2014-02-26 20:09:36 CET

2014-02-26 20:10:42 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka árið 2013


Hagnaður Arion banka á árinu 2013 nam 12,7 milljörðum króna eftir skatta
samanborið við 17,1 milljarð króna árið 2012. Arðsemi eigin fjár var 9,2%
samanborið við 13,8% árið 2012. Arðsemi af kjarnastarfsemi var 10,5% en var
11,4% árið 2012. Heildareignir námu 938,9 milljörðum króna samanborið við 900,7
milljarða króna í árslok 2012. Ný útlán jukust um 60% milli ára og námu tæplega
120 milljörðum króna á árinu. Útlán til viðskiptavina aukast um 12% milli ára,
einkum vegna nýrra lána tengdum uppgjöri á Drómaskuldabréfi og námu í árslok
636 milljörðum króna, samanborið við 567 milljarða króna í árslok 2012. Arion
banki hefur dregið úr áhættu í rekstri með aukinni langtímafjármögnun og
hækkuðu hlutfalli lána til einstaklinga, en þau námu í árslok tæpum 49% af
heildarlánum til viðskiptavina. Ársreikningur samstæðu Arion banka er
endurskoðaður af endurskoðendum bankans, Ernst & Young ehf. 

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 2,5 milljörðum króna sem er sami hagnaður og
á sama tímabili árið 2012. Arðsemi eigin fjár á fjórða ársfjórðungi var 7,4%
samanborið við 8,2% á sama ársfjórðungi árið 2012 og arðsemi af kjarnastarfsemi
nam 7,7% en var 7,9% á fjórða ársfjórðungi ársins 2012. 

Eiginfjárhlutfall bankans í árslok var 23,6% en var 24,3% í árslok 2012.


Helstu atriði ársreikningsins:

  -- Hagnaður eftir skatta nam 12,7 ma.kr. samanborið við 17,1 ma.kr. árið 2012.
  -- Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 2,5 mö.kr., sami hagnaður og á fjórða
     ársfjórðungi ársins 2012.
  -- Hagnaður af kjarnastarfsemi nam 11,5 mö.kr. samanborið við 13,5 ma.kr. árið
     2012.
  -- Rekstrartekjur lækka milli ára og námu 44,3 mö.kr. samanborið við 49,5
     ma.kr. árið 2012. Helstu ástæður eru lægri vaxtamunur, gengistap vegna
     styrkingar krónunnar auk þess sem aðrar tekjur eru lægri vegna minni
     virðisbreytinga eigna.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 23,8 mö.kr. og eru nokkru lægri en árið 2012,
     einkum vegna hærri fjármagnskostnaðar og lægri verðbólgu.
  -- Hrein virðisbreyting á árinu er neikvæð um 680 m.kr. Hrein virðisbreyting
     útlána var jákvæð sem nemur 159 m.kr. en á móti kemur gjaldfærsla vegna
     óefnislegra eigna upp á 839 m.kr.
  -- Arðsemi eigin fjár var 9,2,% en var 13,8% árið 2012. Arðsemi af
     kjarnastarfsemi var 10,5% samanborið við 11,4% árið 2012.
  -- Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 2,9% á árinu en var 3,4%
     árið 2012.
  -- Kostnaðarhlutfall á tímabilinu var 57,3% en var 49,8% á árinu 2012. Hátt
     hlutfall nú skýrist að mestu af lækkun á rekstrartekjum, einkum hreinum
     vaxtatekjum. Kostnaðarhlutfall af kjarnastarfsemi nam 61,2% samanborið við
     55,5% árið 2012.
  -- Tekju- og bankaskattar námu samtals 6,0 mö.kr. samanborið við 4,7 ma.kr.
     árinu  2012. Aukning var 1,3 ma.kr. þrátt fyrir lægri afkomu samstæðunnar.
  -- Lán til viðskiptavina í lok ársins námu 635,8 mö.kr. og hafa aukist um 12%
     frá árslokum 2012, einkum vegna nýrra lána sem bankinn tók yfir í tengslum
     við samning milli Arion banka og Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ)
     um uppgjör á skuldabréfi útgefnu af Dróma hf. árið 2009 í tengslum við
     flutning innlána SPRON til Arion banka.
  -- Heildareignir námu 938,9 mö.kr., samanborið við 900,7 ma.kr. í árslok 2012.
  -- Eigið fé bankans í lok ársins var 144,9 ma.kr. en nam 130,9 mö.kr. í lok
     árs 2012.


Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

Kjarnastarfsemi Arion banka á árinu 2013 er stöðug, traust og í samræmi við
áætlanir. Arðsemin er 9,2% sem er viðunandi, í ljósi stórhækkaðs bankaskatts,
og eiginfjárhlutfallið sterkt, 23,6%. Við sjáum umtalsverða aukningu í
eftirspurn eftir grunnþjónustu bankans. Þannig uxu ný útlán á árinu 2013 um 60%
borið saman við fyrra ár og námu tæpum 120 millljörðum króna. 

Vel hefur gengið að færa efnahag bankans að þeirri mynd er stefnt hefur verið
að. Lán til einstaklinga hafa aukist hlutfallslega mjög mikið á liðnum árum en
unnið hefur verið markvisst í þá átt innan bankans. Árið 2010 var hlutfall
einstaklingslána um 25% af heildarútlánum en er nú um 50%. Stórir áfangar í
þessari vinnu voru kaup á íbúðalánasafni Kaupþings árið 2011 og svo nú í árslok
2013 yfirtaka á einstaklingslánasöfnum frá ESÍ, þar á meðal Drómasafninu
svokallaða. Á sama tíma hefur hlutdeild bankans í nýjum útlánum á
íbúðalánamarkaði aukist verulega enda hefur bankinn verið í forystuhlutverki á
þeim markaði. Markmið okkar hefur verið lánabók í jafnvægi með lægra
áhættustigi - heppileg blanda af einstaklings og fyrirtækjaútlánum. Þessi
breyting endurspeglast svo m.a. í lægri vaxtamun sem mælist  2,9% á árinu 2013. 

Þótt dregið hafi nokkuð úr, þá hafa einskiptisatburðir og virðisbreytingar
eigna umtalsverð áhrif á rekstur bankans. Þannig er arðsemi reglulegrar
starfsemi nokkuð hærri en arðsemi bankans að teknu tilliti til slíkra þátta,
eða um 10,5%. Undirliggjandi rekstur bankans er góður en við stefnum að því að
gera enn betur. 

Stórkostleg aukning á opinberum álögum setur mark á uppgjörið. Vegna rekstrar
ársins 2013 greiðir Arion banki um 6,6 milljarða króna í skatta og þar af tæpa
2,9 milljarða vegna bankaskatts, sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki sem
stjórnvöld margfölduðu undir lok árs 2013 til að fjármagna áform um
skuldaleiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána. Bankaskatturinn leggst á skuldir
fjármálafyrirtækja, sem fyrst og fremst eru innlán einstaklinga og fyrirtækja.
Gera verður ráð fyrir að aðgerðir sem eru þetta íþyngjandi hafi áhrif á
starfsemi og þjónustu fjármálafyrirtækja. Þetta er að miklu leyti skattur á
innlán og mun sem slíkur hafa neikvæð áhrif á þau kjör og þjónustu sem
fjármálafyrirtæki geta boðið viðskiptavinum sínum. 

Við munum áfram vinna í tækifærum til hagræðingar og styrkja bankann í
samkeppni um viðskiptavini. Við horfum til viðmóts grunnþjónustu; útibúa okkar,
netbanka og appsins. Breytingar munu taka mið af óskum og þörfum okkar
viðskiptavina. Við munum fjölga valkostum, auka skilvirkni, hafa gjaldtöku
sanngjarna og byggja upp viðskiptasambönd til lengri tíma. Opnun nýrrar
þjónustumiðstöðvar í Borgartúni 18, um mitt þetta ár, verður mikilvægur liður í
þessari þróun. 

Mikill árangur hefur náðst við uppbyggingu bankans á undanförnum árum, árangur
sem við erum stolt af og eftir er tekið. Á árinu 2013 sótti Arion banki sér
erlenda fjármögnun fyrstur íslenskra banka frá árinu 2007. Um 60 fjárfestar frá
ýmsum löndum keyptu skuldabréf bankans sem útgefið var í norskum krónum.
Nýverið varð Arion banki svo fyrsti bankinn hér á landi í ríflega fimm ár til
að fá lánshæfismat frá alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtæki, Standard og Poor‘s.
Lánshæfismatið er BB+, aðeins einu þrepi undir lánshæfismati íslenska ríkisins.
Það var einnig ánægjulegt þegar fagtímaritið The Banker, sem er útgefið af The
Financial Times, valdi undir lok síðasta árs Arion banka sem banka ársins á
Íslandi árið 2013. Það sem var ekki síst eftirtektarvert var að þetta var í
fyrsta sinn síðan 2007 sem tímaritið sá ástæðu til að veita íslenskum banka
slíka nafnbót. Af þessu erum við sem störfum hjá Arion banka stolt. 


Afkomukynning fyrir markaðsaðila

Markaðsaðilum er boðið til fundar, á morgun, fimmtudaginn 27. febrúar, klukkan
9:30 í Borgartúni 19. Þar munu Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka,
og Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion banka, fara yfir ársuppgjör bankans. 

Þeir sem áhuga hafa á að mæta á fundinn eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig
með því að senda póst á netfangið samskiptasvid@arionbanki.is. 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.