2015-08-20 18:25:39 CEST

2015-08-20 18:26:43 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsbankinn hf. - Ársreikningur

Landsbankinn hf.: Afkoma á fyrri helming ársins 2015


Landsbankinn hagnast um 12,4 milljarða króna á fyrri helmingi ársins 2015

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 12,4 milljarða króna eftir skatta á fyrri
helmingi árins 2015 samanborið við 14,9 milljarða króna hagnað á sama tímabili
árið 2014. Hreinar vaxtatekjur voru 16,2 milljarðar króna og hækka um 6% á
milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 3,4 milljörðum króna og hækka um
16% frá sama tímabili árið áður. Virðisbreytingar útlána lækka um 9,6 milljarða
króna á milli ára, en hagnaður af hlutabréfum hækkar á sama tíma um tæpa 5
milljarða. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 10,4% á ársgrundvelli samanborið
við 12,8% á sama tímabili árið áður. 

Kostnaðarhlutfall lækkar umtalsvert, er 44,8% á fyrri helmingi ársins en var
54,9% á sama tímabili árið áður. Rekstrarkostnaður hækkar um 2% milli ára, en
betri tekjusamsetning skýrir lækkun kostnaðarhlutfallsins. Innlán frá
viðskiptavinum hafa aukist um 13% á árinu og útlán um 6% en hluta þess má rekja
til samruna við Sparisjóð Vestmannaeyja í lok mars, en rekstraráhrifa hans
gætir nú í uppgjöri bankans í fyrsta sinn. Á fyrri helmingi ársins námu ný
íbúðalán 31,7 milljarði króna, en voru 21,5 milljarður króna á sama tíma á
síðasta ári. Landsbankinn var með mesta markaðshlutdeild í bæði hlutabréfa- og
skuldabréfaviðskiptum í Kauphöll á fyrri hluta árs. 

Steinþór Pálsson, bankastjóri segir: „Afkoma Landsbankans fyrstu sex mánuði
ársins er með ágætum, tekjusamsetningin betri en áður og fjárhagsstaðan er
traust. Bankinn hefur notið góðs af hagstæðri þróun í efnahagslífinu og á
fjármálamörkuðum og viðskipti hafa verið að aukast umtalsvert. 
Markaðshlutdeild bankans í útlána- og innlánastarfsemi og í markaðsviðskiptum
heldur áfram að aukast.  Samkvæmt mælingum Gallup í júní mælist Landsbankinn
með mestu markaðshlutdeildina á einstaklingsmarkaði, eða 35,1% og hefur aldrei
mælst hærri.  Þetta sýnir að viðskiptavinir kunna að meta það sem Landsbankinn
er að gera. 

Í lok mars sameinaðist Sparisjóður Vestmannaeyja við Landsbankann.  Samþætting
starfseminnar hefur gengið vel og leggur bankinn áherslu á að veita öfluga
fjármálaþjónustu á starfssvæðum sparisjóðsins til hagsbóta fyrir íbúa og
atvinnulíf. 

Í júlí hækkaði alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor‘s (S&P)
lánshæfiseinkunn bankans í BBB- með jákvæðum horfum.  Landsbankinn er nú kominn
í fjárfestingarflokk og það eykur traust til bankans á mörkuðum og styður við
fjármögnun hans í nánustu framtíð, bæði á innlendum og erlendum mörkuðum. 

Áætlanir stjórnvalda um losun fjármagnshafta  munu að öllum líkindum hafa
töluverð áhrif á ýmsar stærðir í efnahagsreikningi bankans.  Landsbankinn er
vel undir það búinn að mæta útflæði innlána í eigu slitabúanna sem
óhjákvæmilega mun leiða af losun fjármagnshaftana. 

Það sem af er árinu hefur Landsbankinn unnið að innleiðingu nýrrar stefnu sem
nær til ársins 2020 og felur hún í sér umfangsmiklar breytingar sem ætlað er að
skila árangri bæði til skemmri og lengri tíma.  Stefnan felur í sér enn frekari
hagræðingu í rekstri, m.a. með því að koma miðlægri starfsemi bankans undir
eitt þak en Landsbankinn hefur tekið sér frest til að vega og meta þau
sjónarmið sem fram hafa komið  um fyrirhugaða nýbyggingu. Í stefnunni er lögð
áhersla á að veita viðskiptavinum fyrirmyndarþjónustu, þróa rafræna þjónustu,
auka skilvirkni stoðeininga, móta nútímalegra tækniumhverfi og hagkvæman
efnahagsreikning um leið og áhættu er haldið innan marka. Þá er sérstök áhersla
lögð á árangursmiðaða menningu innan bankans. Saman eiga þessir þættir sem
brotnir hafa verið niður í 7 verkstrauma, að skila ánægðum og tryggum
viðskiptavinum og starfsmönnum, hagkvæmum rekstri og ásættanlegri arðsemi eigin
fjár til framtíðar.“ 

Helstu stærðir úr rekstri og efnahag á öðrum fjórðungi 2015

  -- Hagnaður nam 6 milljörðum króna á 2F 2015 samanborið við 10,6 milljarða
     króna á sama ársfjórðungi 2014.
  -- Arðsemi eigin fjár eftir skatta lækkar á milli tímabila og var 10,1% á 2F
     2015 samanborið við 18,4% á sama ársfjórðungi 2014
  -- Virðisbreytingar útlána lækka talsvert á milli tímabila og voru 0,2
     milljarðar í samanburði við 7,3 milljarða á 2F 2014.
  -- Hreinar vaxtatekjur hækkuðu milli tímabila og voru 8,9 milljarðar á 2F 2015
     en voru 7,4 milljarðar á 2F 2014.
  -- Hreinar þjónustutekjur hækkuðu á milli tímabila og voru 1,8 milljarðar á 2F
     2015 samanborið við  1,4 milljarða á sama tímabili árið áður.

Helstu stærðir úr rekstri og efnahag á fyrri helmingi ársins 2015

Rekstur:

  -- Hagnaður Landsbankans nam 12,4 milljörðum króna eftir skatta á fyrstu sex
     mánuðum ársins 2015, samanborið við 14,9 milljarða króna á sama tíma á
     árinu 2014.
  -- Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 10,4% samanborið við 12,8% fyrir sama
     tímabil árið 2014.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 16,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins
     í samanburði við 15,2 milljarða króna á sama tímabili árið 2014.
  -- Hreinar vaxtatekjur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna voru 2,8% á
     fyrstu sex mánuðum ársins en 2,6% á sama tímabili árið 2014.
  -- Hreinar þjónustutekjur námu 3,4 milljörðum króna og hafa aukist um 16% frá
     sama tímabili árið áður, einkum vegna breytinga á kortamarkaði og aukinna
     umsvifa í markaðsviðskiptum.
  -- Aðrar rekstrartekjur hækka um 4 milljarða króna sem skýrist að mestu af
     auknum hagnaði af hlutabréfum.
  -- Virðisbreytingar útlána á fyrstu sex mánuðum ársins voru jákvæðar um 1,8
     milljarða króna, en lækka engu að síður verulega milli ára, en á sama
     tímabili árið 2014 voru virðisbreytingar jákvæðar um 11,4 milljarða króna.
  -- Laun og launatengd gjöld hækka um 2% á milli tímabila en sú hækkun skýrist
     að mestu leyti af gjaldfærslum vegna starfslokasamninga. Rekstrarkostnaður
     að frátöldum launum og launatengdum gjöldum hækkar um 3% en sú hækkun
     skýrist  af auknu framlagi í Tryggingasjóð innistæðueigenda og áhrifum
     samruna.
  -- Kostnaðarhlutfall fyrstu sex mánuði ársins var 44,8% samanborið við 54,9% á
     sama tíma árið áður.
  -- Stöðugildi 30. júní voru 1.088 en voru 1.162 á sama tíma fyrir ári. Frá
     árslokum 2011 hefur stöðugildum í Landsbankanum fækkað um 18,4% eða sem
     nemur 245 stöðugildum að teknu tilliti til samruna við önnur
     fjármálafyrirtæki á tímabilinu.

Efnahagur:

  -- Eigið fé bankans nam í lok júní um 239,9 milljörðum króna og hefur það
     lækkað um 4% frá áramótum. Á fyrsta ársfjórðungi var greiddur tæplega 24
     milljarða króna arður til hluthafa.
  -- Eiginfjárhlutfall bankans (CAR - Capital Adequacy Ratio) er nú 28,0% en var
     26,8% í lok júní 2014.
  -- Heildareignir bankans námu 1.173 milljörðum í lok júní 2015. 
  -- Innlán viðskiptavina hafa aukist umtalsvert og eru 621 milljarðar króna í
     lok júní 2015.
  -- Ný útlán til viðskiptavina á fyrir helming ársins voru  95 milljarðar
     króna, en að teknu tilliti til afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta
     hækka heildarútlán um 43 milljarða á tímabilinu. Þar af um 7 milljarða
     vegna samruna við Sparisjóð Vestmannaeyja á fyrsta ársfjórðungi.
  -- Lausafjárstaða bankans er mjög sterk, bæði í erlendri mynt og í íslenskum
     krónum og vel yfir kröfum eftirlitsaðila.
  -- Gjaldeyrisjöfnuður bankans er í góðu horfi og eignir í erlendri mynt eru um
     19 milljarðar króna umfram skuldir í erlendri mynt.
  -- Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum stóðu í 2,3% í lok júní 2015, og
     hafa staðið í stað á árinu.

Aðrir þættir í rekstri fyrstu sex mánuði ársins 2015

  -- Landsbankinn hf. og Sparisjóður Norðurlands ses. skrifuðu undir
     samrunaáætlun 30. júní. Samruninn er ekki genginn í gegn þar sem hann er
     háður ákveðnum fyrirvörum sem á eftir að uppfylla.
  -- Samkvæmt mælingum Gallup í júní var Landsbankinn með mesta markaðshlutdeild
     á einstaklingsmarkaði á fyrri hluta ársins, eða 35,1% og hefur hún aldrei
     mælst hærri.  Mikill vöxtur er einnig í íbúðalánum bankans, en á fyrri
     helmingi ársins námu ný íbúðalán 31,7 milljörðum króna, en voru 21,5
     milljarður króna á sama tíma á síðasta ári.
  -- Í lok júní var Landsbankinn með mestu markaðshlutdeild í Kauphöll fyrir
     bæði hluta- og skuldabréf. Markaðshlutdeild bankans í hlutabréfaveltu var
     30,3% og var markaðshlutdeild skuldabréfaveltu bankans 21,5%.
  -- Í maí seldi Ístak hf. dótturfélag Landsbankans, fyrirtækið Ístak Ísland
     ehf., danska verktakafyrirtækinu Per Aarsleff AS.
  -- Í könnun Gallup í mars 2015, sem unnin var fyrir Landsbankann, kom fram að
     flestir aðspurðra, eða sem nemur 40%, myndu velja sér Landsbankann þegar
     kemur að eignastýringarþjónustu.
  -- Á aðalfundi bankans 18. mars var samþykkt að greiða eigendum bankans um 24
     milljarða króna í arð. Landsbankinn hefur greitt rúmlega 53 milljarða króna
     í arð vegna síðustu þriggja rekstrarára.
  -- Í mars varð Landsbankinn fyrstur banka á Íslandi til að hljóta gullmerki
     Jafnlaunaúttektar PWC. Landsbankinn er jafnframt stærsta fyrirtækið sem
     hefur undirgengist og staðist þá úttekt.
  -- Annað árið í röð taldi alþjóðlega fjármálaritið Global Finance Landsbankann
     besta bankann á Íslandi.
  -- Annað árið í röð valdi alþjóðlega fjármálatímaritið International Finance,
     Landsbankann besta bankann á Íslandi og taldi netbanka Landsbankans besta
     netbankann.
  -- Nýr netbanki einstaklinga var tekinn í notkun í janúar. Í febrúar var hann
     valinn besta þjónustusvæðið af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna.



Nánari upplýsingar veita:

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi, pr@landsbankinn.is og í síma 410 4011

Hanna Kristín Thoroddsen, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7328