2008-02-01 10:52:39 CET

2008-02-01 10:52:55 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Skipti hf. - Ársreikningur

2007


Skipti hf. skilar 3,1 milljarða króna hagnaði 2007
- viðsnúningur upp á 6,7 milljarða króna frá fyrra ári.

•  Salan jókst um 7,7 milljarða króna á milli ára eða um 31%. Sala nam 32,7    
   milljörðum króna samanborið við 25,0 milljarða árið áður. 

•  Hagnaður ársins var 3,1 milljarður króna samanborið við 3,6 milljarða króna
   tap fyrir árið 2006. 

•  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er 9,5 milljarðar
   króna samanborið við 8,4 milljarða króna árið áður. EBITDA hlutfall var 
   28,5%. 

•  Skipti hafa á undanförnum misserum keypt fyrirtæki með starfsemi í Bretlandi
   og á Norðurlöndum. Á árinu mynduðust um 20% af tekjum samstæðunnar utan
   Íslands. 

•  Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 9,0 milljörðum króna.

•  Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 34%

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta hf.

“ Afkoma samstæðunnar er mjög góð hvort sem horft er til starfseminnar í
fjarskiptum eða upplýsingatækni. Horfur í rekstri fyrir þetta ár eru ágætar.
Skipti heldur áfram að fylgja þeirri stefnu að efla starfsemina erlendis og á
undanförnum misserum höfum við keypt félög með starfsemi í Bretlandi, Danmörku,
Noregi og Svíþjóð. Á Íslandi hefur starfsemin gengið mjög vel og stærsta
dótturfélagið, Síminn, skilar mjög góðri afkomu auk þess sem þjónusta við
viðskiptavini hefur verið efld enn frekar. Undirbúningur fyrir skráningu Skipta
á markað gengur vel en vegna viðræðna um möguleg kaup á slóvenska
fjarskiptafélaginu Telecom Slovenije þá hefur ferlinu seinkað nokkuð og er nú
stefnt að skráningu í lok mars” 


Nánari upplýsingar um samstæðuuppgjörið veitir:

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri
Sími 550-6003

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs
Sími 863-6075


Um samstæðuskilin

Rekstur

Sala ársins 2007 nam 32.719 m.kr. samanborið við 25.030 m.kr. árið áður, sem er
31% aukning. Þessi mikla hækkun skýrist að hluta til af tekjum frá Aerofone,
Sirius IT, Sensa, Ventelo og Business Phone, sem eru ný fyrirtæki í
samstæðunni. Einnig hefur sala á þjónustu Símans aukist í flestum
þjónustuflokkum. 

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) nam 5.291 m.kr. og jókst
um 15% á milli ára. 

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 9.493 m.kr., miðað
við 8.443 m.kr. árið áður. Það er aukning um 1.050 m.kr eða 12,4%. EBITDA
hlutfallið er nú 28,5% samanborið við 33,4% árið áður. Skipti hefur á
undanförnum misserum keypt fyrirtæki í upplýsingatæknigeiranum en sá markaður
skilar að jafnaði lægra EBITDA hlutfalli en fyrirtæki í fjarskiptageiranum en á
móti eru fjárfestingar að jafnaði lægri í upplýsingatæknigeiranum. 
Afskriftir félagsins námu 4.202 m.kr. á árinu samanborið við 3.837 m.kr. árið
2006. 

Hagnaður samstæðunnar eftir skatta nam 3.082 m.kr. sem er um 9,2% af
reglubundnum tekjum, samanborið við neikvæða afkomu upp á 3.560 m.kr. árið
2006.  Þessi viðsnúningur skýrist fyrst og fremst af gengisþróun íslensku
krónunnar, söluhagnaði af Fasteignafélaginu Jörfa og góðum rekstri félaga. 

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 9.014 m.kr. yfir árið en var
8.654 m.kr. árið 2006. 

Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum (CAPEX) námu 3.490
m.kr. á tímabilinu en námu 2.117 m.kr. fyrir árið 2006. Aukninguna má að mestu
rekja til fjárfestingar í þriðju kynslóðar farsímakerfi sem Síminn hefur hafið
uppbyggingu á. 

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar námu 97.641 m.kr. 31. desember 2007 og jukust eignir
um 10% á árinu eða um 8,7 ma.kr. 
Eigið fé félagsins nam 32.757 m.kr. í árslok 2007 og eiginfjárhlutfall var 34%.

Helstu atburðir árið 2007

•  Á aðalfundi Símans hf. þann 15. mars sl. var samþykkt að skipta Símanum upp í
   Skipti hf., Mílu ehf. sem á og rekur grunnnetið, Fasteignafélagið Jörfa ehf.
   sem á og rekur fasteignir sem áður voru í eigu Símans og Símann hf. Skipti
   hf. varð móðurfélag félaganna.  Í dag hefur Skipti aukið hlut sinn í Símanum
   og Mílu og stendur hluturinn í 99,99% í báðum félögunum. Skipti samþykkti
   síðar á árinu kauptilboð í Fasteignafélagið Jörfa ehf. frá Exista Properties
   ehf. Söluhagnaðurinn var um 1.396 m.kr. eftir skatta.   Ástæða sölunnar var
   fyrst og fremst sú að rekstur fasteigna er ekki hluti af kjarnastarfsemi
   Skipta og í ljósi þess var ákveðið að taka kauptilboðinu en gera samhliða
   langtíma leigusamning um þær eignir sem hýsa starfsemi félagsins. 

•  Á árinu voru þrjú erlend fjarskiptafyrirtæki keypt. Breska farsímafyrirtækið
   Aerofone ásamt dönsku fyrirtækjunum Business Phone og Ventelo. Markmiðið var
   að efla enn frekar þjónustu við viðskiptavini Símans á fyrirtækjamarkaði sem
   eru með starfsemi erlendis ásamt því að fylgja eftir áformum um ytri vöxt. 

•  Síminn keypti öll hlutabréf í upplýsingatæknifyrirtækinu Sensa ehf. Stefna
   Símans hefur verið að auka sérhæfða ráðgjöf og innleiðingu samskiptalausna og
   voru kaupin á Sensa liður í þeirri stefnu. Sensa er eina fyrirtækið á Íslandi
   sem hefur hlotið gullvottun frá Cisco Systems (Gold Certified Partner) fyrir
   þekkingu sína á IP netlausnum frá Cisco. Í lok maí var svo tilkynnt að Anza
   hf. myndi sameinast Símanum frá og með 1. júlí. Með sameiningunni var horft
   til þess að ná fram auknum styrk á sviði þjónustu, ráðgjafar og sölu til
   viðskiptavina á fyrirtækjamarkaði. 

•  Tæplega helmingur hlutabréfa Símans í Tæknivörum ehf. var seldur á árinu.
   Eftir stendur 53,5% hlutur. 

•  Rekstrarfélagið Skjá miðlar ehf. var stofnað í júní um rekstur
   Upplýsingaveitunnar Já og Skjásins.
•  3G farsímanet Símans var opnað í byrjun september á höfuðborgar¬svæðinu og í
   Leifsstöð. Í desember var svo lokið við að setja upp senda á Akureyri og
   kerfið opnað fyrir viðskiptavinum.
•  Undirbúningur var hafinn fyrir skráningu Skipta hf. í kauphöll en fyrirhugað
   var að skrá félagið á markað fyrir lok ársins. Skráningu var hinsvegar
   frestað í kjölfar umsagnar frá Kauphöll þar sem ekki þótti heppilegt að fara
   með félagið á markað á meðan það væri í tilboðsferli á slóvenska
   fjarskiptafyrirtækinu Telecom Slovenije. 

Markaðsstaða og horfur

Markaðsstaða dótturfélaga Skipta er vænleg í fjarskipta- og
upplýsingatækni¬hlutanum bæði hérlendis og erlendis. Fyrirhugað er að skrá
Skipti hf. á markað fyrir lok mars og er undirbúningur fyrir það ferli vel á
veg kominn. 

Uppbygging á þriðju kynslóðar farsímakerfi (3G) hefur gengið vel og nær 3G
þjónustan í dag yfir höfuðborgarsvæðið, Akureyri og Leifsstöð. Síminn hefur
hafið tilraunir með nýtt langdrægt 3G kerfi. Ef tilraunirnar gefa góða raun er
gert ráð fyrir að óska eftir heimild frá Póst og fjarskiptastofnun til að hefja
uppbyggingu á þessu langdræga 3G kerfi á landsbyggðinni. Helsta breytingin með
tilkomu 3G felst í auknum gagnaflutningshraða en 3G kerfi Símans mun frá
upphafi bjóða upp á niðurhal allt að 7,2 Mbit/s sem er með því allra besta sem
býðst í dag. 

Það er stefna félagsins að vaxa áfram utan Íslands. Einkanlega hefur verið
horft til ytri- og innri vaxtar í Norður-Evrópu þar sem fyrirtækið hefur þegar
ráðist í fjárfestingar. Búast má við því að sá vöxtur haldi áfram. 


Um Skipti hf.
Skipti hf. er eignarhaldsfélag um rekstur fyrirtækja á sviði fjarskipta,
upplýsingatækni og afþreyingar. Innan samstæðunnar eru Síminn, Míla, Já,
Skjárinn, Sensa, Tæknivörur, On-Waves og Radiomiðun. Erlend dótturfélög eru
fjarskiptafélögin Aerofone í Bretlandi, BusinessPhone og Ventelo í Danmörku, og
upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT sem er með starfsemi í Noregi, í Svíþjóð og
Danmörku