2017-02-01 09:58:17 CET

2017-02-01 09:58:17 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icelandair Group hf. - Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Gott ár að baki – aukin óvissa varðandi skammtímahorfur


Icelandair Group mun birta afkomu 4. ársfjórðungs 2016 og ársins í heild eftir
lokun markaða þann 7. febrúar nk.  Drög að ársreikningi liggja nú fyrir og
samkvæmt þeim verður EBITDA ársins í heild í efri mörkum þess bils sem félagið
hefur birt á markaði, sem er 210-220 milljónir Bandaríkjadala. 

Að undanförnu hefur orðið breyting í bókunarflæði Icelandair til hins verra. 
Bókanir eru hægari en gert var ráð fyrir og meðalfargjöld á mörkuðum hafa
lækkað umfram spár. Þessa þróun má einkum rekja til aukinnar samkeppni en
einnig má leiða líkur að því að óvissa vegna breytinga í alþjóðastjórnmálum
hafi áhrif á eftirspurn.  Að auki hafa gjaldmiðlar þróast á óhagstæðan máta
miðað við fyrra ár, olíuverð hefur hækkað og verkfall í sjávarútvegi hefur
neikvæð áhrif á fraktstarfsemi félagsins. Á móti kemur að horfur í
hótelstarfsemi Icelandair Group eru góðar. 

Miðað við núverandi forsendur gerir félagið ráð fyrir að EBITDA ársins 2017
verði 140-150 milljónir Bandaríkjadala. Gert er ráð fyrir að verð á
þotueldsneyti (án tillits til varna) verði 540 USD/tonn að meðaltali, gengi EUR
gagnvart USD verði að meðaltali 1,07 og gengisvísitala íslensku krónunnar verði
164 að meðaltali á árinu 2017. 

Þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða í rekstri samstæðunnar sem gert er
ráð fyrir að skili hagræðingu og auknum tekjum. Áfram er gert ráð fyrir
hóflegum innri vexti á árinu, og að mati stjórnenda félagsins eru
langtímahorfur þess góðar. 

Í takt við stefnu félagsins var efnahagsreikningur félagsins sterkur í árslok
2016. Samkvæmt drögum að ársreikningi var eiginfjárhlutfall ríflega 40% og
handbært fé og markaðsverðbréf um 250 milljónir Bandaríkjadala. Félagið er því
vel í stakk búið til að takast á við þær sveiflur sem eiga sér stað í
rekstrarumhverfi þess. 



Frekari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sími: 896-1455.
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, sími: 665-8801.