2014-11-24 12:14:07 CET

2014-11-24 12:15:08 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsbankinn hf. - Fyrirtækjafréttir

Landsbankinn hf.: Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins varðandi verðtryggingarákvæði í skuldabréfi


Í dag veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit um skýringu tiltekinna ákvæða í
tilskipun 87/102/EBE um neytendalán og tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta
skilmála í neytendasamningum. Álitið er veitt að beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur
í tengslum við mál Sævars Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum. Málið varðar
lögmæti verðtryggingarákvæðis í skuldabréfi sem Sævar gaf út til bankans árið
2008. 

Að því er varðar tilskipun 87/102/EBE um neytendalán er það álit
EFTA-dómstólsins að þegar lánssamningur er bundinn við vísitölu neysluverðs,
samrýmist það ekki tilskipuninni að miðað sé við 0% verðbólgu við útreikning á
heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt
verðbólgustig á lántökudegi  er ekki 0%. Það sé landsdómstólsins að meta, að
teknu tillit til allra atvika málsins, hvaða áhrif röng upplýsingagjöf af þessu
tagi hefur og hvaða úrræðum sé hægt að beita af því tilefni, að því gefnu að
þeirri vernd sem tilskipunin veitir, eins og dómurinn skýrir hana, sé ekki
stefnt í hættu. 

Að því er varðar tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum
er það m.a. álit EFTA-dómstólsins að sú tilskipun leggi ekki almennt bann við
skilmálum um verðtryggingu lána í samningum milli lánveitanda og neytanda. Það
sé landsdómstólsins að meta hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur. Tilskipunin
takmarki ekki svigrúm EES-ríkis til þess að ákveða með lögum eða
stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni
vísitölu, á borð við vísitölu neysluverðs, og eftir hvaða aðferðum þær
breytingar skuli mældar, að því gefnu að þeim sé lýst með skýrum hætti í
samningnum. Það sé landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvort samið hafi
verið sérstaklega um tiltekinn samningsskilmála  í skilningi tilskipunarinnar.
Það sé landsdómstólsins að meta hvort samningsskilmála um verðtryggingu
afborgana af láni skuli teljast hafi verið lýst fyrir neytandanum með skýrum og
skiljanlegum hætti. Þá telur EFTA-dómstóllinn að túlka verði ákvæði
tilskipunarinnar með þeim hætti að í þeim tilvikum þar sem landsdómstóll kemst
að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur samkvæmt
tilskipuninni beri þeim dómstól að tryggja að slíkur skilmáli sé óskuldbindandi
fyrir neytandann að því gefnu að samningurinn geti haldið gildi sínu að öðru
leyti án hins óréttmæta skilmála að því marki sem reglur landsréttar leyfa. 

Héraðsdómur Reykjavíkur mun nú fara yfir álit EFTA-dómstólsins og taka afstöðu
til þess, á grundvelli íslenskra laga, hvort og þá að hvaða marki það hefur
áhrif á úrlausn ofangreinds máls. Ekki er hægt á þessu stigi að fullyrða neitt
um dómsniðurstöðu í því máli. 

Lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 kveða með skýrum hætti á um að
heimilt er að verðtryggja lánsfé. Landsbankinn lítur svo á að
verðtryggingarákvæði lána í eigu bankans séu samræmi við þau lög og aðrar
réttarreglur er varða verðtryggingu lánsfjár. Þá telur bankinn að staðið hafi
verið að upplýsingagjöf í tengslum við veitingu verðtryggðra lána hjá bankanum
í samræmi við ákvæði íslenskra laga um neytendalán. Á þeim tíma er lán það var
tekið sem fjallað er um í ofangreindu dómsmáli voru í gildi lög um neytendalán
nr. 121/1994. Lögin fólu í sér innleiðingu á tilskipun 87/102/EBE um
neytendalán. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kom fram að í tilfelli verðtryggðra
lánssamninga skyldi reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá
forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld yrði óbreytt til loka lánstímans.
Landsbankinn skýrði ákvæðið með þeim hætti að hið lögmælta viðmið um óbreytt
verðlag þýddi ótvírætt að ekki ætti að taka tillit til verðbólgu við útreikning
á áætluðum kostnaði lántaka af lántökunni (0% verðbólga). Álit EFTA-dómstólsins
er ráðgefandi og eiga íslenskri dómstólar nú eftir að taka afstöðu til málsins.
Eitt af þeim álitaefnum sem mun reyna á þar er hvort tilskipunin hafi verið
innleidd rétt í íslenskan rétt, en af hálfu bankans er litið svo á að eldri lög
um neytendalán séu mjög afdráttarlaus um að ekki beri að taka tillit til
breytinga á verðlagi við útreikning á áætluðum kostnaði lántaka af lántökunni.
Af áliti EFTA-dómstólsins má einnig ráða að það skipti máli hvort lántaki vissi
eða mátti vita af áhrifum verðbólgu á lántökuna ef ekki var gert ráð fyrir
henni í kostnaðaráætlun láns. Þannig á eftir að reyna á ýmis sjónarmið fyrir
íslenskum dómstólum. 

Landsbankinn hefur farið yfir hugsanleg áhrif þess ef bankinn yrði talinn bera
ábyrgð á því að ákvæði um verðtryggingu yrðu ekki talin gild eða ef
upplýsingagjöf í tengslum við veitingu verðtryggðra lána væri talin
ófullnægjandi. Slík niðurstaða væri til þess fallin að lækka virði þess hluta
verðtryggðs lánasafns bankans sem væri háð einhverjum slíkum ágöllum.
Eiginfjárhlutfall bankans er hins vegar afar hátt og myndi bankinn áfram vera
vel yfir eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins þrátt fyrir slíka niðurstöðu. Þá
yrði slík niðurstaða ekki til þess að draga úr getu bankans til þess að
endurgreiða sértryggð skuldabréf bankans sem tekin hafa verið til viðskipta á
skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi. 



Frekari upplýsingar veitir:

Kristján Kristjánsson, pr@landsbankinn, 410 4011/899 9352