2008-01-28 11:15:11 CET

2008-01-28 11:15:11 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Nýherji hf. - Fyrirtækjafréttir

- Nýherji lýkur samningum um kaup á TM Software hf.


∙  Nýherji kaupir tæplega 77,9% hlut í TM Software

∙  Markmiðið er að styrkja Nýherja á sviði hýsingar og hugbúnaðarráðgjafar

∙  Samanlögð velta fyrirtækjanna er 14 milljarðar króna 

∙  Heildarkaupverð hlutabréfa er 1.406 milljónir króna

∙  Allt að 65 milljónir nýrra hluta gefnir út á genginu 22

∙  Til verður eitt öflugasta upplýsingatækni- og ráðgjafarfyrirtæki Norðurlanda 

Nýherji styrkir stöðu sína á sviði hýsingar og sérhæfðra hugbúnaðarlausna
Nýherji hf. lauk í dag samningum um kaup á 59,4% hlut Straums í
upplýsingatæknifyrirtækinu TM Software hf.  Nýherji hefur jafnframt tryggt sér
kaup á bréfum FL Group hf. og Tryggingamiðstöðvarinnar hf.  og verður virkur
eignarhlutur Nýherja í TM Software 77,9% eftir kaupin. 

Markmiðið með kaupunum er að styrkja stöðu Nýherja samstæðunnar á sviði
rekstrarþjónustu, hýsingar og þróunar sérhæfðra hugbúnaðarlausna fyrir
fyrirtæki. Kaupin eru mikilvægur áfangi í þróun  Nýherja sem lausna-,
ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni en yfir helmingur tekna
samstæðunnar verður af þess konar starfsemi. 

Eignir Theriak Medication Management seldar þriðja aðila
TM Software er í forystu hérlendis á sviði hýsingar og sértækra
hugbúnaðarlausna og eru mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins á
meðal viðskiptavina fyrirtækisins. TM Software er móðurfélag Skyggnis, Origo,
Vigor, eMR, IPT og Theriak Medication Management. 

Eign TM Software í Theriak Medication Management hefur verið seld og taka nýir
eigendur við hugverkaréttindum, starfsfólki og rekstri félagsins. 
Tekjur TM Software námu um 2,4 milljörðum króna árið 2007 og EBITDA um 200
milljónum króna.  Nettó vaxtaberandi skuldir TM Software námu um 660 milljónum
króna  og eru starfsmenn um 230 talsins.   Samanlögð velta Nýherja og TM
Software er því nærri 14 milljarðar króna og fjöldi starfsmanna í fullu starfi
er um 730.  Eftir sameiningu verður Nýherji í hópi leiðandi upplýsingatækni- og
ráðgjafarfyrirtækja á Norðurlöndum. 

Kaupverð hlutabréfa 1.406 mkr
Kaupin miðast við að heildarverð hlutabréfa í TM Software sé 1.406 milljónir
króna og er greiðsla á 77,9% hlutafjár í TM Software því ríflega 1.095
milljónir króna. Nýherji ráðgerir að gefa út nýtt hlutaféað  nafnverði allt að
65 milljónir króna til að fjármagna kaupin að meginhluta. Hlutafé verður boðið
til kaups á genginu 22. Greiðsla fyrir þau 77,9% sem keypt hafa verið er þannig
að 39% eru greidd með hlutabréfum í Nýherja en 61% í peningum. Kaupin eru háð
fyrirvaralausu samþykki Samkeppniseftirlitsins. 

Allt að 65 milljónir nýrra hluta gefnir út til að fjármagna kaupin 
Áformað er að verja allt að 25 milljónum að nafnverði hlutafjár til að greiða
hluthöfum í TM Software en allt að 40 milljónir verða boðnar núverandi
hluthöfum í Nýherja. Er ráðgert að hlutafjárútboði Nýherja verði lokið fyrir 1.
mars.  Eftirstöðvar kaupverðsins  verða fjármagnaðar með  lánsfé frá Kaupþingi.
Eiginfjárhlutfall samstæðunnar eftir sameiningu og hlutfjáraukningu verður um 
35% en var hjá Nýherja í lok síðasta árs um 31%.  Nýherji mun bjóða öðrum
hluthöfum í TM Software að selja sinn hlut  á sömu kjörum og þeir sem þegar
hafa samið um sölu sinna hluta eða gegn staðgreiðslu. 


Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, um kaupin á TM Software:
,,Með kaupum Nýherja á TM Software er stigið mikilvægt skref í að umbreyta
félaginu í lausna- og þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni og ráðgjafar. 
Eftir kaupin má rekja yfir 50% tekna samstæðunnar til sölu á hugbúnaðarlausnum,
ráðgjöf og þjónustu .  Kaupin styrkja þjónustu okkar til muna m.a. á sviði
rekstrar- og hýsingarþjónustu, veflausna og samþættingar á hugbúnaðarkerfum. 


Um Nýherja hf. 
Hlutverk Nýherja hf. er að skapa viðskiptavinum sínum virðisauka með þekkingu
starfsmanna á upplýsingatækni, rekstri fyrirtækja og þörfum viðskiptavina.
Nýherji býður fyrsta flokks ráðgjöf og fagþjónustu á sviði upplýsingatækni, og
vandaðan hugbúnað, tölvu- og skrifstofubúnað ásamt traustri tækni- og
rekstrarþjónustu. Innan Nýherja samstæðunnar verða eftir kaupin 20
rekstrarfélög hérlendis og erlendis, og af 730 starfsmönnum eru um 165
starfsmenn á vegum félagsins erlendis. Hlutabréf í Nýherja eru skráð í OMX
Kauphöll Íslands. 

Um TM Software
TM Software hf. er hugbúnaðar- og rekstrarþjónustufyrirtæki sem þjónar rúmlega
1.200 viðskiptavinum . TM Software býður upp á heildarlausnir á sviði
upplýsingatækni undir eigin vörumerkjum, sem og sölu og þjónustu á stöðluðum
hugbúnaðarlausnum. Félagið var stofnað árið 1986 og hét TölvuMyndir allt til
ársins 2005 þegar nafninu var breytt í TM Software. 

Nánari upplýsingar veitir Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, í síma +354 569
7711 / +354 893 3630 eða um netfangið thordur.sverrisson@nyherji.