2014-09-23 18:32:36 CEST

2014-09-23 18:33:37 CEST


SÄÄNNELTY TIETO

Englanti Islanti
Marel hf. - Fyrirtækjafréttir

Marel skipar yfirmann alþjóðlegrar nýsköpunar og þróunar


Marel hefur ráðið Viðar Erlingsson sem yfirmann alþjóðlegrar nýsköpunar og
þróunar hjá Marel.  Þetta er ný staða hjá félaginu en Viðar mun taka sæti í
framkvæmdastjórn félagsins og heyra beint undir Árna Odd Þórðarson forstjóra
Marel. 

 Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel:"Skipan yfirmanns alþjóðlegrar nýsköpunar og þróunar endurspeglar mikilvægi
nýsköpunar fyrir Marel. Viðar mun bera ábyrgð á framkvæmd og innleiðingu á
stefnu og framtíðarsýn Marel í nýsköpun og þróun. Hann mun einnig stýra frekari
forgangsröðun í starfsemi félagsins í þessum málaflokki og stytta þann  tíma
sem það tekur að þróa nýjar vörur og lausnir og koma þeim á markað. 

Viðar hefur sýnt mikla leiðtogahæfileika og ég er sannfærður um að hann muni í
þessa nýja hlutverki leiða nýsköpunarteymi Marel með farsælum hætti. Undir hans
forrystu mun teymið halda áfram að kynna til sögunnar  lausnir sem valda
straumhvörfum í matvælavinnslu. Til viðbótar við aukna nýtingu og afköst þá
hjálpa lausnir Marel  matvælaframleiðendum að bæta gæði,  öryggi og  sjálfbærni
í matvælavinnslu. Stöðugar framfarir og  framboð framsækinna lausna er einn af
hornsteinum í starfsemi Marel og mikilvægur þáttur í vexti félagsins". 

Viðar Erlingsson er 39 ára gamall og er reyndur stjórnandi  á sviði nýsköpunar
og þróunar og hefur í sínum störfum sýnt mikla frumkvöðla- og
leiðtogahæfileika. Hann gegndi lykilhlutverki í þróun Sensor X röntgentækninnar
innan Marel og átti stóran þátt í velgengni og framþróun þeirrar lausnar.
Sensor X lausnin er notuð af mörgum af helstu matvælaframleiðendum heims og
hefur aukið matvælaöryggi og gæði en lausnin er notuð til að finna bein og aðra
aðskotahluti í matvælum. Frekari framþróun tækninnar hefur orðið til þess að
hún nýtist til greiningar á fituinnihaldi í hökkuðu kjöti og til að auka
nákvæmni í  skurði á kjöti, kjúklingi og fiski. 

Viðar hefur M.Sc. gráðu í verkfræði frá DTU háskólanum í Danmörku og B.Sc.
gráðu í tölvu- og rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands. Viðar hefur verið
hluti af nýsköpunarteymi Marel undanfarin 14 ár og þar af var hann
framkvæmdasstjóri vöruseturs röntgenskoðunar síðastliðinn fjögur ár. 

Frekari upplýsingar veita:

Linda Jónsdóttir Framkvæmdastjóri Fjármögnunar og Fjárfestatengsla. S: 563 8464
/ GSM: 825 8464. 

Auðbjörg Ólafsdóttir sérfræðingur í fjárfestatengslum. S: 563 8626 / GSM: 853
8626.