2018-02-17 11:51:03 CET

2018-02-17 11:51:30 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Kvika banki hf. - Ársreikningur

Kvika banki hf.: Afkomutilkynning 2017


Á stjórnarfundi þann 17. febrúar 2018 samþykktu stjórn og forstjóri ársreikning
samstæðu Kviku banka hf. fyrir tímabilið 1. janúar 2017 til 31. desember 2017.

Helstu atriði úr ársreikningi:

 * Hagnaður Kviku árið 2017 nam 1.591 milljónum króna en afkoma grunnrekstrar,
  sem er leiðrétt fyrir einskiptisliðum vegna samruna og skipulagsbreytinga,
  nam 1.919 m.kr.
 * Arðsemi eiginfjár af grunnrekstri árið 2017 var 24,9%.
 * Hreinar rekstrartekjur námu 5.009 milljónum króna árið 2017.
 * Rekstrarkostnaður nam 3.670 milljónum króna árið 2017.
 * Heildareignir 31. desember 2017 námu 75.597 milljónum króna.
 * Eigið fé samstæðunnar 31. desember 2017 nam 10.982 milljónum króna.
 * Eiginfjárhlutfall 31. desember 2017 var 21,1%.
 * Lausafjárþekja (LCR) 31. desember 2017 var 215%.
 * Starfsmenn voru 107 í lok árs 2017.
Hagnaður af reglulegri starfsemi tæpir tveir milljarðar

Hagnaður Kviku af grunnrekstri árið 2017 nam 1.919 milljónum króna samanborið
við 1.955 milljónir króna árið 2016. Einskiptisliðir vegna samruna og
skipulagsbreytinga á árinu voru 328 milljónir króna og var hagnaður eftir
einskiptiskostnaðarliði 1.591 milljónir króna.

Vöxtur var í hreinum vaxtatekjum og þóknanatekjum á árinu. Hreinar vaxtatekjur
námu 1.563 milljónum króna og jukust um 47% á milli ára og skýrist það að miklu
leyti af bættum fjármögnunarkjörum Kviku. Þóknanatekjur námu 3.033 milljónum
króna á árinu 2017 og jukust um 5% á milli ára, en vöxtur var á nær öllum
tekjusviðum bankans á milli ára. Rekstrarkostnaður nam 3.670 milljónum króna á
árinu 2017 og jókst um 14% á milli ára, en 328 milljónir skýrast af
einskiptisliðum.

Arðsemi eiginfjár af grunnrekstri árið 2017 nam 24,9%.

Sterkur og gagnsær efnahagur

Í lok árs 2017 námu heildareignir samstæðu Kviku 75,6 milljörðum króna
samanborið við 59,6 milljarða króna í árslok 2016 og jukust um 27% á tímabilinu.
Handbært fé nam tæpum 20,0 milljörðum króna og jókst um 8,0 milljarða á
tímabilinu. Útlán til viðskiptavina námu rúmum 25,3 milljörðum króna í lok árs
2017 og drógust saman um tæp 3% á milli ára. Almenn innlán námu rúmum 41,7
milljörðum króna og jukust um 9,3 milljarða króna á árinu.

Lausafjárstaða bankans er góð og nam lausafjárþekjan (LCR) 215% í árslok, langt
umfram kröfur um 100% lágmarksþekju.

Eigið fé í lok árs 2017 var 10.982 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 21,1%
samanborið við 20,6% í árslok 2016. Eiginfjárstaða bankans er sterk og
eiginfjárhlutfall umfram kröfur eftirlitsaðila, en lágmarkskrafa um
eiginfjárgrunn að viðbættum eiginfjáraukum var 19,5% í árslok.


Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku:

"Árið var viðburðaríkt í starfsemi Kviku og ytri vöxtur setti mark sitt á síðari
helming ársins. Bankinn styrkti grunnstoðir sínar með kaupum á öllu hlutafé í
Virðingu og Öldu sjóðum og er nú einn umsvifamesti aðilinn á
eignastýringarmarkaði með um 263 milljarða í stýringu og tugi sjóða í rekstri. Í
september tók bankinn einnig yfir fyrirtækjaráðgjöf Beringer Finance á Íslandi
og er nú með eina öflugustu fyrirtækjaráðgjöf á Íslandi. Samþætting á starfsemi
eininga sem þessara er flókið verkefni en hefur gengið mjög vel þökk sé því
frábæra fólki sem starfar hjá bankanum.

Þrátt fyrir að ytri vöxtur væri fyrirferðarmikill gekk rekstur Kviku mjög vel á
árinu 2017. Afkoma bankans var góð, fjármögnun bankans styrktist og vel gekk að
halda rekstrarkostnaði á áætlun. Uppbygging félagsins hefur gengið vonum framar
og var vöxtur bæði í þóknana- og vaxtatekjum.Veruleg kostnaðarsamlegð hefur
náðst fram í kjölfar sameiningar við Virðingu og mun hún hafa jákvæð áhrif á
rekstur bankans til framtíðar.

Horfur í rekstri Kviku eru prýðilegar. Bankinn er leiðandi í
fjárfestingabankaþjónustu á innlendum markaði, reksturinn er sterkur og frekari
sóknarfæri framundan. Unnið er að skráningu hlutabréfa bankans á Nasdaq First
North og er stefnt að því að ljúka henni fyrir lok mars."Nánari upplýsingar veitir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku í síma 540 3200.
[]