2014-12-18 10:40:05 CET

2014-12-18 10:41:06 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Landsbankinn hf. - Fyrirtækjafréttir

Landsbankinn hf.: Nýtt landslag á kortamarkaði


Í samræmi við sátt sem Landsbankinn hefur gert við Samkeppniseftirlitið hefur
bankinn unnið að breytingum á kortamálum sem ætlað er að einfalda og bæta
þjónustu við viðskiptavini um leið og sjálfstæði bankans á þessum markaði
verður tryggt.  Bankinn tekur með þessu fullan þátt í að koma á  breytingum á
kortamarkaði sem ætlað er að tryggja eðlilegt samkeppnisumhverfi. Breytingar
hafa verið lengi í undirbúningi en munu birtast viðskiptavinum smám saman á
næstu mánuðum og árum. 

  -- Breytingarnar fela í sér að bankinn selur minnihlutaeign sína í bæði
     Valitor og Borgun og fellst með því á þau meginsjónarmið
     Samkeppniseftirlitsins að óeðlilegt sé að fleiri en einn banki eigi saman
     slík kortafyrirtæki.
  -- Landsbankinn hættir útgáfu Mastercard og mun frá og með næsta vori eingöngu
     bjóða viðskiptavinum sínum Visa kort.
  -- Samhliða þessu hefur bankinn samið beint við Visa Europe og miðar
     samningurinn að því að efla þjónustu bankans með nýjum og betri lausnum
     fyrir viðskiptavini.
  -- Landsbankinn hyggst breyta kortafyrirkomulagi sínu verulega, bjóða mun
     einfaldari og þægilegri þjónustu og nýjar lausnir fyrir viðskiptavini í
     framtíðinni, m.a. með því að auka hlutfallslega notkun debetkorta.
  -- Landsbankinn losnar undan áhrifavaldi samkeppnisaðila í Valitor og Borgun,
     sem hafa stýrt þróun á kortamarkaði án þess að Landsbankinn hafi haft
     nokkuð um þau mál að segja, þrátt fyrir að eiga umtalsverðan hlut í báðum
     þessum kortafyrirtækjunum.
  -- Landsbankinn hefur legið með verulegt fé bundið í hlutafjáreign í
     kortafyrirtækjum og mun með þessum breytingum nýta það betur, t.d. með því
     að greiða hluta þess í arð til eigenda.
  -- Landsbankinn gerir samkomulag við Samkeppniseftirlitið til að liðka fyrir
     þessum breytingum og  fellst á greiðslu 450 milljóna króna sektar vegna
     mála sem eiga rætur að rekja til ársins 2007.
  -- Sáttin við Samkeppniseftirlitið á að öllu óbreyttu að leiða af sér lægri
     þóknun verslana til færsluhirða og þar með til lægra vöruverðs til
     neytenda.

Landsbankinn hefur unnið að ofangreindum breytingum um langa hríð, m.a.  vegna
stöðu sinnar í Valitor og Borgun, en einnig vegna yfirvofandi breytinga á
kortamarkaði sem varða bæði tækni og verðlagningu á þjónustu. Landsbankinn
tekur af skarið og ýtir undir samkeppni á kortamarkaði með því að hverfa úr
eigendahópi kortafyrirtækja og með öðrum aðgerðum sem hann ræðst í.  Með því að
efla sjálfstæði bankans í kortamálum verður bankinn eftirleiðis í stöðu til að 
bjóða út þjónustu sem greiðslukortafyrirtæki veita og draga þannig úr kostnaði.
Með því að einbeita sér að útgáfu Visakorta, næst einnig fram hagræðing í
rekstri. 

Minnihluti hlutafjár í Valitor seldur til Arion banka

Landsbankinn hefur selt 38% eignarhlut sinn í Valitor Holding hf. (móðurfélagi
Valitor hf.) á 3,6 ma.kr. til Arion banka. Samkvæmt því er allt hlutafé Valitor
verðlagt á 9,5 ma.kr. Til viðbótar mun Arion banki greiða Landsbankanum
viðbótargreiðslu fái Valitor greiðslur frá Visa Europe vegna valréttar sem í
gildi er milli Visa Europe og Visa Inc. í Bandaríkjunum. Væntingar eru um að
viðbótargreiðslan gæti numið verulegum hluta af verðmæti hlutafjár Landsbankans
í Valitor Holding hf.  komi til hennar. Óvissa er um hver endanleg fjárhæð
viðbótargreiðslunnar gæti orðið og hvenær hún yrði greidd, en valrétturinn er
ótímabundinn.  Það skiptir Landsbankann höfuðmáli að Arion banki er reiðbúinn
að tryggja þessa viðbótarhagsmuni Landsbankans til langs tíma. Arion banki er
meirihlutaeigandi í Valitor Holding hf. og hyggst vera það áfram. Hagsmunir
Landsbankans eru því mun betur tryggðir en þeir væru með samkomulagi við
fjárfesta sem keypt hefðu minnihluta í félaginu. Af þessari ástæðu var það
talið ganga gegn hagsmunum Landsbankans að bjóða hlutinn til sölu á almennum
markaði. 



Samningur við Visa Europe

Landsbankinn hefur undirritað samning við Visa Europe sem felur í sér m.a.
milliliðalaust samband við fyrirtækið. Þessi samningur mun einfalda
kortarekstur bankans og skapa forsendur fyrir auknu sjálfstæði í kortaútgáfu,
einfalda útboð á þjónustu sem tengist kortamarkaði, hvort heldur er innanlands
eða  erlendis og auðvelda  Landsbankanum að innleiða nýjungar á vegum Visa.
Samningurinn mun einnig gera bankanum  mögulegt að stýra kortaþjónustu og
kortaframboði  betur  en verið hefur og aðgangur að ráðgjöfum Visa Europe mun
færa bankann nær  vöruþróun en nokkru sinni fyrr. Með þessu er tryggt að
Landsbankinn geti á hverjum tíma boðið viðskiptavinum sínum bestu mögulegu
vörur sem VISA býður. Þessi samningur er rökréttur fyrir Landsbankann þar sem
nálega 98% viðskiptavina bankans nota VISA greiðslukort. 



Samkomulag við Samkeppniseftirlitið

Landsbankinn hefur undirritað sátt við Samkeppniseftirlitið vegna rannsókar á
brotum á kortamarkaði sem varðar stærstu bankana þrjá og fyrirtækin Valitor og
Borgun. Með sáttinni fellst bankinn á að vinna að breytingum á skipulagi á
kortamarkaðinum sem eiga að örva samkeppni. 

Viðurkennt er af hálfu Landsbankans að tiltekin framkvæmd á
greiðslukortamarkaði á árunum 2007-2009 hafi ekki verið í samræmi við 10. gr.
samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins, fallist er á greiðslu sektar að
fjárhæð 450 milljónir króna og á að ráðast í aðgerðir sem eiga að efla
samkeppni. 

Aðgerðirnar fela m.a. í sér að sett verður hámark á svokölluð milligjöld
einstaklingskorta en þau greiða færsluhirðar til kortaútgefenda og er þeim
ætlað m.a. að standa undir kostnaði útgefanda vegna ábyrgða á greiðslum,
fjármögnunar úttekta, kortasvika og vöruþróunar. Milligjöld munu lækka í
kjölfar sáttarinnar og það ætti að leiða til lægra vöruverðs. Þá er í sáttinni
gert ráð fyrir því að Landsbankinn eigi ekki eignarhluti í Borgun og Valitor
með öðrum viðskiptabönkum. 

Í sáttinni tekur Samkeppniseftirlitið fram að Landsbankinn kom að eigin
frumkvæði á fund Samkeppniseftirlitsins og lýsti yfir vilja til að gera
breytingar á greiðslukortastarfsemi sinni áður en eftirlitið birti
frumniðurstöður sína í málinu. Einnig kemur fram að bankinn hafi ekki haft
beina stjórnunarlega aðkomu að kortafyrirtækjunum frá árinu 2008. Ekkert bendi
til þess að starfsmenn bankans hafi haft ástæðu til að efast um lögmæti
samninga bankans við Valitor og Borgun um milligjöld. Þá tekur
Samkeppniseftirlitið fram í sáttinni að Landsbankinn sýndi ríkan samstarfsvilja
og studdi rannsókn og málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins. Með sáttinni er
rannsókn Samkeppniseftirlitsins gagnvart Landsbankanum lokið. 



Samningur við Valitor um þjónustu á næstu árum

Landsbankinn hefur einnig á undanförnum mánuðum endurmetið stöðu sína á
kortamarkaði, m.a. með tilliti til samkomulags um útgáfuvinnslu greiðslukorta
og rafeyris. Sú vinna tók mið af ýmsum þáttum, m.a. greiningu á samkeppnisstöðu
á kortamarkaði og niðurstöðu könnunar á verði og þjónustu kortafyrirtækja sem
bankinn gerði í mars 2014. Í kjölfarið tókust samningar milli Valitor og
Landsbankans um að Valitor annist áfram fyrir hönd Landsbankans útgáfu og
vinnslu kreditkorta og útgáfu debetkorta. Samningurinn tekur ekki til
færsluhirðingar Valitor eða samskipta Landsbankans og færsluhirða og er því í
samræmi við sátt við Samkeppniseftirlitið um skýra aðgreiningu færsluhirðingar
og útgáfu greiðslukorta. Þeir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans hf.,
og Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor hf., skrifuðu 12. desember sl. undir
samning þessa efnis. Gildistími samningsins er frá 22. apríl 2015 og er hann
til fjögurra ára. 



Nánari upplýsingar:

Kristján Kristjánsson, pr@landsbankinn.is 410 4011 eða 899 9352