2015-08-27 20:07:19 CEST

2015-08-27 20:08:20 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Eimskipafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Eimskip kynnir afkomu annars ársfjórðungs 2015


  -- Rekstrartekjur voru 126,6 milljónir evra, jukust um 17,6 milljónir evra eða
     16,2% frá Q2 2014
  -- EBITDA nam 13,3 milljónum evra, jókst úr 11,0 milljónum evra eða um 20,4%
     frá Q2 2014
  -- Hagnaður nam 5,5 milljónum evra, jókst úr 4,6 milljónum evra eða um 20,1%
     frá Q2 2014
  -- Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 6,9% frá Q2
     2014
  -- Flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 20,5% frá Q2 2014
  -- Eiginfjárhlutfall var 61,3% og nettóskuldir námu 40,0 milljónum evra í lok
     júní
  -- Áætluð EBITDA ársins 2015 hefur verið endurskoðuð og er nú á bilinu 41 til
     45 milljónir evra

Gylfi Sigfússon, forstjóri

„Rekstrartekjur og EBITDA á öðrum ársfjórðungi 2015 eru þær hæstu á einum
ársfjórðungi frá endurskipulagningu félagsins árið 2009. Rekstrartekjur jukust
um 16,2% frá öðrum ársfjórðungi á fyrra ári og EBITDA nam 13,3 milljónum evra
sem er 20,4% hækkun frá árinu 2014. Hagnaður eftir skatta nam 5,5 milljónum
evra á fjórðungnum samanborið við 4,6 milljónir evra á sama tímabili í fyrra
sem er 20,1% hækkun. 

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 6,9%
á öðrum ársfjórðungi, en mikill vöxtur var í flutningum til og frá Íslandi.
Einnig var vöxtur í flutningum í Noregi á öðrum ársfjórðungi eins og við
reiknuðum með eftir mjög erfiðan fyrsta ársfjórðung þar sem veðurfar og
aflabrestur höfðu mikil áhrif. Flutningar til og frá Færeyjum drógust lítillega
saman. Flutt magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 20,5% á öðrum ársfjórðungi,
aðallega vegna aukinna umsvifa á Nýfundnalandi og í Hollandi. 

Tekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins námu 239,3 milljónum evra
samanborið við 213,2 milljónir evra á sama tímabili í fyrra, en það samsvarar
12,2% vexti. EBITDA fyrstu sex mánuðina nam 19,1 milljón evra sem er aukning um
11,9% frá fyrra ári og hagnaður eftir skatta nam 7,0 milljónum evra samanborið
við 3,8 milljónir evra á árinu 2014 sem er 85,2% hækkun. Flutningsmagn í
áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 1,9% frá sama tímabili í fyrra
og magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 11,9%. 

Eimskip metur stöðu sína varðandi smíði á seinna skipinu í Kína sem ekki hefur
gengið samkvæmt áætlun. Eins og áður hefur komið fram var afhending áætluð í
síðasta lagi á fjórða ársfjórðungi þessa árs og er ákvörðunar varðandi skipið
að vænta á næstu dögum. 

Kaup Eimskips á Sæferðum ehf. hafa verið samþykkt af Samkeppniseftirlitinu, en
þeim er á grundvelli samkeppnislaga sett skilyrði sem Eimskip hefur skuldbundið
sig til að fylgja. Skilyrðunum er ætlað að tryggja sjálfstæði Sæferða og að
jafnræðis og hlutlægni sé gætt gagnvart viðskiptavinum Sæferða. Rekstur Sæferða
kemur þar með inní afkomu samstæðunnar frá og með 1. ágúst. 

Framkvæmdir við byggingu 10 þúsund tonna frystigeymslu félagsins í Hafnarfirði
eru í fullum gangi en félagið gerir ráð fyrir að geta tekið fyrsta áfanga
geymslunnar í notkun í október. 

Stjórn og stjórnendur Eimskips halda áfram að meta möguleg
fjárfestingartækifæri og yfirtökur til vaxtar í samræmi við framtíðarsýn
félagsins. 

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins hefur vaxið umfram væntingar það
sem af er þriðja ársfjórðungi. Rekstur félagsins tengdur Íslandi hefur verið
góður það sem af er ári og er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti. Afkoma af
starfsemi Eimskips í Noregi var undir væntingum á fyrsta ársfjórðungi vegna
veðurfars og aflabrests en afkoman var mun betri á öðrum ársfjórðungi og er
áfram gert ráð fyrir vexti. Viðskiptabann Rússa á innflutning frá Íslandi frá
og með ágústmánuði í ár veldur óvissu, en gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum
innflutningsbannsins á rekstur Eimskips þar sem félagið hefur aðeins flutt
óverulegan hluta af heildarmagni uppsjávarfisks til Rússlands, en
uppsjávarfiskurinn hefur að mestu verið fluttur með erlendum frystiskipum beint
til Rússlands. Félagið hefur ákveðið að breyta afkomuspá sinni fyrir árið 2015
í það að EBITDA verði á bilinu 41 til 45 milljónir evra í stað þess að vera á
bilinu 39 til 44 milljónir evra eins og kynnt var í febrúar 2015.“ 

Frekari upplýsingar

  -- Gylfi Sigfússon, forstjóri, sími: 525 7202
  -- Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs,
     sími: 525 7202
  -- Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang:
     investors@eimskip.is