4.376 m.kr.sem er aukning um 96% frá
fyrra ári. 

·         Bókfært virði fjárfestingareigna í lok árs var 63.949 m.kr.
samanborið við 53.637 m.kr. í árslok 2014. Matsbreyting á árinu var            
  3.505 m.kr. 

·         Handbært fé frá rekstri nam 2.374 m.kr. á árinu 2015.

·         Vaxtaberandi skuldir voru 39.474 m.kr. í lok árs 2015 samanborið við
32.861 m.kr. í árslok 2014. Meðalkjör á verðtryggðum                 lánum
félagsins er 3,95%. 

·         Eiginfjárhlutfall var í lok árs 33,4%.

·         Hagnaður á hlut á árinu 2015 var 3,06 samanborið við 1,61 árið áður.

Félagið er skráð í Kauphöll Íslands (NASDAQ OMX Iceland hf.), fjöldi hluthafa 
í árslok 2015 voru 581 samanborið við 628 í árslok 2014. 

Rekstur og afkoma

Afkoma Regins á árinu 2015 var góð og í samræmi við áætlun félagsins.
Rekstrartekjur námu 5.545 m.kr.og þar af námu leigutekjur 4.997 m.kr.
Leigutekjur hafa hækkað um 18% samanborið við árið 2014. Rekstrarhagnaður fyrir
söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir / EBITDA var 3.625 m.kr. sem samsvarar
19%  hækkun samanborið við árið 2014. 

Stjórn félagsins leggur til að ekki verður greiddur arður á árinu 2016.
Aðalfundur félagsins verður haldinn 25. apríl nk. 

Eignasafn og efnahagur

Eignasafn Regins samanstendur af fullgerðu atvinnuhúsnæði með háu
útleiguhlutfalli og traustu og stöðugu tekjustreymi. Í lok árs 2015 átti Reginn
107 fasteignir. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var 272 þúsund
fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins er um 97% miðað við tekjur. 

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers árs í tengslum við
gerð ársreiknings og við matið er stuðst við núvirt framtíðar sjóðsflæði
einstakra eigna. Matsbreyting á árinu 2015 var 3.505 m.kr. 

Stækkun félagsins og horfur

Í samræmi við fjárfestingarstefnu félagsins hefur á árinu verið unnið að
stækkun og styrkingu á eignasafni þess. Í júní tók félagið við eignasafni sem
keypt var af Fastengi ehf. dótturfélagi Íslandsbanka. Um var að ræða safn 79
eigna alls 62.000 m2 að stærð.  Kaupin voru fjármögnuð að stærstum hluta með
aukinni skuldsetningu. Útleiguhlutfall í safninu var við kaupin lágt en mjög
vel hefur gengið að koma eignum í leigu. 

Félagið keypti fasteignirnar Lækjargata 2, Austurstræti 22 og Austurstræti 22a
af Reykjavíkurborg í ágúst. Húsin sem eru hágæða eignir staðsettar á einum
besta stað í miðborginni eru um  2.500 m2. 

Í september var tekið í notkun nýtt  2.250 m2 fimleikahúss við Egilshöll.
Reykjavíkurborg leigir allt húsið m.a. undir starfsemi fimleikadeildar Fjölnis. 

Í nóvember var undirritað samkomulag við eigendur félaganna Ósvör ehf. og CFV 1
ehf. um kaup Regins á öllu hlutafé félaganna. Með þeim viðskiptum eignast
Reginn eignasafn sem er metið að heildarvirði 10.050 millj. kr. Eignasafnið
samanstendur af 23 fasteignum og er heildar fermetrafjöldi safnsins um 43.000
m2. Greitt verður fyrir eignarhluti í félögunum með hlutafjáraukningu í Reginn,
beðið er afgreiðslu hluthafafundar á þeirri hlutafjáraukningu. 

Á árinu hefur félagið selt 29 fasteignir sem eru alls 20.080 m2 að stærð.
Söluverð þessa eigna var 2.588 millj. kr. 

Horfur í rekstri

Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar og engar vísbendingar
eru um annað en að áætlanir félagsins standist. 

Kynning á félaginu

Samhliða birtingu á þessu uppgjöri boðar Reginn til opins kynningarfundar
miðvikudaginn 2. mars kl. 12:00 í Iðnó, Vonarstræti 3, Reykjavík. Helgi S.
Gunnarsson forstjóri félagsins mun kynna afkomu ársins 2015 og svara
spurningum. Skráning á kynningarfundinn fer fram í gegnum netfangið
fjarfestatengsl@reginn.is 

Fundinum verður einnig varpað í gegnum netið á eftirfarandi slóð:

http://streymi.nyherji.is/Mediasite/Play/3b49f9d1940d48ed870c0cb2537311261d

Ársreikningur Regins hf. 2015. var samþykktur af stjórn þann 1. mars. Hægt er
að nálgast ársreikning félagsins á www.reginn.is/fjarfestar/ 

Nánari upplýsingar veitir:

Helgi S. Gunnarsson

Forstjóri Regins hf.

Sími: 512 8900 / 899 6262