2014-02-28 17:56:56 CET

2014-02-28 17:57:58 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Nýherji hf. - Ársreikningur

Ársuppgjör Nýherja hf. fyrir árið 2013


Helstu upplýsingar

  -- Virðisrýrnun viðskiptavildar 1.202 mkr, einkum vegna tapreksturs í Danmörku
  -- Heildartap ársins nam 1.608 mkr 
  -- EBITDA nam 230 mkr árið 2013 samanborið við 481 mkr árið 2012
  -- EBITDA án einskiptiskostnaðar nam 371 mkr samanborið við 481 mkr árið á
     undan
  -- Handbært fé frá rekstri nam 561 mkr samanborið við 237 mkr árið 2012
  -- Vaxandi eftirspurn eftir tækni- og rekstrarþjónustu hjá Nýherja hf. á árinu
  -- Góð afkoma og horfur hjá innlendum dótturfélögum
  -- Jákvæður viðsnúningur hjá Applicon AB í Svíþjóð og Applicon A/S  í Danmörku
     sett í söluferli



Finnur Oddsson, forstjóri:

„Innlend starfsemi Nýherjasamstæðunnar gekk ágætlega á árinu 2013 en Nýherji,
Applicon og TM Software skila öll jákvæðri afkomu. Rekstur innlendra
dótturfélaga hefur gengið vel og horfur framundan mjög góðar. Rekstur
Nýherjasamstæðunnar á erlendum vettvangi var hins vegar þungur á síðasta ári,
einkum hjá Applicon A/S í Danmörku, sem skýrir að langstærstum hluta tap
samstæðunnar á árinu. 



Viðvarandi tap hefur verið af rekstri Applicon A/S undanfarin ár og af þeim
sökum hefur viðskiptavild vegna félagsins verið skrifuð niður um 1.100 mkr á
árinu. Applicon A/S er nú í söluferli og Dansupport A/S í Danmörku var selt í
lok árs, en lítil sem engin samlegð hefur verið milli reksturs í Danmörku og á
Íslandi. Báðar þessar aðgerðir eru í takti við nýja stefnu Nýherjasamstæðunnar
og aðgerðaáætlun, þar sem megináhersla er lögð á að einfalda starfsemi, bæta
afkomu og styrkja stöðu félagsins. 



Þetta uppgjör markar ákveðin þáttaskil hjá samstæðu Nýherja.  Við horfum nú til
tækifæranna sem felast í því að nýta okkur sterka stöðu á markaði og mjög
samkeppnishæft vöru- og lausnaframboð til að þjónusta stóran hóp öflugra
viðskiptavina.  Að sama skapi væntum við áframhaldandi vaxtar erlendra tekna
vegna sölu hugbúnaðarlausna sem þróaðar eru af dótturfélögum Nýherja, einkum TM
Software.“ 



Kynningarfundur þann 3. mars



Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn mánudaginn 3.
mars 2014 í höfuðstöðvum félagsins að Borgartúni 37 í Reykjavík og hefst hann
kl. 08:30. Finnur Oddsson forstjóri mun kynna afkomu félagsins. Hægt verður að
nálgast kynningarefni fundarins að honum loknum á heimasíðu félagsins,
www.nyherji.is. 



Fjárhagsdagatal fyrir 2014:



28. febrúar 2014: Ársuppgjör ársins 2013

14. mars 2014: Aðalfundur ársins 2013

30. apríl 2014: Uppgjör 1. ársfjórðungs ársins 2014

25. júlí 2014: Uppgjör 2. ársfjórðungs og fyrstu sex mánaða ársins 2014

24. október 2014: Uppgjör 3. ársfjórðungs og fyrstu níu mánaða ársins 2014

30. janúar 2015: Uppgjör 4. ársfjórðungs og ársins 2014

13. febrúar 2015: Aðalfundur ársins 2014





Nánari upplýsingar veita
Finnur Oddsson, forstjóri, (fo@nyherji.is) og
Gunnar Petersen, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (gunnar.petersen@nyherji.is)