2017-08-24 17:55:14 CEST

2017-08-24 17:55:14 CEST


REGLAMENTUOJAMA INFORMACIJA

Islandų
Síminn hf. - Árshlutareikningur - 6 mán.

Síminn skilar góðum árangri

Rekstrarhagnaður eykst um 39,3% og hagnaður eykst um 52,3% fyrstu sex mánuði ársins 2017 samanborið við sama tímabil árið 2016

Helstu niðurstöður í rekstri á fyrsta ársfjórðungi 2017

  • Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2017 námu 7.254 milljónum króna samanborið við 7.475 milljónir króna á sama tímabili 2016.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.191 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2017 samanborið við 1.954 milljónir króna á sama tímabili 2016 og hækkar því um 237 milljónir króna eða 12,1% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 30,2% fyrir annan ársfjórðung 2017 en var 26,1% á sama tímabili 2016.
  • Hagnaður á öðrum ársfjórðungi 2017 nam 790 milljónum króna samanborið við 716 milljónir króna á sama tímabili 2016.
  • Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 1.986 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2017 en var 1.638 milljónir króna á sama tímabili 2016. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 1.864 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2017 en nam 1.492 milljónum króna á sama tímabili 2016.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 22,3 milljörðum króna í lok annars ársfjórðungs 2017 en voru 22,9 milljarðar króna í árslok 2016. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 18,4 milljarðar króna í lok annars ársfjórðungs 2017.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 258 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2017 en voru 163 milljónir króna á sama tímabili 2016. Fjármagnsgjöld námu 390 milljónum króna, fjármunatekjur voru 134 milljónir króna og gengistap var 2 milljónir króna.
  • Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 54,9% í lok annars ársfjórðungs 2017 og eigið fé 35,3 milljarðar króna. 

Orri Hauksson, forstjóri:

„Góð afkoma Símans skýrist af því að tekist hefur að stýra rekstrinum í takt við tekjuöflun félagsins. Hagnaðurinn eykst og reksturinn styrkist. Veltan dregst hins vegar saman og eru hörð verðsamkeppni og lægri reikigjöld helstu ytri áhrifavaldarnir um þessar mundir.  Auk þess hefur orðið nokkur breyting á starfseminni frá fyrri hluta árs 2016. Félagið seldi Staka, Talenta og útvarpsrekstur auk þess sem EM karla hafði talsverð áhrif á tekjur félagsins á fyrri hluta árs 2016. Velta þessara eininga var nokkru hærri en sem nemur tekjusamdrætti milli ára. Það er ekkert nýtt eða óvænt að fjarskiptamarkaðurinn taki örum breytingum. Vörur vaxa eða hnigna hratt því er stöðug nýsköpun og þróun á innviðum nauðsynleg til að ná árangri til lengri tíma. Sem dæmi má nefna að Síminn kynnir þessa dagana nýja og þægilega greiðslulausn þar sem snjallsíminn tekur við hlutverki greiðslukorta.

Sjónvarpsþjónusta Símans tók stökk fram á við á ársfjórðungnum þegar 4K myndgæði voru kynnt til leiks. Snjallvæðingin heldur einnig áfram og nú býður Síminn viðskiptavinum að gera bílinn snjallari. Sensa treysti samstarf sitt við tæknirisann Cisco og Míla bætti þúsundum heimila í hóp þeirra sem eiga möguleika á ljósleiðaratengingu. Framþróunin heldur áfram. Síminn hefur nú tryggt sér farsímatíðnir sem styrkja samband í dreifbýli, innanhúss og auka hraða í fjölmenni. Síminn er afar vel í sveit settur því Speedtest frá Ookla vottaði farsímakerfi okkar það hraðasta annað árið í röð.

Þótt reksturinn hafi styrkst svo um munar á þessum fyrri árshluta er ljóst að óvissuástand ríkir um stóran hluta heildsölutekna samstæðunnar þar sem tveir af helstu keppinautum á fjarskiptamarkaði leitast við að sameinast. Áfram verður unnið að því að lækka kostnað Símasamstæðunnar, en lykilatriðið er að vera vel í stakk búin fyrir sívaxandi kröfur viðskiptavina. Bættir innviðir, afþreying og þjónustuforskot marka leið okkar í samkeppninni.“

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550-6003 (orri@siminn.is)

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans s. 550-6003 (oskarh@siminn.is)