2014-05-09 10:37:00 CEST

2014-05-09 10:37:25 CEST


REGULATED INFORMATION

English
Fjarskipti hf. - Changes board/management/auditors

Fjarskipti hf.: Stefán Sigurðsson ráðinn forstjóri Vodafone


Stjórn Vodafone (Fjarskipta hf.) hefur ráðið Stefán Sigurðsson í starf forstjóra
Vodafone. Samhliða lætur Ómar Svavarsson af störfum hjá félaginu, en hann hefur
verið forstjóri frá árinu 2009.

Stefán hefur frá október 2008 gegnt starfi framkvæmdastjóra eignastýringar
Íslandsbanka. Hann hefur mikla reynslu af rekstri, stefnumótun og innleiðingu,
uppbyggingu sölu og þjónustu til einstaklinga og fagfjárfesta. Hann hefur
víðtæka þekkingu á vöruþróun, markaðs- og samskiptamálum.

Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður:"Miklar og örar breytingar eiga sér nú stað á fjarskiptamarkaði. Vodafone er
leiðandi á markaðnum og ætlar að vera það áfram, með sérstaka áherslu á góða
þjónustu, alþjóðlegt vöruframboð og þarfir viðskiptavina. Það er mikill fengur
fyrir Vodafone í Stefáni Sigurðssyni og hann mun leiða félagið inn í spennandi
framtíð. Ég vil þakka Ómari Svavarssyni fyrir gott, óeigingjarnt og dugmikið
starf fyrir félagið, starfsfólk þess og eigendur á miklum umrótartímum."

Stefán Sigurðsson, forstjóri:"Vodafone er sterkt og gott fyrirtæki. Það starfar á spennandi markaði og
starfsfólk hefur skapað einstakan vinnustað, þar sem fagmennska og metnaður er
ríkjandi.  Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum við áframhaldandi uppbyggingu
félagsins á næstu árum."

Stefán er með MSc gráðu í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og BSc gráðu á
sama sviði frá Háskóla Íslands. Hann er fæddur árið 1972, kvæntur Rögnu Söru
Jónsdóttur, forstöðumanni samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun og eiga þau fjögur
börn.


[HUG#1784153]