2016-02-24 18:39:14 CET

2016-02-24 18:39:14 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka árið 2015


Afkoma Arion banka á árinu 2015 ber þess merki að til lykta voru leidd nokkur
umfangsmikil úrlausnarmál sem vörðuðu mikla hagsmuni fyrir bankann. Fyrst og
fremst er um að ræða sölu bankans á hlutum í fimm félögum: Reitum
fasteignafélagi hf., Eik fasteignafélagi hf., Símanum hf., alþjóðlega
drykkjarframleiðandanum Refresco Gerber og Bakkavor Group Ltd. Öll voru félögin
skráð í kauphöll hér á landi eða erlendis, nema eignarhluturinn í Bakkavor
Group sem var seldur í kjölfar söluferlis í umsjón Barclays bankans. Þannig nam
hagnaður Arion banka á árinu 2015 49,7 milljörðum króna eftir skatta samanborið
við 28,7 milljarða króna á árinu 2014. Arðsemi eigin fjár var 28,1% samanborið
við 18,6% árið 2014. 

Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 16,8 milljörðum króna samanborið við 12,7
milljarða árið 2014. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 10,4% á
árinu samanborið við 10,7% árið 2014. Heildareignir námu í árslok 2015 1.011,0
milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014 og eigið fé
hluthafa bankans nam 192,8 milljörðum króna í árslok og hafði hækkað um 20%
milli ára. 

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 24,3 milljörðum króna og eykst verulega
milli ára. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til virðishækkunarinnar á
eignarhluta í Bakkavor Group Ltd. 

Umtalsverðar virðisbreytingar urðu á lánabók bankans á árinu. Niðurfærslur
tengjast að mestu lánum til erlendra félaga í þjónustu tengdri olíuleit og
lánum sem bankinn yfirtók frá AFL – sparisjóði á árinu. Hækkanir tengjast að
mestu uppgreiðslu lána, bæði einstaklinga í tengslum við leiðréttingu
ríkisstjórnarinnar og fyrirtækja í tengslum við endurskipulagningu og sölu. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok ársins 2015 var 24,2% en var 26,3% í árslok
2014. Lækkunin er einkum tilkomin vegna arðgreiðslu að fjárhæð 12,8 milljarðar
króna og fyrirframgreiðslu á víkjandi lánum frá ríkinu að fjárhæð 20 milljarðar
króna. Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 23,4% samanborið við 21,8% í
árslok 2014. 

Helstu rekstrar- og kennitölur bankans eru eftirfarandi, samanborið við fyrra
ár: 

Rekstrarreikningur                                                             
Í milljónum króna                              2015      2014  4F 2015  4F 2014
Hreinar vaxtatekjur                          26.992    24.220    6.705    5.911
Hreinar þóknanatekjur                        14.484    13.309    3.758    3.190
Hreinar fjármunatekjur                       12.844     7.290    2.668    1.429
Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga        29.466     3.498   22.510    3.525
Aðrar rekstrartekjur                          2.769     5.673      537    1.683
-------------------------------------------------------------------------------
Rekstrartekjur                               86.555    53.990   36.178   15.738
Laun og launatengd gjöld                   (14.892)  (13.979)  (4.572)  (3.953)
Annar rekstrarkostnaður                    (13.304)  (13.063)  (4.288)  (4.465)
Bankaskattur                                (2.818)   (2.643)    (650)    (635)
Hrein virðisbreyting                        (3.087)     2.135  (2.973)    (742)
-------------------------------------------------------------------------------
Hagnaður fyrir skatta                        52.454    26.440   23.695    5.943
Tekjuskattur                                (3.135)   (4.679)      504    (223)
Afkoma af aflagðri starfsemi eftir skatta       360     6.833       83      241
-------------------------------------------------------------------------------
Hagnaður tímabilsins                         49.679    28.594   24.282    5.961
-------------------------------------------------------------------------------
                                                                               
-------------------------------------------------------------------------------
                                                                               
Helstu kennitölur                                                              
Arðsemi eigin fjár                            28,1%     18,6%    51,6%    14,8%
Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir               3,0%      2,8%     2,9%     2,8%
Kostnaðarhlutfall                             32,6%     50,1%    24,5%    53,5%
Tier 1 hlutfall                               23,4%     21,8%    23,4%    21,8%

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoma ársins er afar góð en markast mjög af óreglulegum liðum. Árið 2015
markar ákveðin kaflaskil í starfsemi Arion banka því á árinu voru nokkur
umfangsmikil úrlausnarverkefni leidd til lykta. Verkefni sem unnið hefur verið
að innan bankans um nokkurra ára skeið. Annars vegar er um að ræða sölu Arion
banka á hlutum í þremur íslenskum félögum í aðdraga skráningar þeirra í
kauphöll og hins vegar sölu á eignarhlutum í tveimur erlendum félögum.
Niðurstaða þessara mála hefur afar jákvæð áhrif á uppgjör ársins. Í raun eru
lok þessara mála mikill áfangi fyrir bankann því nú er öllum stærstu
úrlausnarmálunum lokið. 

Skráningar Reita fasteignafélags, Eikar fasteignafélags og Símans í kauphöll,
sem voru í umsjón Arion banka og fóru fram að loknu almennu hlutafjárútboði,
voru einu nýskráningarnar í kauphöll hér á landi á síðasta ári. Það hefur verið
stefna Arion banka að stuðla að skráningu félaga í Kauphöll og gefa þannig
almenningi kost á að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífs og virks
hlutabréfamarkaðar. 

Grunnstarfsemi bankans hélt áfram að eflast á árinu og styrkti bankinn sína
stöðu á öllum helstu mörkuðum. Góður vöxtur var í eignastýringu bankans sem og
lánum til fyrirtækja. Arion banki vann á árinu samkeppni um fjármálaþjónustu í
Flugstöð Leifs Eiríkssonar og mun hefja þar starfsemi með vorinu. Það er
virkilega spennandi verkefni ekki síst í ljósi mikillar fjölgunar ferðamanna
hér á landi. Þetta var um margt óvenju viðburðarríkt ár og fór svo að
fagtímaritið The Banker, sem er gefið út af The Financial Times, valdi Arion
banka sem banka ársins á Íslandi. 

Við sáum á árinu talsverða þróun og árangur hjá nýsköpunarfyrirtækjum sem hafa
farið í gegnum Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík. Aðgengi að
áhættufjármagni hefur batnað til muna og í heildina hafa þau 54 fyrirtæki  sem
bankinn hefur fjárfest í aflað rúmlega 1.700 milljóna króna. Tveir þriðju
þeirrar upphæðar eru í formi hlutafjár og einn þriðji í formi styrkja. Þetta er
að okkar mati til marks um afar ánægjulega og mikilvæga þróun í umhverfi
nýsköpunarfyrirtækja hér á landi. 

Verkefni okkar á undanförnum árum hefur verið að byggja upp góðan banka sem
veitir sínum viðskiptavinum góða fjármálaþjónustu með ábyrgum hætti. Banka sem
er fjárhagslega sterkur, í stakk búinn að takast á við afnám fjármagnshafta og
eftirsóknarverður fjárfestingarkostur. Okkur hefur miðað vel í þessum efnum. Nú
í upphafi árs var tilkynnt um samning Arion banka og Kaupþings sem tekur til
endurfjármögnunar bankans og er liður í því að uppfylla stöðugleikaskilyrði
ríkisstjórnarinnar vegna afnáms fjármagnshafta. Einnig förum við ekki varhluta
af áhuga á söluferli bankans sem stendur fyrir dyrum. Það eru áhugaverðir tímar
framundan.“ 

Helstu atburðir ársins

  -- Árið 2015 einkenndist af úrlausnum og lokum ýmissa mikilvægra mála í
     rekstri bankans.
  -- Í mars var drykkjarvörufyrirtækið Refresco Gerber skráð á Euronext
     markaðinn í Amsterdam. Arion banka samstæðan átti í beinu og óbeinu
     eignarhaldi ríflega 9% eignarhlut í félaginu og var um helmingur af þeirri
     eign seldur við skráninguna. Hagnaður af sölunni og virðisbreyting
     eftirstandandi eignarhlutar í tengslum við skráninguna nam 6.306 milljónum
     króna á fyrsta ársfjórðungi.
  -- Í mars varð Arion banki fyrsti íslenski bankinn frá árinu 2008 til að gefa
     út skuldabréf í evrum til breiðs hóps fjárfesta á alþjóðlegum markaði.
     Útgáfan nam 300 milljónum evra til þriggja ára, eða sem samsvarar 47
     milljörðum króna og voru kaupendur um 100 alþjóðlegir fjárfestar.
     Eftirspurn var umtalsverð umfram framboð.
  -- Í byrjun apríl voru Reitir fasteignafélag hf. skráðir á Nasdaq Ísland.
     Arion banki hafði umsjón með skráningunni og seldi jafnframt umtalsverðan
     hlut af sínum eignarhluta í félaginu í almennu útboði. Samtals voru
     rekstraráhrif af sölu eignarhlutarins og virðisbreyting eftirstandandi
     hlutar 4.224 milljónir króna á fyrri helmingi ársins.
  -- Fasteignafélagið Eik hf. var skráð á Nasdaq Ísland í lok apríl. Arion banki
     hafði umsjón með skráningunni og seldi jafnframt um 14% eignarhlut sinn í
     félaginu í almennu útboði á sama tíma. Söluhagnaður nam ríflega 600
     milljónum króna.
  -- Í apríl greiddi Arion banki 12,8 milljarða króna í arð til hluthafa sinna.
  -- Arion banki nýtti nýja fjármögnun í evrum að hluta til að greiða niður
     víkjandi lán frá ríkissjóði en samtals voru greiddir um 20 milljarðar króna
     fyrirfram inn á lánin. Kjör bréfanna hækkuðu í ársbyrjun 2015 sem var einn
     helsti hvati til niðurgreiðslu.
  -- Á árinu eignaðist Arion banki allt stofnfé í AFL - sparisjóði og á
     haustmánuðum sameinaðist sjóðurinn Arion banka. Opnað var nýtt útibú Arion
     banka á Siglufirði og starfsemin á svæðinu efld.
  -- Í október var Síminn hf. skráður á Nasdaq Ísland. Í aðdraganda skráningar
     seldi Arion banki um 10% eignarhlut í félaginu og um 20% til viðbótar í
     almennu útboði í tengslum við skráninguna. Arion banki hafði umsjón með
     skráningunni. Rekstaráhrif af sölunni og virðisbreytingu eftirstandandi
     hlutar var 4.185 milljónir króna á árinu.
  -- Á árinu var unnið markvisst að sölu á 46% eignarhlut dótturfélagsins BG12
     slhf. í Bakkavor Group Ltd. í samvinnu við aðra hluthafa félagsins. Í
     byrjun árs 2016 var eignarhluturinn seldur og var virði eignarhlutarins í
     árslok 2015 færður til samræmis við söluverðið. Virðisbreyting eignarhlutar
     BG12 nam samtals 20.845 milljónum króna á árinu, en Arion banki á 62%
     eignarhlut í BG12 slhf.
  -- Á árinu hélt Arion banki áfram að gefa út sértryggð skuldabréf í samræmi
     við lög nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf. Samtals gaf bankinn út
     sértryggð bréf fyrir 23,6 milljarða króna á árinu. Viðskiptavakt var aukin
     með samningum við þrjá viðskiptavaka til að auka seljanleika bréfanna og
     virkni á markaði.
  -- Aukin áhersla var lögð á lausafjárstýringu hjá bankanum sem skilaði sér
     m.a. í hærri vaxtamun en var á árinu 2014.
  -- Gæði lánabókar bankans héldu áfram að batna á árinu 2015. Hlutfall
     vandræðalána, sem skilgreind eru sem lán í vanskilum lengur en 90 daga auk
     lána sem eru með sértæka niðurfærslu, lækkaði úr 4,4% í árslok 2014 í 2,5%
     í árslok 2015. Umtalsverðar virðisbreytingar urðu á útlánum á árinu 2015
     samanborið við fyrra ár. Virðishækkanir voru í tengslum við uppgreiðslu
     lána, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Niðurfærslur voru hins vegar
     bæði vegna yfirtöku á lánasafni AFL – sparisjóðs og vegna útlána til
     erlendra þjónustufyrirtækja sem tengd eru olíuleit. Heildarumfang lána til
     þessara þjónustufyrirtækja nemur innan við 1% af heildarlánum bankans og
     hefur verið færð viðeigandi varúðarniðurfærsla vegna þeirra.
  -- Á miðju ári kynnti ríkisstjórnin áætlun um afnám fjármagnshafta, sem hafa
     verið í gildi frá árinu 2008. Í framhaldi voru kynntar áætlanir slitabúanna
     um stöðugleikaframlög þar sem Arion banki gegndi lykilhlutverki í framlagi
     slitabús Kaupþings ehf. Arion banki undirbjó þessar væntu breytingar vel á
     árinu 2015 og var gengið frá samningum við Kaupþing í ársbyrjun 2016 sem
     munu tryggja langtímahagsmuni bankans varðandi fjármögnun í erlendum
     gjaldeyri til næstu ára.
  -- Á árinu var gengið frá samningum um kaup á meirihluta í tryggingafélaginu
     Verði hf. Kaupin eru háð samþykki eftirlitsaðila en búist er við að gengið
     verði frá þeim á næstu mánuðum.



Fundur með markaðsaðilum

Arion banki mun halda símafund á ensku fyrir markaðsaðila, fimmtudaginn 25.
febrúar, klukkan 13:00. Á fundinum mun Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion
banka, fara yfir helstu atriði í uppgjöri bankans. Áhugasamir geta sent
tölvupóst á ir@arionbanki.is og fá í kjölfarið sendar innhringiupplýsingar. 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.