2011-03-25 17:14:52 CET

2011-03-25 17:15:52 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Lánamál ríkisins - Fyrirtækjafréttir

Aðgerðir Lánamála ríkisins samhliða áætlun um losun gjaldeyrishafta



Í tilkynningu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins þann 25. mars 2011 um áætlun
um losun gjaldeyrishafta kemur m.a. fram að eigendur gjaldeyris muni eiga þess
kost að kaupa krónur í útboðum Seðlabankans gegn því að binda þær í
skuldabréfum sem útgefin verða af ríkissjóði Íslands. 

Af þessu tilefni verður gefinn út verðtryggður flokkur ríkisbréfa með
lokagjalddaga árið 2030. Dregið verður úr útgáfu ríkisvíxla og ríkisbréfa um
hliðstæða fjárhæð sem nemur söluandvirði hins nýja flokks. Heildarútgáfa ársins
verður þannig sem næst ársáætlun í lánamálum ríkissjóðs 2011 sem kynnt var í
lok desember sl. Til þess að tryggja útgáfu á markaði, ef mikil eftirspurn
verður eftir hinum nýja flokki, mun ríkisjóður þó að lágmarki gefa út ríkisbréf
með viðskiptavakt fyrir samtals 26 ma.kr. það sem eftir lifir árs. 

Útgáfa annarra ríkisverðbréfa á árinu mun þannig taka mið af eftirspurn eftir
nýja flokknum. Í ársáætlun í lánamálum 2011 var tilkynnt um útgáfu ríkisbréfa
fyrir 120 ma.kr. og að meðalstaða ríkisvíxla yrði 60 ma.kr. Nú þegar er búið að
gefa út ríkisbréf fyrir 34 ma.kr. Heildarútgáfa ríkisbréfa á árinu verður því
að lágmarki 60 ma.kr. og lágmarksútgáfa ríkisvíxla verður tryggð. Áhersla
verður lögð á útgáfu ríkisbréfa til lengri tíma, það er til a.m.k. 5 ára. 

Hinn nýi verðtryggði flokkur verður með svipaða uppbyggingu og RIKS 21 0414.
Fyrst um sinn verður ekki um viðskiptavakt að ræða með flokkinn. Nánari lýsing
á vaxtakjörum og skilmálum verður kynnt síðar. 

Markmiðið með þessari breytingu á útgáfuáætlun er að tryggja að hrein sala
ríkisverðbréfa haldist óbreytt þrátt fyrir aðgerðir í áætlun um losun
gjaldeyrishafta er snúa að útgáfum ríkissjóðs.