2015-02-24 19:55:05 CET

2015-02-24 19:56:14 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka árið 2014


Hagnaður Arion banka á árinu 2014 nam 28,7 milljörðum króna eftir skatta
samanborið við 12,7 milljarða króna á árinu 2013. Arðsemi eigin fjár var 18,6%
samanborið við 9,2% árið 2013. Heildareignir námu 933,7 milljörðum króna
samanborið við 938,9 milljarða króna í árslok 2013. 

Eiginfjárhlutfall bankans í árslok 2014 var 26,3% en var 23,6% í árslok 2013 og
hlutfall eiginfjárþáttar A nam 21,8% samanborið við 19,2% í lok árs 2013. 

Ársreikningur bankans er endurskoðaður af Ernst & Young ehf.

Helstu atriði ársreikningsins

  -- Hagnaður eftir skatta nam 28,6 mö.kr. samanborið við 12,7 ma.kr. árið 2013.
  -- Eiginfjárhlutfall nam 26,3% í lok árs samanborið við 23,6% í árslok 2013. 
  -- Arðsemi eigin fjár var 18,6% samanborið við 9,2% árið 2013. 
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 24,2 mö.kr. samanborið við 23,8 ma.kr. árið 2013.   -- Hreinar þóknanatekjur námu 13,3 mö.kr. samanborið við 11,2 ma.kr. árið
     2013.
  -- Rekstrartekjur hækka á milli ára og námu 54,0 mö.kr. samanborið við 44,3
     ma.kr. árið 2013.
  -- Hrein virðisbreyting er jákvæð á árinu og nemur 2,1 ma.kr., samanborið við
     0,7 ma.kr. gjaldfærslu árið 2013.
  -- Tekju- og bankaskattar námu samtals 7,3 mö.kr. samanborið við 6,0 ma.kr.
     árið 2013.
  -- Hagnaður af aflagðri starfsemi nam 6,8 mö.kr. samanborið við 0,4 ma.kr.
     árið 2013.
  -- Kostnaðarhlutfall var 50,1% en var 57,3% árið 2013.
  -- Eigið fé bankans var 162,2 ma.kr. en nam 144,9 mö.kr. í lok árs 2013.
     Bankinn greiddi arð til hluthafa sinna upp á 7,8 ma.kr. á árinu 2014.

Helstu atriði fjórða ársfjórðungs

  -- Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 6,0 mö.kr. samanborið við 2,5 ma.kr. á
     fjórða ársfjórðungi 2013.
  -- Arðsemi eigin fjár á fjórða ársfjórðungi var 14,8% samanborið við 7,1% á
     sama tímabili árið 2013.





Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoma Arion banka var góð á árinu 2014. Regluleg starfsemi bankans gekk vel
og afkoma var umfram væntingar á öllum helstu tekjusviðum. Óreglulegir liðir
höfðu einnig jákvæð áhrif á afkomuna og þá fyrst og fremst sala á hlut í HB
Granda og vel heppnuð skráning félagsins á aðalmarkað kauphallar, en einnig
höfðu jákvæðar virðisbreytingar áhrif. 

Góður árangur hefur náðst við að auka fjölbreytni í fjármögnun Arion banka og
er bankinn í dag langstærsti útgefandi sértryggðra skuldabréfa hér á landi. 

Við höfum gert ráð fyrir því á undanförnum árum að vaxtamunur bankans myndi
lækka, sem hann hefur gert um 0,6 prósentustig, úr 3,4% í 2,8%, á tveggja ára
tímabili. Því höfum við lagt áherslu á að auka þóknanatekjur á öllum sviðum
bankans. Það hefur tekist og jukust þóknanatekjur um tæp 19% á árinu, einkum í
erlendum greiðslukortum og fjárfestingabankastarfsemi 

Arion banki jók á árinu hlut sinn í Valitor í um 99% með kaupum á 38% hlut af
Landsbankanum. Við höfum mikla trú á Valitor sem hefur verið leiðandi í
uppbyggingu greiðslukortakerfisins hér á landi og skipar mikilvægan sess í
starfsemi, stefnu og framtíðarsýn Arion banka. Valitor hefur undanfarið haslað
sér völl á erlendum vettvangi og eru spennandi tímar framundan hjá félaginu. 

Áhrifa óreglulegra liða mun gæta í minna mæli á næstu misserum enda góður
stöðugleiki í rekstri bankans og úrvinnsluverkefnum sem tengjast hruninu fækkar
ár frá ári. Það verður áfram forgangsatriði að efla þjónustu við viðskiptavini
okkar og styrkja þannig reglulega starfsemi bankans og arðsemi enn frekar. Þar
skiptir miklu áframhaldandi áhersla á þóknanatekjur og frekari hagræðingu sem
mun meðal annars nást með frekari þróun þjónustuleiða og þeirra nýjunga sem eru
að eiga sér stað í okkar þjónustu við viðskiptavini. Í því sambandi vil ég
sérstaklega nefna Arion appið og miklar vinsældir þess en einnig nýja útibúið
okkar í Borgartúni sem gefur tóninn um framtíðarþróun okkar útibúa.“ 



Símafundur á ensku

Arion banki mun halda símafund á ensku fyrir markaðsaðila, miðvikudaginn 25.
febrúar klukkan 9:15. Á fundinum mun Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion
banka, fara yfir helstu atriði í uppgjöri bankans. Áhugasamir geta sent
tölvupóst á ir@arionbanki.is og fá í kjölfarið sendar nánari upplýsingar. 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.