2016-05-12 18:04:42 CEST

2016-05-12 18:04:42 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Landsbankinn hf. - Ársreikningur

Landsbankinn hf. : Landsbankinn hagnast um 3,3 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins


Afkoma Landsbankans var jákvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta fyrstu þrjá
mánuði ársins 2016 en hagnaður á sama tímabili árið 2015 nam 6,4 milljörðum
króna.
Rekstrartekjur á 1. ársfjórðungi námu 11,5 milljörðum króna samanborið við 14,7
milljarða króna á sama tímabili árið 2015. Launakostnaður hækkaði í takti við
ákvæði nýrra kjarasamninga en á hinn bóginn lækkaði annar rekstrarkostnaður
þannig að heildarrekstrarkostnaður bankans lækkaði um 0,5% miðað við sama
tímabil 2015.
Vaxtamunur eigna og skulda nam 1,9% á 1. ársfjórðungi 2016 en var 2,0% á sama
tímabili árið áður.
Útlán Landsbankans jukust miðað við sama tímabil í fyrra, þrátt fyrir mikla og
vaxandi samkeppni á lánamarkaði. Einnig hækkuðu þjónustutekjur vegna vaxandi
viðskipta.
Vanskilahlutfall heldur áfram að lækka og var 1,7% á 1. ársfjórðungi, samanborið
við 2,3% á sama tímabili í fyrra.
Kostnaðarhlutfall hækkaði sem skýrist einkum af lægri tekjum af verðbréfum.
Kostnaðarhlutfall fyrstu þrjá mánuði ársins er 55,8% samanborið við 48% á sama
tímabili árið áður.
Eigið fé Landsbankans var 267,8 milljarðar króna 31. mars sl. og
eiginfjárhlutfallið var 31,2%. Landsbankinn greiðir á þessu ári 28,5 milljarða
króna í arð í tveimur greiðslum, annars vegar 20. apríl og hins vegar 21.
september og gætir áhrifa arðgreiðslunnar því ekki í þessu uppgjöri.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir: "Afkoma Landsbankans á fyrsta
ársfjórðungi er viðunandi. Af hálfu bankans hefur lengi verið rætt um að vægi
einskiptisliða, svo sem jákvæðra virðisbreytinga útlána, færi minnkandi og að
ekki væri reiknað með áhrifum einskiptisliða til framtíðar. Sú hefur orðið
raunin og uppgjörið nú lýsir reglubundnum rekstri bankans, án verulegra áhrifa
frá óreglulegum liðum.
Bankinn þarf að skila viðunandi arðsemi, en á sama tíma þarf áhætta að vera
innan marka. Bankinn þarf að vera traustur og reksturinn hagkvæmur. Í samræmi
við stefnu Landsbankans er markvisst unnið að því að draga úr áhættu og auka
skilvirkni. Í sumum tilfellum kalla hagræðingaraðgerðir á aukin útgjöld og
fjárfestingu til skamms tíma en leiða til mikils sparnaðar þegar upp er staðið.
Þetta á til dæmis við um endurnýjun á grunnupplýsingakerfum bankans sem nú er
unnið að í samvinnu við Reiknistofu bankanna.
Landsbankinn stendur vel eins og mikil og vaxandi markaðshlutdeild, traustur
efnahagur og arðgreiðslur bera glöggt merki um. Vel hefur gengið að innleiða
stefnu bankans en lykilatriði í henni er að viðskiptavinir finni að með
Landsbankanum nái þeir árangri og að þeir njóti ávinnings af viðskiptum við
bankann."
Símafundur á ensku: Þann 13. maí kl. 10:00, mun bankinn bjóða upp á símafund á
ensku þar sem farið verður yfir helstu afkomuniðurstöður ársfjórðungsins.
Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með því að senda tölvupóst á
ir@landsbankinn.is.



Nánari upplýsingar veita:
Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, pr@landsbankinn.is og í síma 410 6263 /
899 3745

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7310


[HUG#2012372]