2013-05-24 17:50:26 CEST

2013-05-24 17:51:28 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Ársreikningur

LEIÐRÉTTING: Afkoma Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2013


Tilkynning sem birt var 23.05.2013 kl. 14:02:57 (CET) innihélt rangt
eiginfjárhlutfall. Rétt eiginfjárhlutfall er 23,9% en í fyrri tilkynningu var
gefið upp að hlutfallið væri 24,1%. Hér má nálgast uppfærða fréttatilkynningu
með réttu eiginfjárhlutfalli. 

Hagnaður Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2013 nam 1,4 milljarði króna eftir
skatta samanborið við 4,5 milljarða króna á sama tímabili á árinu 2012. Arðsemi
eigin fjár var 4,3% samanborið við 16,5% á sama tímabili árið 2012. Arðsemi af
kjarnastarfsemi var 6,3% en var 12,5% á sama tíma árið 2012. Heildareignir námu
907,5 milljörðum króna samanborið við 900,7 milljarða króna í árslok 2012. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 23,9% en í lok árs 2012 var það
24,3%. 


Helstu atriði árshlutareikningsins:

  -- Hagnaður eftir skatta nam 1,4 mö.kr. samanborið við 4,5 ma.kr. á sama
     tímabili 2012.
  -- Hagnaður af kjarnastarfsemi nam 2,1 ma.kr. samanborið við 3,6 ma.kr. á sama
     tímabili 2012.
  -- Rekstrartekjur lækka milli ára vegna gengismunar og námu 8,8 mö.kr.
     samanborið við 10,9 ma.kr. á sama tímabili 2012.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 6,3 mö.kr. og eru nánast óbreyttar frá sama tíma
     2012.
  -- Hrein virðisbreyting á útlánum nemur 0,3 mö.kr. og skýrist af niðurfærslum
     og töpuðum útlánum sem nema 2,7 mö.kr. og virðisaukningu sem nemur 2,4
     mö.kr.
  -- Arðsemi eigin fjár var 4,3% en var 16,5% á sama tímabili 2012. Arðsemi af
     kjarnastarfsemi var 6,3% samanborið við 12,5% á sama tíma 2012.
  -- Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,1% á tímabilinu sem er
     óbreytt frá sama tíma 2012.
  -- Kostnaðarhlutfall á tímabilinu var 72,6% en var 53,1% á sama tímabili 2012.
     Hátt hlutfall nú skýrist m.a. af varúðarfærslu vegna sektar
     samkeppnisyfirvalda á Valitor. Kostnaðarhlutfall af kjarnastarfsemi nam
     66,7% samanborið við 51,4% á sama tímabili 2012.
  -- Útlán til viðskiptavina í lok tímabilsins námu 565,5 mö.kr. og eru nánast
     óbreytt frá áramótum.
  -- Heildareignir námu 907,5 mö.kr., samanborið við 900,7 ma.kr. í árslok 2012.
  -- Eigið fé bankans í lok tímabilsins var 132,3 ma.kr. en nam 130,9 mö.kr. í
     lok árs 2012.



Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Uppgjör fyrsta ársfjórðungs er nokkuð undir  væntingum. Þrátt fyrir að
vaxtatekjur og þóknanatekjur séu í meginatriðum í takt við áætlanir hafa
breytingar á verðmæti lána og sérstaklega gengisbreytingar veruleg neikvæð
áhrif á uppgjörið. Einnig er 500 milljón króna sekt sem Samkeppniseftirlitið
lagði á Valitor færð til gjalda á tímabilinu og hefur það ennfremur neikvæð
áhrif á arðsemi bankans. Það er þó mikilvægt að áfram er góður stöðugleiki í
grunnstarfsemi bankans og undirliggjandi efnahag. Eiginfjárhlutall bankans er
tæplega 24% sem er vel yfir kröfum FME og sýnir góða stöðu bankans. 

Á fyrsta fjórðungi ársins lögðum við áherslu á að auka fjölbreytni í fjármögnun
bankans. Við héldum áfram sértryggðri skuldabréfaútgáfu hér á landi með útgáfu
óverðtryggðra skuldabréfa og Arion banki varð fyrstur íslenskra
fjármálafyrirtækja frá árinu 2007 til að gefa út skuldabréf í erlendri mynt
þegar bankinn gaf út skuldabréf í norskum krónum. Þetta var ekki stór útgáfa en
þeim mun mikilvægari. Það skiptir miklu máli fyrir íslenskt atvinnulíf að
helstu fjármálafyrirtæki landsins hafi aðgang að erlendum lánamörkuðum. Þarna
var stigið mikilvægt skref í þá átt. Við höfum síðan þá skynjað aukinn áhuga
alþjóðlegra lánveitenda á bankanum og þróun mála hér á landi sem er jákvætt. 

Upplýsingatækni skipar veigamikinn sess í starfsemi bankans og heildarkostnaði.
Nýverið lukum við umfangsmikilli uppfærslu á SAP viðskiptahugbúnaði bankans. Að
uppfærslunni, sem tókst í alla staði vel, komu um 40 starfsmenn auk um 20
utanaðkomandi ráðgjafa, innlendra sem erlendra. Við áætlum að rúmlega sex
þúsund vinnustundir hafi farið í verkið á undanförnum mánuðum og að kostnaður
muni í heild nema rúmum 230 milljónum króna. Er hluti þess kostnaðar færður til
gjalda á ársfjórðungnum. Með uppfærslunni eru SAP viðskiptakerfi bankans betur
aðlöguð að starfsemi Arion banka, gagnaöryggi aukið sem og öll skilvirkni
kerfanna.“ 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.