2008-05-22 01:58:29 CEST

2008-05-22 01:59:57 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Atorka Group hf. - Ársreikningur

- 3 mánaða uppgjör 2008


Helstu niðurstöður úr 3 mánaða uppgjöri Atorku Group hf.:

Samstæðureikningur:
•  Tap eftir skatta í samstæðureikningum Atorku Group hf., fyrstu 3 mánuði
   ársins var 7.168 milljónir króna, sem má að stærstum hluta rekja til
   mikillar veikingar krónunnar. 
•  Tekjur á fyrstu 3 mánuðum ársins voru 21 milljarðar króna.
•  Heildareignir samstæðunnar í lok mars voru 120,4 milljarðar króna.
•  Eigið fé var 2,5 milljarðar í lok mars.

Móðurfélagsreikningur:
•  Tap eftir skatt á fyrsta ársfjórðungi ársins var 1.870 milljónir króna.
•  Heildareignir í lok mars voru 64,7 milljarðar króna. 
•  Eigið fé var 19,9 milljarðar króna í lok mars.
•  Eiginfjárhlutfall er um 31% í lok mars.

Magnús Jónsson forstjóri Atorku:
 „Afkoma Atorku fyrstu þrjá mánuði ársins er ásættanleg við krefjandi
markaðsaðstæður. Þrátt fyrir lækkun á skráðum eignum þá horfum við bjartsýnum
augum á eignasafn félagsins til lengri tíma. Rekstur félaga í eignasafni Atorku
gengur vel og er unnið markvisst að uppbyggingu þeirra. Á fjórðungnum jók
Atorka við eignarhlut sinn í Geysi Green Energy og erum við nú stærsti
hluthafinn með um 44%. Með hækkandi olíuverði og auknum umhverfiskröfum er
ljóst að fjárfestingar okkar í endurnýtanlegri orku fela í sér mikil tækifæri
til frekari verðmætasköpunar.“ 
Helstu viðburðir 

•  Atorka jók við eignarhlut sinn í Geysir Green Energy (GGE) og er nú stærsti 
   hluthafinn með um 44% hlut. 
•  Fyrsta borverkefni Heklu Energy GmbH, dótturfélags Jarðborana í Þýskalandi,
   er komið vel á veg, en boranir hófust í Mauerstetten í Bæjaralandi í lok 
   janúar s.l. Þess er vænst að lokið verði við fyrstu holuna í júní
   næstkomandi, en áætlað er að bora þar 3-4, 4000-5000 metra djúpar holur.
•  Jarðboranir fengu í febrúar viðurkennda vottun fyrir gæðastjórnunarkerfi í 
   samræmi við staðalinn ISO 9002:2000.  Umhverfismál skipa veigamikinn
   sess í starfsemi fyrirtækisins. 
•  Promens hefur hafið byggingu nýrrar verskmiðju í Nitra í Slóvakíu fyrir
   framleiðslu á íhlutum fyrir bílaiðnaðinn. Nýja verksmiðjan kemur í
   stað eldri verksmiðju í Nitra. Þróunin í framleiðslu bílaíhluta er á þann
   veg að framleiðslan flyst æ meira til austur Evrópu og annarra svæða með
   lágan framleiðslukostnað. 
•  Promens hefur lagt aukna áherslu á vöruþróun og hefur félagið m.a. fengið 
   nýsköpunarviðurkenningar frá snyrtivöruframleiðendum fyrir nýjar „air
   free“ umbúðir sem félagið er með einkaleyfi á. Þær hafa m.a. þann eiginleika
   að varðveita efnisinnihald frá sólarljósi og súrefni og hafa hlotið góðar 
   viðtökur frá viðskiptavinum m.a. í snyrtivöruiðnaðinum.
•  Eignarhlutur í Amiad hefur verið aukinn í  24%. Amiad Filtration er leiðandi
   á alþjóðamarkaði í framleiðslu á vatnshreinsibúnaði. Velta félagsins jókst
   um 30% á síðasta ári og EBIT um 65%. Pantanastaða hjá Amiad er mjög góð. 
•  Eignarhlutur í Romag hefur verið aukinn í  rúmlega 23%. Romag er leiðandi
   framleiðandi á sérhæfðum glerlausnum og hefur m.a. þróað gler sem nýtir birtu
   til rafmagnsframleiðslu. Velta Romag á fyrri hluta núverandi fjárhagsárs
   jókst um 69% og hagnaður um 21%. Félagið hefur aukið markaðshlutdeild sína á
   meginlandi Evrópu. Romag gerði m.a. nýlega samning við Gulf International
   Trading Group með þann tilgang að útvíkka markaðssvæði sitt til Sameinuðu
   arabísku furstadæmanna og nærliggjandi landa. 
•  Eignarhlutur í Asian Environment Holdings hefur verið aukinn í rúmlega 17%.
   Félagið keypti verksmiðju með framleiðslugetu upp á 85.000m3/dag og stækkun
   upp í 135.000m3/dag og mun félagið eiga og reka vatnshreinsistöðina í 30 ár.
   Heildarvirði fjárfestingarinnar nemur um 34 milljónum dollara. 
•  Afkoma og starfsemi Atorku endurspeglast í móðurfélagsreikningi en ekki í
   samstæðureikningi. Því eru ákvarðanir teknar út frá móðurfélaginu til að
   mynda gengisvarnir sem verja fjárfestingar móðurfélagsins fyrir sveiflum á
   gjaldeyrismarkaði en koma nú fram sem tap í samstæðureikningi við veikingu
   krónunnar. 
•  Þær lækkanir sem áttu sér stað á fyrsta ársfjórðungi hafa að hluta gengið til
   baka og nemur hagnaður móðurfélagsins yfir 900 milljónum króna það sem af er 
   af öðrum ársfjórðungi. 
•  Félagið er vel fjármagnað á hagstæðum kjörum og er með trygga fjármögnun fram
   yfir mitt ár 2009. 
•  Fyrir lok fjórðungsins var innleystur stærstur hluti gengishagnaðar vegna
   veikingar krónunnar. 
•  Lausafjárstaða félagsins er góð og var staðan um 11 milljarðar króna í lok
   mars 2008. 

Framtíðarhorfur
Horfur í fjárfestingarverkefnum Atorku eru góðar. Áfram verður lögð áhersla á
að styðja og stækka þau fjárfestingarverkefni sem eru í eignasafni félagsins.
Flest fjárfestingarverkefni Atorku eru tiltölulega lítið háð hagsveiflum og eru
félögin flest starfandi á vaxtarmörkuðum. Unnið er að hraðri uppbyggingu hjá
Geysi Green Energy og sér Atorka mikil tækifæri í frekari verðmætasköpun í því
félagi. Promens mun áfram vinna að frekari vexti með „buy and build“ með
áherslu á Austur Evrópu. Sterk fjárhagsstaða Atorku gefur félaginu tækifæri á
að styðja við núverandi fjárfestingarverkefni ásamt því að skoða ný tækifæri
sem skapast hafa við núverandi markaðsaðstæður. 

Nánari upplýsingar veita;
Magnús Jónsson, 
forstjóri í síma 540 6200 

Valdís Arnardóttir
forstöðumaður samskiptasviðs í síma 840 6217
Reikninga Atorku Group má finna á heimasíðu félagsins www.atorka.is