2015-09-08 11:24:58 CEST

2015-09-08 11:25:59 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icelandair Group hf. - Fyrirtækjafréttir

Áframhaldandi vöxtur í millilandaflugi árið 2016


  -- Fjöldi farþega áætlaður um 3,5 milljónir
  -- Beint flug til 42 áfangastaða
  -- 18% aukning í framboði milli ára
  -- Chicago, Montreal og Aberdeen nýir áfangastaðir

Flugáætlun Icelandair, dótturfélags Icelandair Group, fyrir árið 2016 verður um
18% umfangsmeiri en á þessu ári. Gert er ráð fyrir að farþegar verði um 3,5
milljónir á árinu 2016, og muni fjölga um 450 þúsund frá yfirstandandi ári.
Flug verður hafið til þriggja nýrra áfangastaða og ferðum fjölgað til
fjölmargra borga í Norður-Ameríku og Evrópu. Alls verða 26 flugvélar nýttar til
farþegaflugsins næsta sumar, tveimur fleiri en á þessu ári. Þessi vöxtur mun
hafa í för með sér áframhaldandi eflingu ferðaþjónustunnar á Íslandi. 

Framboðnum sætiskílómetrum fjölgar um 18% á næsta ári, en flugferðum í
millilandaflugi fjölgar um 14%. Munurinn skýrist annars vegar af auknu vægi
flugs á lengri flugleiðum til Norður-Ameríku og hins vegar af því að stækkun
flugflotans á næsta ári felst í því að tvær 262 sæta Boeing 767-300 breiðþotur
bætast í flota félagsins. Nýju vélarnar taka fleiri farþega en Boeing 757
vélarnar sem félagið notar annars. 

Flogið verður til 42 áfangastaða í leiðakerfinu, sem er fjölgun um þrjá staði.
Eins og áður hefur verið tilkynnt, hefst heilsársflug í mars til Chicago í
Bandaríkjunum og flug til Montreal í Kanada hefst í maí. Þá hefst flug til
Aberdeen í Skotlandi, á Q-400 flugvélum Flugfélags Íslands í mars. Mestu
skiptir þó varðandi vöxt leiðakerfisins milli ára að tíðni er aukin á fjölmarga
áfangastaði beggja vegna Atlantshafsins, í Norður-Ameríku og Evrópu. 

Leiðakerfi félagsins hefur nærri þrefaldast að umfangi frá árinu 2009. Þá voru
farþegar um 1,3 milljónir, eða 37% þess fjölda sem gert er ráð fyrir á árinu
2016, eða 3,5 milljónum. Leiðakerfið hefur einkum byggt á tengingum á
Keflavíkurflugvelli með morgunbrottförum til Evrópu og síðdegisflugi til
Norður-Ameríku. Undanfarin ár hefur félagið verið að byggja upp annan
tengibanka, með brottförum laust fyrir hádegi til Norður Ameríku. Stækkunin á
þessum tengibanka gefur möguleika á tveimur mismunandi brottfarartímum innan
sama dags á áfangastaði, dreifir álagi á Keflavíkurflugvelli og styður vel við
aðal tengibankann. Á árinu 2016 verður töluverður hluti vaxtarins utan
megintengibankans og utan háannatímans að sumri. 



Nánari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group  sími: 896-1455
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group sími 665-8801
Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair sími 897-4017