2007-11-26 08:00:00 CET

2007-11-26 08:00:00 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Kaupþing banki hf. - Fyrirtækjafréttir

- Kaupþing lýkur fjármögnun vegna yfirtöku á NIBC og minnkar stöður sínar í sérvörðum skuldabréfum


Kaupþing banki („Kaupþing”) tilkynnir um lok fjármögnunar vegna yfirtöku á
hollenska bankanum NIBC. Jafnframt tilkynnir Kaupþing að stöður í sérvörðum
skuldabréfum (e. structured credit) verða minnkaðar og gerir bankinn ráð fyrir
85 milljóna evra gjaldfærslu á fjórða ársfjórðungi. Jafnframt veitir bankinn
frekari upplýsingar um fjármögnun sína og lausafjárstöðu. 

Fjármögnun vegna yfirtöku á NIBC 

- Kaupþing hyggst gefa út nýtt hlutafé allt að 210 milljón hluti.
- Hópur fjárfesta undir forystu J.C. Flowers & Co. („Seljandi") mun fá 140
milljón hluti á meðalverði 105,67 sænskar krónur. 
- Kaupþing hyggst gefa út 70 milljón hluti og selja í forgangsréttarútboði
eftir að kaupin á NIBC eru frágengin. J.C. Flowers & Co. og Exista hafa gert
samkomulag um að sölutryggja útboðið. 
- Fjármögnun kaupanna á NIBC er lokið.
- Kaupþing gerir ráð fyrir að kaupin verði að fullu frágengin í janúar 2008. 

Staða í sérvörðum skuldabréfum

- Kaupþing hefur skrifað undir samkomulög til að minnka stöðu sína í
eignatryggðum skuldabréfum (e. ABS) úr 1,6 milljörðum evra í 450 milljónir
evra. Gert er ráð fyrir að frágangi verði að fullu lokið um miðjan desember. 
- Samhliða áformar bankinn að loka 1,3 milljarða evru lausafjárlínu sem bankinn
hefur veitt og mun þá ekki vera með slíkar skuldbindingar gegnum lánalínur í
tengslum við stöður sínar í sérvörðum skuldabréfum (e. structured credit
exposure). 
- Kaupþing er með engar beinar stöður í bandarískum undirmálslánum (e.
sub-prime) eða skuldavafningum (e. CDOs) sem innihalda slík lán. Jafnframt
hefur Kaupþing minnkað óbeina stöðu sína í undirmálslánum í 136 milljónir
bandaríkjadala sem veitt var Seljanda. 
- Kaupþing gerir ráð fyrir 85 milljóna evru gjaldfærslu á fjórða ársfjórðungi
vegna lækkunar á gangvirði sérvarinna skuldabréfa. 

Fjármögnun og lausafjárstaða

- Langtímaskuldbindingar móðurfélags Kaupþings sem eru á gjalddaga 2008 nema
1,7 milljörðum evra og er samsvarandi tala fyrir Kaupþings samstæðuna 3,7
milljarðar evra. 
- Bæði Kaupþings samstæðan og móðurfélagið hafa öruggt lausafé til að standa
við allar skuldbindingar bankans í meira en 420 daga. Inni í þessari tölu, sem
miðast við 15. nóvember, er tekið tillit til væntanlegrar peningagreiðslu til
Seljanda. 

Fjármögnun vegna kaupanna á NIBC 
Stjórn Kaupþings mun leita eftir samþykki hluthafafundar til að gefa út og
selja 70 milljón hluti á fyrsta ársfjórðungi 2008 í forgangsréttarútboði. Gert
hefur verið samkomulag um að útgáfan verði sölutryggð af Seljanda og Exista.
Seljandi mun auk þess fá 140 milljón bréf í Kaupþingi, í stað þeirra 110
milljóna sem áður hafði verið samið um og verður meðalverð hlutanna 105,67
sænskar krónur. Að auki mun peningagreiðslan til Seljanda lækka í 1.392
milljónir evra úr 1.625 milljónum evra. Seljandi hefur samþykkt að eiga a.m.k.
110 milljón hluti af 140 til 31. desember 2008 (e. lock-up period). 

Eftir hlutafjárútboðið verður Seljandi annar stærsti hluthafinn í bankanum með
um 15,9% hlut. 

Kaupþing bíður samþykkis fjármálayfirvalda í Hollandi og á Íslandi fyrir
yfirtökunni sem ráðgert er að ljúki í janúar 2008. 

Stöður í sérvörðum skuldabréfum og gjaldfærsla á fjórða ársfjórðungi
Kaupþing hefur gripið til ráðstafana til að takmarka stöður sínar í sérvörðum
skuldabréfum (e. structured credit exposure). Í tengslum við það hefur Kaupþing
selt hluta af eignatryggðum skuldabréfum sínum (e. asset backed securities; ABS
portfolio) og undirritað samkomulag um endurskipulagningu þess sem eftir
stendur. Jafnframt gerir bankinn ráð fyrir að  loka 1,3 milljarða evru
lausafjárlínu sem hann hafði veitt. 

Í kjölfar þessa mun Kaupþing ekki vera með neinar stöður í bandarískum
eignatryggðum undirmálslánum í íbúðahúsnæði (e. RMBS). Kaupþing hefur óbeina
stöðu þar sem bankinn veitti lán til seljanda NIBC til að fjármagna eignatryggð
skuldabréf tengd undirmálslánum (e. sub-prime) sem seld voru frá NIBC til
Seljanda. Þetta lán hefur nú verið lækkað úr 236 milljónum bandaríkjadala í 136
milljónir en nafnvirði undirliggjandi eigna nemur sem fyrr 689 milljónum
bandaríkjadala. Er þetta hluti af breyttu samkomulagi við Seljanda. Eftir þessi
viðskipti á NIBC engar eignir í bandarískum undirmálslánum (e. sub-prime). 

Eftir ofangreinda endurskipulagningu mun Kaupþing eiga eignatryggð skuldabréf
sem nema 450 milljónum evra, þar af eru 250 milljónir evra í skuldatengdum
lánum (e. credit linked loans) og 200 milljónir evra í eignatryggðum
skuldabréfum, einkum lánavafningum (e. CLOs), með AAA lánshæfiseinkunn.
Skuldatengdu lánin samanstanda af margvíslegum eignatryggðum skuldabréfum með
háu lánshæfismati sem að mestu leyti eru takmörkuð við lánavafninga (e. CLOs)
og hávaxta skuldabréfavafninga (e. high yield CDOs). Eignatryggð skuldabréf
bankans innihalda hins vegar ekki undirmálslán (e. US sub-prime), vafninga af
skuldabréfavafningum (e. CDO squared) eða vafninga af undirmálsíbúðalánum (e.
CDOs of sub-prime RMBS). Allar undirliggjandi eignir bankans í eignatryggðum
skuldabréfum hafa lánshæfismatið A eða hærra, þar af 86% með AA eða hærra. 

Ofangreindar eignir eru þau eignatryggðu skuldabréf sem New Bond Street Asset
Management (NBSAM) stýrir fyrir hönd Kaupþings. Þar að auki stýrir NBSAM
afleiðum af  fyrirtækjaskuldabréfavafningum (e. corporate synthetic CDOs) upp á
300 milljónir evra og skuldabréfum útgefnum af  fjármálafyrirtækjum með
breytilegum vöxtum (e. financial FRN), sem nemur alls 1,2 milljörðum evra.
NBSAM er eignastýringarfyrirtæki sem starfar með heimild breska
fjármálaeftirlitsins, FSA, og sér um skuldabréfafjárfestingar fyrir hönd
Kaupþings og stýrir einnig eignum fyrir þriðja aðila. 

Vegna endurskipulagningarinnar og í kjölfar óhagstæðrar þróunar á lánamörkuðum
að undanförnu gerir Kaupþing ráð fyrir 85 milljóna evru gjaldfærslu á fjórða
ársfjórðungi 2007. 

Lausafjárstaða og fjármögnun Kaupþings 
Stefna Kaupþings er að hafa ávallt öruggt lausafé til að standa skil á öllum
skuldbindingum sínum sem eru á gjalddaga í að minsta kosti næstu 360 daga sem
og að viðhalda starfsemi bankans án þess að sækja frekara fjármagn á
fjármagnsmarkaði. Öruggt lausafé bankans samanstendur af reiðufé, alþjóðlegum
skuldabréfum með hátt lánshæfismat og sem eru gjaldgeng í endurhverfanleg
viðskipti, og ádráttarlínum (e. back-up facilities) sem eru óuppsegjanlegar (án
MAC skilmála) og til lengri tíma en eins árs. Þann 15. nóvember hafði Kaupþing
öruggt lausafé í meira en 420 daga. Inni í þessari tölu er tekið tillit til
væntanlegrar peningagreiðslu til seljanda NIBC. 

Öruggt lausafé hjá NIBC, sem reiknað er á sama hátt, er yfir 720 dagar og
samanlagt (pro-forma) öruggt lausafé Kaupþings og NIBC er yfir 600 dagar. 

Fjármögnun Kaupþings fer fram hjá móðurfélaginu en auk þess fjármagna tvö
dótturfélög bankans sig sjálf: FIH í Danmörku og Kaupthing Singer & Friedlander
í Bretlandi. Langtímaskuldbindingar móðurfélags Kaupþings sem eru á gjalddaga
árið 2008 nema 1,7 milljörðum evra og samsvarandi tala fyrir samstæðuna í heild
nemur 3,7 milljörðum evra. Til samanburðar má geta þess að þann 15. nóvember
hafði móðurfélag Kaupþings fjármagnað sig um nærri 6 milljarða evra frá upphafi
árs. Í tengslum við fjármögnun vegna yfirtöku á NIBC þá gaf Kaupþing út
víkjandi lán (e. Tier 1) fyrir 400 milljónir og var það selt til fjárfesta í
Asíu. 

Kaupþing hefur, í samræmi við stefnu bankans um dreifða fjármögnun, nýtt ýmsar
leiðir til fjármögnunar á árinu, svo sem almenn skuldabréfaútboð, lokuð útboð
og tvíhliða lán. Við þetta má bæta að fjármögnunarkostnaður Kaupþings hefur
ekki hækkað frá árinu 2006. 

Sé misræmi á milli texta ensku og íslensku útgáfu þessarar fréttatilkynningar
gildir texti ensku útgáfunnar. 

Frekari upplýsingar veita:
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri í síma 444 6101
Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs í síma 444 6112 eða
ir@kaupthing.com