2007-11-16 13:05:53 CET

2007-11-16 13:05:53 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Sparisjóður Reykjavíkur og nágr. - Fyrirtækjafréttir

- SPRON hefur opnað skrifstofu í Berlín


SPRON Verðbréf dótturfélag SPRON hf. hefur opnað skrifstofu í Berlín. 
Meginhlutverk skrifstofunnar er að veita ráðgjöf og annast fjárfestingar í
fasteignum og fyrirtækjum í Þýskalandi, sem og á nálægum svæðum og bæta með því
enn frekar þjónustu við einka- og fyrirtækjafjárfesta á Íslandi.  Verkefni
skrifstofunnar verða unnin í samvinnu Fyrirtækjaráðgjafar SPRON Verðbréfa á
Íslandi og í Berlín.  Kristján Guðmundsson hefur verið ráðinn til SPRON
Verðbréfa í Berlín og mun hann leiða fasteignahluta starfseminnar þar. 

Fyrirtækjaráðgjöf SPRON Verðbréfa hefur m.a. fyrir hönd fjárfestingafélags
SPRON og hóps íslenskra fjárfesta nýlega lokið kaupum á fasteignum fyrir um
fimm og hálfan milljarða króna í íbúðarhúsnæði í miðborg Berlínar. 
Fjárfestingarnar taka til 430 íbúða og rúmlega 40.000 fermetra á góðum stöðum í
Berlín og er SPRON um 35% aðili að þeim. 

Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON hf og stjórnarformaður SPRON Verðbréfa:

“Opnun skrifstofu í Berlín gerir okkur kleift að fylgja betur eftir þeim
fjárfestingum sem að við höfum ráðist í með viðskiptavinum okkar og nýta þá
þekkingu og reynslu sem byggð hefur verið upp að undanförnu. Við sjáum frekari
tækifæri á þessum markaði og horfum einnig til baltnesku landanna og Mið-Evrópu
þar sem efnahagsumhverfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. 
Aukin áhersla á fjárfestingabankastarfsemi er í samræmi við stefnu SPRON og
gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum okkar fjölbreyttari
fjármálaþjónustu.” 

Frekari upplýsingar veitir: 

Guðmundur Hauksson
Forstjóri SPRON hf. 
og stjórnarformaður SPRON Verðbréfa
Sími: 550 1200

Örn Viðar Skúlason 
Forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar
SPRON Verðbréfa
Sími: 550 1765