2012-02-01 15:00:59 CET

2012-02-01 15:02:03 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Ársreikningur

Marel kynnir afkomu ársins 2011


Sterkur og arðbær innri vöxtur


  -- Tekjur ársins 2011 námu 668 milljónum evra, sem er 15% aukning samanborið
     við tekjur af kjarnastarfsemi árið áður [2010: 582 milljónir evra].
[1]
  -- Leiðrétt EBITDA var 98,0 milljónir evra, sem er 14,7% af tekjum [2010: 88,1
     milljónir evra af kjarnastarfsemi, leiðrétt].
[2]
  -- Leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) var 73,2 milljónir evra, sem er 10,9% af
     tekjum [2010: 64,1 milljónir evra af kjarnastarfsemi, leiðrétt].
  -- Hagnaður ársins 2011 nam 34,5 milljónum evra [2010: 13,6 milljónir evra].
     Hagnaður per hlut nam 4,70 evru sentum [2010: 1,87 evru sent].
  -- Sjóðstreymi er traust og nettó vaxtaberandi skuldir námu 250,5 milljónum
     evra í lok árs 2011 [2010: 256,7 milljónir evra].
  -- Pantanabók er sterk og nam 196,2 milljónum evra í árslok 2011 [2010: 162,2
     milljónir evra].

Árið 2011 var mjög gott hjá Marel. Tekjur námu 668 milljónum evra, sem er 15%
aukning samanborið við árið á undan. Leiðréttur rekstrarhagnaður var 10,9% af
veltu sem er í samræmi við markmið fyrirtækisins um rekstrarhagnað upp á 10-12%
af veltu á árinu. Horfur fyrir árið 2012 eru jákvæðar. 

Á aðalfundi 2012, sem haldinn verður 29. febrúar nk., mun stjórn Marel leggja
til að hluthafar fái 0,95 evru sent greidd í arð á hlut fyrir rekstrarárið
2011. Miðað við fjölda útistandandi hluta nú nemur fyrirhuguð
heildararðgreiðsla um 6,9 milljónum evra, sem samsvarar um 20% af hagnaði
ársins. Tillagan um arðgreiðslu er í samræmi við markmið um fjármagnsskipan og
arðgreiðslustefnu sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 2011. 



Theo Hoen, forstjóri:

„Árið var mjög gott hjá Marel. Hreinn innri vöxtur nam 15% samanborið við árið
2010. Árinu lauk einstaklega vel með metfjórðungi í tekjum og rekstrarhagnaði
við efri mörkin á EBIT markmiði okkar fyrir árið sem er 10-12% af veltu.
Pantanabókin er sterk og gefur góð fyrirheit fyrir árið 2012. 

Vöxtinn milli ára má þakka tveimur lykilþáttum. Fyrst má nefna að við höldum
áfram að þróa og markaðssetja nýstárlegar vörur sem færa viðskiptavinum okkar
aukin verðmæti. Á meðal nýlegra dæma eru nýja MS 2730 laxaflökunarvélin og
ModularOven ofninn. Í öðru lagi erum að auka sölu á nýmörkuðum og styrkja sölu-
og þjónustunet okkar, m.a. með nýjum skrifstofum í Mexíkó og á Indlandi. 

Við kappkostum að auka rekstrarhagræði á öllum sviðum. Samfara stækkun
fyrirtækisins hefur hlutfall kostnaðar á móti tekjum lækkað. Veltufjár-,
framleiðslu- og innkaupaferlar hafa einnig verið bættir. Reynsla undanfarinna
ára sýnir að starfsfólk okkar hefur metnað og getu til að ná framtíðarmarkmiðum
fyrirtækisins.“ 



Afkoma fjórða ársfjórðungs 2011

Metfjórðungur í tekjum og góð arðsemi

Fjórði ársfjórðungur var framúrskarandi hjá Marel. Tekjur námu 184 milljónum
evra, EBITDA nam 28 milljónum evra og EBIT 22 milljónum evra. 

  -- Tekjur á fjórða ársfjórðungi 2011 námu 183,9 milljónum evra, sem er 9,7%
     aukning samanborið við sama tímabil fyrir ári [Q4 2010: 167,7 milljónir
     evra].
  -- EBITDA var 27,9 milljónir evra, sem er 15,2% af tekjum [Q4 2010: 26,1
     milljónir evra].
  -- Rekstrarhagnaður (EBIT) var 21,6 milljónir evra, sem er 11,8% of tekjum [Q4
     2010: 20,1 milljónir evra].
  -- Hagnaður nam 15,0 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi 2011 [Q4 2010: 5,5
     milljónir evra].

Marel nýtur áfram góðs af sterkri markaðsstöðu og stöðugu framboði nýrra vara.
Nýjar pantanir, að meðtöldum þjónustutekjum, námu 175,9 milljónum evra á fjórða
ársfjórðungi 2011, samanborið við 188,6 milljónir á sama tímabili fyrir ári.
Virði pantana nam 196,2 milljónum evra í lok fjórða ársfjórðungs 2011
samanborið við 162,2 milljónir evra í lok fyrra árs. 



Markaðir

Kjarnastarfsemi Marel beinist að fjórum undirgreinum matvælaiðnaðarins: Vinnslu
á kjúklingi, fiski, kjöti og frekari vinnslu. 

Kjúklingur: Fjöldi nýrra pantana var góður á fjórða ársfjórðungi og bárust
meðal annars stórar pantanir frá Bandaríkjunum, Mið- og Suður-Ameríku,
Ástralasíu og Evrópu. Það var mikið álag á framleiðslueiningar fyrirtækisins á
tímabilinu og voru m.a. nokkrar stórar pantanir frá því fyrr á árinu afhentar,
þar á meðal uppsetningar í nýjar verksmiðjur og samþætt kerfi fyrir
viðskiptavini í Suður-Kóreu. Eftirspurn eftir þeim fyrirbyggjandi
viðhaldslausnum sem Marel býður upp á hefur aldrei verið meiri. 

Fiskur: Það var mikil markaðsvirkni í fiskiðnaði á fjórðungnum, bæði í
hvítfiski og laxi. Þau kerfi sem Marel býður upp á fyrir vinnslu á eldisfiski
eins og tilapia hefur verið vel tekið af markaðnum, þar á meðal í Asíu og
Mið-Ameríku. Þá hefur verið mikil eftirspurn í Noregi eftir stórum og flóknum
kerfum fyrir flokkun á heilum laxi, einkum vegna samþættingar kerfisins við
Innova framleiðslustýringar hugbúnaðinn frá Marel. Innova býður upp á
fullkominn rekjanleika, bætta nýtingu og heildaryfirsýn og hafa viðskiptavinir
sóst eftir að færa sér þessa kosti í nyt. 

Kjöt: Árinu lauk vel með fjölda nýrra pantana, þar á meðal stórra pantana frá
Evrópu og Norður-Ameríku. Má þar nefna stóran evrópskan framleiðanda sem
sérhæfir sig í fersku kjöti sem pantaði meðal annars skurðar- og pökkunarbúnað
fyrir fjölbreytt úrval kjötafurða fyrir smásölumarkað. Þá barst enn ein stór
pöntun á IBS4600 beikonskurðarvélinni sem hefur notið mikillar velgengni síðan
hún var kynnt til sögunnar fyrr á árinu. Útlit er fyrir mikla markaðsvirkni í
upphafi árs 2012, einkum í Austur-Evrópu og Ástralasíu. 

Frekari vinnsla: Fjöldi nýrra pantana var áfram góður á ársfjórðungnum,
sérstaklega í Asíu, þ.á.m. í Japan, Suður-Kóreu og Kína. Heildarvinnslukerfi
hafa selst vel og er útlit fyrir að sú þróun haldi áfram. RevoPortioner
skurðarvélin nýtur áfram vinsælda meðal framleiðenda og er lykilþáttur í mörgum
þeim heildarkerfum sem seld hafa verið undanfarið. Iðnaðarsetur Marel fyrir
frekari vinnslu í Boxmeer, Hollandi, stóð fyrir kynningu í lok október á þeirri
eldunartækni sem fyrirtækið býður upp á og var hún sótt af viðskiptavinum víðs
vegar að úr heiminum. Nýjasta viðbótin við Townsend Further Processing
vörulínuna, ValueFryer steikingarvélin, var þá meðal annars kynnt. 



Nýsköpun

MS 2730 laxaflökunarvélin: Nýja MS 2730 vélin býður upp á fyrsta flokks
laxaflökun auk nýrra eiginleika sem tryggja hámarks nýtingu og afköst. Nýting
er hámörkuð einkum á tvennan hátt. Stillingar eru sjálfvirkt aðlagaðar að stærð
fisksins, frá 2 og upp í 8 kíló. Þá er nýjum hringlaga hnífum beitt við
skurðinn sem tryggir að kjötið næst hryggnum verður ekki útundan. MS 2730
tryggir einnig aukin afköst, allt up að 25 fiskum á mínútu. Ólíkt hefðbundnum
flökunarvélum er fiskurinn mataður inn í vélina með kviðinn niður og gerir það
innmötun mun auðveldari og hraðvirkari. Annar mikilvægur eiginleiki vélarinnar
er að hún er auðveld í notkun og er henni stjórnað með lita snertiskjá og býður
viðmótið upp á val tungumála. 

Nú þegar MS 2730 hefur bæst við vöruframboðið fyrirtækisins getur Marel boðið
viðskiptavinum upp á heildar laxavinnslukerfi þar sem allt ferlið er hámarkað,
frá upphafi til enda - frá flökun til framleiðslu full unninna vara. 



Rekstrarhagræði

Kostnaðaraðhald

Marel leggur áfram ríka áherslu á kostnaðaraðhald og hagræðingu. Þrátt fyrir
aukin umsvif er áfram unnið að frekari verðmætasköpun með því tryggja að sú
lækkun á kostnaðargrunni félagsins sem náðst hefur á undanförnum ársfjórðungum
verði varanleg. 

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri er áfram traust og nemur 19,9 milljónum evra á fjórða
ársfjórðungi 2011, fyrir fjármagnsliði og skatta. Efnahagsreikningurinn er
sterkur og eru nettó skuldir félagsins námu 250,5 milljónum evra í lok fjórða
ársfjórðungs 2011 samanborið við 256,7 milljón á sama tíma fyrir ári.
Minniháttar viðbætur hafa verið gerðar við framleiðsluhúsnæði og búnað en á
heildina litið er fyrirtækið vel í stakk búið til að takast á við frekari vöxt. 

Fjármögnun

Með því að lækka skuldsetningu hefur Marel tekist að lækka meðalvaxtakjör á
þeirri langtímafjármögnun sem félagið tryggði sér í nóvember 2010 niður í
EURIBOR/LIBOR + 250 bps. Heildarvaxtakostnaður af lánum er um það bil 11
milljónum evra lægri árið 2011 en hann var 2010 og endurspeglar það þá lækkun á
fjármagnskostnaði sem nýja fjármögnunin hefur í för með sér. 



Horfur

Markaðsaðstæður eru áfram hagstæðar. Marel hefur styrkt markaðsstöðu sína enn
frekar með nýjum lausnum og frekari markaðssókn. Sterk pantanabók gefur góð
fyrirheit um framhaldið á komandi mánuðum. Engu að síður má gera ráð fyrir að
afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna sveiflna í pöntunum og
tímasetningu stærri verkefna. 



Kynningarfundur 2. febrúar 2012

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn 2. febrúar kl.
8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabæ. Fundinum verður einnig
netvarpað: www.marel.com/webcast 



Aðalfundur 2012

Aðalfundur Marel fer fram miðvikudaginn 29. febrúar 2012 kl. 16:00 í
höfuðstöðvum Marel að Austurhrauni 9 í Garðabæ. Til þess að tillögur frá
hluthöfum sem leggja á fyrir á fundinum verði teknar þar til umræðu verður að
skila þeim til stjórnar félagsins eigi síðar en sjö dögum fyrir fundinn.
Fundurinn og dagskrá hans verða nánar auglýst síðar. 



Birtingardagar fyrir reikningsárið 2012

  -- 1. ársfjórðungur 2012                         26. apríl 2012               
  -- 2. ársfjórðungur 2012                            25. júlí 2012
  -- 3. ársfjórðungur 2012                    24. október 2012
  -- 4. ársfjórðungur 2012                      30. janúar 2013



Frekari upplýsingar veita:

Jón Ingi Herbertsson, fjárfesta- og almannatengsl. Sími: 563-8451

Erik Kaman, fjármálastjóri. Sími: 563-8072

Sigsteinn Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marel. Sími: 563-8072



Um Marel

Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á
heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á
fiski, kjöti og kjúklingi. Fyrirtækið starfrækir skrifstofur og dótturfyrirtæki
í meira en 30 löndum, auk 100 umboðsmanna og dreifingaraðila. 

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og
áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna
við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við
vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif
að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir
í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað
þetta varðar. 





[1]Afkomutölur frá Carnitech A/S eru taldar með í heildarafkoma ársins 2010
fram til 1. febrúar 2010 og tölur frá Food & Dairy Systems til 31. mars 2010.
Þegar afkoma ársins 2011 er borin saman við árið á undan er þess vegna
gagnlegra að miða við afkomu af kjarnastarfsemi en heildarafkomu. 



[2]Einskiptiskostnaður upp á 11,0 milljónir evra vegna lífeyrissjóðsmála, þar á
meðal vegna rammasamkomulags um nýja tilhögun á rekstri lífeyrismála í Hollandi
og flutnings á rekstri lífeyrisskuldbindinga sem voru áður í umsjón
lífeyrissjóðs Stork yfir til PME lífeyrissjóðsins, er ekki talinn með í
leiðréttum tölum fyrir árið 2011 til að auðvelda samanburð við tölur fyrir árið
2010. Tölurnar fyrir 2010 eru leiðréttar fyrir einskiptisliðum sem nema samtals
7,9 milljónum evra á árinu, þar af 7,6 milljónum evra vegna kostnaðar tengdum
lífeyrissjóði Stork.