2013-12-17 17:50:07 CET

2013-12-17 17:51:09 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Landsvirkjun - Fyrirtækjafréttir

Landsvirkjun skilmálabreytir skuldabréfum


Landsvirkjun undirritaði nýlega tvo samninga um skilmálabreytingar á
útistandandi skuldabréfum. Annars vegar var skuldabréfi skuldbreytt úr evrum í
Bandaríkjadal og hins vegar var innköllunarákvæði tekið úr samningi og
lokagjalddaga breytt. 

Fyrri breytingin snýr að skuldbreytingu á skuldabréfi úr evrum yfir í
Bandaríkjadal. Skuldabréfið var gefið út árið 2006 með gjalddaga 2016.
Skuldabréfið var að fjárhæð 50 milljónir evra en eftir skuldbreytinguna verður
það að fjárhæð um 68 milljónir Bandaríkjadala. 

Sú síðari snýst um breytingu á innköllunarákvæðum á einu skuldabréfi
Landsvirkjunar. Skuldabréfið er að fjárhæð 50 milljónir evra með árlegu
innköllunarákvæði, af hálfu lánveitanda, fram að gjalddaga bréfsins árið 2023.
Samið var um að eigandi skuldabréfsins myndi afsala sér réttinum að innkalla
skuldabréfið og lokagjalddagi skuldabréfsins verði í mars 2020. Sökum
innköllunarákvæðisins hefur fyrirtækið skilgreint skuldabréfið sem skammtímalán
en eftir breytinguna verður það fært meðal langtímaskulda. 

Ávinningur Landsvirkjunar af þessum skilmálabreytingunum er tvíþættur. Annars
vegar er dregið úr fjárhagslegri áhættu fyrirtækisins vegna mögulegra breytinga
á gengi evru gagnvart starfsrækslugjaldmynt félagsins sem er Bandaríkjadalur.
Hins vegar er dregið úr endurfjármögnunaráhættu með því að fastsetja
lokagjalddaga á árinu 2020. Breytingar þessar eru mikilvægur þáttur í þeirri
stefnu að draga úr áhættu tengdri lánasafni fyrirtækisins. 





Frekari upplýsingar:

Rafnar Lárusson

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs

rafnar@lv.is

515-9000